Sýnum persónulegan áhuga með góðu augnasambandi
1 Þegar við vitnum opinberlega og hús úr húsi náum við oft augnasambandi við fólk áður en við hefjum máls á erindi okkar. Á því augnabliki getum við ef til vill skynjað af svip fólksins hvernig það tekur komu okkar og jafnvel í hvernig skapi það er. Eins getur það komið auga á ýmislegt í fari okkar. Vottur hafði heimsótt konu nokkra og hún lýsti því með svofelldum orðum: „Ég man bara eftir friðinum í vingjarnlegu brosi hennar. Ég varð forvitin.“ Það varð til þess að konan hlustaði á fagnaðarerindið.
2 Að ná augnasambandi er árangursrík leið til að hefja samræður í vitnisburðarstarfinu á götum úti eða á öðrum opinberum stöðum. Bróðir nokkur fylgist með augnaráði þeirra sem nálgast hann. Þegar hann nær augnasambandi brosir hann og býður síðan blöðin. Hann fær mörg ánægjuleg samtöl með þessu móti og dreifir mörgum ritum.
3 Skynjið líðan annarra: Með því að hafa augnasamband eigum við auðveldara með að skynja hvernig öðrum líður. Ef einhver á til dæmis erfitt með að skilja okkur eða er ekki sammála því sem við höfum sagt sést það yfirleitt á andlitinu. Ef hann er önnum kafinn eða verður óþolinmóður sjáum við það með því að taka eftir andlitssvip hans. Við getum þá aðlagað eða stytt kynninguna samkvæmt því. Með því að vera vakandi fyrir líðan annarra getum við sýnt þeim persónulegan áhuga.
4 Einlægni og sannfæring: Í mörgum menningarsamfélögum er litið svo á að það beri vott um einlægni þegar horft er í augu einhvers. Tökum eftir hvernig Jesús svaraði þegar lærisveinarnir spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Í Biblíunni segir: „Jesús horfði á þá og sagði: ‚Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.‘“ (Matt. 19:25, 26) Eflaust hefur sannfæringin í augnaráði Jesú aukið vægi orða hans. Á svipaðan hátt getur gott augnasamband hjálpað okkur að kynna fagnaðarerindið af einlægni og sannfæringu. — 2. Kor. 2:17; 1. Þess. 1:5.