Námskafli 35
Endurtekning til áherslu
ENDURTEKNING er snar þáttur í áhrifaríkri kennslu. Sé mikilvægt atriði sagt oftar en einu sinni aukast líkurnar á að áheyrendur muni eftir því. Og það er jafnvel til skilningsauka að ítreka hugmynd með aðeins breyttu orðalagi.
Ef áheyrendur muna ekki hvað þú sagðir hefur það ekki áhrif á trú þeirra og líferni, en sennilega halda þeir áfram að hugsa um atriði sem þú lagðir sérstaka áherslu á.
Hinn mikli fræðari Jehóva er okkur góð fyrirmynd um endurtekningar. Hann gaf Ísraelsmönnum boðorðin tíu. Hann notaði engil sem talsmann og lét þjóðina heyra þessi boðorð við Sínaífjall. Síðar lét hann Móse fá þau skriflega. (2. Mós. 20:1-17; 31:18; 5. Mós. 5:22) Að skipun Jehóva ítrekaði Móse þessi boðorð við þjóðina áður en hún gekk inn í fyrirheitna landið, og Móse færði það í letur fyrir tilstilli heilags anda, eins og lesa má í 5. Mósebók 5:6-21. Eitt af boðorðunum, sem Ísrael voru sett, var sú krafa að elska Jehóva og þjóna honum af öllu hjarta, sálu og mætti. Þetta var líka margendurtekið. (5. Mós. 6:5; 10:12; 11:13; 30:6) Hvers vegna? Vegna þess að þetta var „hið æðsta og fremsta boðorð,“ eins og Jesús sagði. (Matt. 22:34-38) Fyrir munn Jeremía spámanns minnti Jehóva Júdamenn oftar en 20 sinnum á hve mikilvægt væri að hlýða sér í öllu sem hann hafði boðið þeim. (Jer. 7:23; 11:4; 12:17; 19:15) Og Guð lét Esekíel spámann flytja þau boð meira en 60 sinnum að þjóðirnar skuli ‚viðurkenna að hann sé Jehóva.‘ — Esek. 6:10; 38:23.
Endurtekningu er líka beitt á áhrifaríkan hátt í frásögunni af þjónustu Jesú. Guðspjöllin eru til dæmis fjögur og hvert um sig segir frá mikilvægum atburðum sem um er getið í einu eða fleirum af hinum guðspjöllunum, þótt horft sé á þá frá aðeins ólíku sjónarhorni. Jesús fór oftar en einu sinni yfir sömu grundvallaratriðin í kennslu sinni en gerði það á mismunandi vegu. (Mark. 9:34-37; 10:35-45; Jóh. 13:2-17) Og fáeinum dögum fyrir dauða sinn ítrekaði Jesús þessar mikilvægu leiðbeiningar á Olíufjallinu: „Vakið . . . , þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — Matt. 24:42; 25:13.
Í boðunarstarfinu. Þegar þú vitnar fyrir fólki vonarðu auðvitað að það muni eftir því sem þú segir. Endurtekningar geta stuðlað að því.
Oft er hægt að auka áhrif orða sinna með því að endurtaka mikilvægt atriði meðan verið er að ræða það. Þannig gætirðu hert á ritningarstað, sem þú lest, með því að benda á lykilatriði í honum og spyrja svo: „Tókstu eftir hvernig þetta er orðað?“
Síðustu setningarnar í samtali geta líka verið sérstaklega áhrifaríkar. Þú gætir til dæmis sagt: „Ég vona að þú munir eftirfarandi aðalatriði eftir að ég er farinn . . .“ Síðan skaltu endurtaka það með fáeinum orðum. Það gæti verið eitthvað þessu líkt: „Guð ætlar að breyta jörðinni í paradís og við getum treyst að svo verði.“ Eða hugsanlega: „Biblían sýnir greinilega að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. Til að lifa endalokin af þurfum við að vita hvaða kröfur Guð gerir til okkar.“ Þú gætir einnig sagt: „Eins og við höfum séð gefur Biblían góð ráð um það hvernig hægt sé að takast á við vandamál fjölskyldunnar.“ Stundum mætti jafnvel endurtaka biblíutilvitnun sem maður vill að viðmælandinn muni eftir. En að sjálfsögðu þarf að hugsa fyrir fram hvernig best sé að standa að því til að það skili árangri.
Í endurheimsókn og á biblíunámskeiði getur endurtekningin meðal annars falist í því að spyrja spurninga til upprifjunar.
Þú gætir þurft að vekja máls á einhverju oftar en einu sinni ef einhver á erfitt með að skilja ráðleggingar Biblíunnar eða fara eftir þeim. Reyndu að nálgast málið frá mismunandi hliðum. Þú þarft ekki að vera langmáll en umræðurnar ættu að örva nemandann til að halda áfram að hugsa um málið. Mundu að Jesús beitti endurtekningu af þessu tagi til að hjálpa lærisveinunum að sigrast á lönguninni til að vera fremstir. — Matt. 18:1-6; 20:20-28; Lúk. 22:24-27.
Þegar þú flytur ræðu. Ef þú flytur ræðu er markmiðið ekki aðeins að miðla upplýsingum. Þú vilt líka að áheyrendur skilji þær, muni eftir þeim og fari eftir þeim. Til að ná þessu markmiði þarftu að beita endurtekningum.
Þú mátt þó ekki endurtaka aðalatriðin of oft, annars gætu áheyrendur hætt að fylgjast með. Veldu vandlega þau atriði sem herða þarf sérstaklega á. Yfirleitt eru þetta aðalatriðin sem ræðan er byggð á en það geta líka verið önnur atriði sem skipta máli fyrir áheyrendur.
Þú getur búið í haginn fyrir ítrekun og endurtekningu með því að gera stuttlega grein fyrir aðalatriðunum í inngangi ræðunnar. Gefðu gagnort yfirlit yfir það sem þú ætlar að fjalla um, annaðhvort með spurningum eða stuttum dæmum þar sem fram koma vandamál til úrlausnar. Þú gætir nefnt hve mörg aðalatriðin eru og talið þau upp. Síðan vinnurðu nánar úr þeim í meginmáli ræðunnar. Hægt er að árétta aðalatriðin í meginmáli ræðunnar með því að endurtaka hvert um sig áður en það næsta er tekið fyrir. Þessu má einnig ná fram með því að taka dæmi um það hvernig aðalatriðið á við. Að síðustu má ítreka aðalatriðin í niðurlagsorðunum með því að endurtaka þau, bregða upp andstæðum, svara spurningum sem varpað var fram eða benda stuttlega á lausnina á vandamálunum sem nefnd voru.
Reyndur ræðumaður fylgist auk þess vel með einstökum áheyrendum og veitir því athygli ef einhverjir eiga erfitt með að átta sig á ákveðinni hugmynd. Hann fer þá aftur yfir hana ef hún er mikilvæg. En það er ekki alltaf besta leiðin að endurtaka hana með sömu orðum. Kennsla er meira en það. Hann þarf að vera sveigjanlegur og geta prjónað við ræðuna undirbúningslaust. Hæfni þín sem kennari ræðst að miklu leyti af því að þú lærir að svara þörfum áheyrenda á þennan hátt.