Námskafli 29
Röddin
RÖDD og raddblær geta haft djúpstæð áhrif á fólk, ekki síður en orðin. Ertu ekki jákvæðari gagnvart þeim sem talar til þín með þægilegri, hlýlegri og vingjarnlegri röddu en þeim sem er kuldalegur og harður í máli?
Gæði raddarinnar snúast ekki eingöngu um tækni heldur einnig um persónuleika. Sá sem kynnir sér sannleika Biblíunnar jafnt og þétt og tileinkar sér hann fer jafnframt að tala öðruvísi en hann gerði. Röddin endurómar góða eiginleika eins og kærleika, gleði og góðvild. (Gal. 5:22, 23) Það heyrist á röddinni ef honum er einlæglega annt um aðra. Það heyrist bæði á orðavalinu og raddblænum þegar þakklæti kemur í stað stöðugrar kvörtunarsemi. (Harmlj. 3:39-42; 1. Tím. 1:12; Júd. 16) Maður þarf ekki einu sinni að skilja tungumálið til að heyra muninn á hroka, umburðarleysi, gagnrýni og hörku annars vegar og auðmýkt, þolinmæði, góðvild og kærleika hins vegar.
Í einstaka tilfellum geta sjúkdómar skaðað barkakýlið og þar með röddina og stundum geta meðfæddir gallar haft sömu áhrif. Gallinn getur verið svo alvarlegur að hann verði ekki bættur að fullu í þessu heimskerfi. En yfirleitt er hægt að bæta röddina með því að læra að beita talfærunum rétt.
Rétt er að hafa það hugfast strax í byrjun að málrómur er breytilegur frá manni til manns. Þú ættir ekki að reyna að líkja eftir rödd eða málrómi einhvers annars heldur þjálfa þá möguleika sem búa í rödd þinni, með öllum sérkennum hennar. Þessi þjálfun er aðallega tvenns konar.
Lærðu að anda rétt. Til að röddin njóti sín sem best þarf að hafa nóg loft og stjórna loftflæðinu rétt. Annars geturðu verið veik- og mjóróma og tal þitt rykkjótt.
Lungun eru breiðust rétt ofan við þindina en ekki ofarlega í brjóstholinu. Brjóstkassinn virðist einfaldlega stærri að ofan vegna axlanna. Þindin er áföst neðstu rifbeinunum og skilur að brjósthol og kviðarhol.
Ef þú dregur loftið aðeins inn í efri hluta lungnanna endist það stutt, röddin verður máttlaus og þú þreytist fljótt. Til að fá nóg loft í lungun þarftu að sitja eða standa beinn og draga axlirnar aftur. Þegar þú dregur að þér andann til að tala skaltu meðvitað fylla lungun neðan frá en ekki draga loftið aðeins efst inn í lungun. Við þetta þenst neðri hluti brjóstholsins út til hliðanna, þindin þrýstist niður og ýtir maganum og þörmunum aðeins frá þannig að þú finnur þrengja að beltinu eða fötunum um kviðinn. En lungun eru ekki þar heldur í brjóstkassanum. Þú getur prófað hvernig þú andar með því að styðja höndunum á síðurnar rétt við neðstu rifbeinin og anda djúpt. Ef þú andar rétt dregurðu ekki inn kviðinn og lyftir öxlunum heldur finnurðu rifbeinin lyftast aðeins.
Snúðu þér nú að útstreymi loftsins. Sóaðu ekki loftinu með því að blása því hratt frá þér. Andaðu því hægt frá þér en reyndu samt ekki að stjórna loftstreyminu með því að herpa saman hálsinn. Þá myndi röddin hljóma þvinguð eða óeðlilega mjó. Þrýstingur frá kviðarvöðvunum og millirifjavöðvunum ýtir loftinu út en þindin stjórnar því hve hratt það gerist.
Ræðumaður getur þjálfað öndunina líkt og hlaupari þjálfar sig fyrir keppni. Stattu beinn og ýttu öxlunum aftur, andaðu þannig að þú fyllir lungun að neðan og andaðu síðan hægt frá þér og teldu eins langt og þú nærð við hverja útöndun. Æfðu þig síðan að lesa upphátt með sams konar öndun.
Slakaðu á spenntum vöðvum. Slökun er önnur forsenda góðrar raddar. Það er hægt að bæta röddina ótrúlega mikið með því að læra að slaka á meðan maður talar. Bæði hugurinn og líkaminn þurfa að slaka á því að hugarspenna veldur vöðvaspennu.
Slakaðu á huganum með því að sjá áheyrendur í réttu ljósi. Í boðunarstarfinu geturðu minnt þig á að þú ert með verðmætar upplýsingar um ásetning Jehóva til að koma á framfæri við fólk, jafnvel þó að það séu ekki nema fáeinir mánuðir síðan þú fórst að kynna þér Biblíuna. Og þú ert að banka upp á hjá fólki vegna þess að það er hjálparþurfi, hvort sem það gerir sér grein fyrir því eða ekki. Sértu hins vegar að tala í ríkissalnum eru langflestir áheyrendur þínir þjónar Jehóva. Þeir eru vinir þínir og vilja þér allt hið besta. Hvergi í heiminum finnurðu vinsamlegri og jákvæðari áheyrendur en í ríkissalnum.
Dragðu úr spennu í hálsvöðvunum með því að einbeita þér að þessum vöðvum og slaka meðvitað á þeim. Mundu að raddböndin titra þegar loft streymir fram hjá þeim, og tónhæð raddarinnar breytist við það að herða eða slaka á hálsvöðvunum, rétt eins og þegar hert er eða slakað á streng í fiðlu eða gítar. Tónninn dýpkar þegar þú slakar á raddböndunum. Og með því að slaka á hálsvöðvunum áttu auðveldara með að halda nefgöngunum opnum og það hefur bein áhrif á málróminn.
Slakaðu á öllum líkamanum — hnjánum, höndunum, öxlunum og hálsinum. Þá færðu betri samhljómun og röddin berst lengra. Allur líkaminn virkar þá eins og hljómbotn. Vöðvaspenna dregur hins vegar úr samhljómuninni. Tónninn, sem myndast í barkakýlinu, endurómar í nefholinu, beinunum í brjóstkassanum, tönnunum, efri gómnum og kjálka- og ennisholunum. Allt hefur þetta áhrif á samhljómunina. Hljómbotninn í gítar þarf að geta titrað óhindrað til að magna hljóðið en það dofnar ef þrýst er á hann. Hið sama er að segja um bein líkamans ef vöðvarnir eru strekktir og skorða þau föst. Með góðri samhljómun geturðu breytt raddblæ að vild og tjáð ýmis tilfinningasvið. Og þá þarftu ekki að þenja raddböndin til hins ýtrasta til að það heyrist vel í þér í fjölmennum hópi.