Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 36 bls. 209-bls. 211 gr. 6
  • Unnið úr stefinu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Unnið úr stefinu
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Áhersla á ræðustef og aðalatriði
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Að semja uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Aðalatriðin dregin fram
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Aðalatriðin dregin fram
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 36 bls. 209-bls. 211 gr. 6

Námskafli 36

Unnið úr stefinu

Hvað þarftu að gera?

Vísaðu í stefið og skýrðu það með ýmsum hætti út í gegnum ræðuna.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Stefið heldur ræðunni saman og áheyrendur eiga auðveldara með að skilja og muna það sem þú segir.

REYNDIR ræðumenn vita hve mikilvægt það er að hafa ákveðið stef til að fjalla um. Stefið hjálpar þeim að einbeita sér að afmörkuðu efni þegar þeir semja ræðuna. Þá vinna þeir úr efninu með hliðsjón af þörfum áheyrenda í stað þess að drepa yfirborðslega á fjölmörg atriði. Ef hvert aðalatriði skýrir stefið og tengist því vel eiga áheyrendur auðveldara með að muna eftir þeim og átta sig á þýðingu þeirra.

Það má orða það þannig að stefið sé viðfangsefni ræðunnar. En þú bætir ræðuna tvímælalaust ef þú hugsar um stefið sem ákveðið sjónarhorn til að vinna út frá. „Guðsríki,“ „Biblían“ og „upprisan“ eru mjög breið viðfangsefni. Hægt er að fjalla um hvert þeirra frá ýmsum sjónarhornum með því að velja ákveðið stef. Tökum dæmi: „Guðsríki, raunveruleg stjórn,“ „Guðsríki mun breyta jörðinni í paradís,“ „Biblían er innblásin af Guði,“ „Biblían er gagnlegur leiðarvísir nú á tímum,“ „Upprisan veitir syrgjendum von“ og „Upprisuvonin hjálpar okkur að vera staðföst í ofsóknum.“ Þessi stef gera hvert um sig ráð fyrir gerólíkri úrvinnslu og rökfærslu.

Jesús var með skýrt og afmarkað stef í boðunarstarfi sínu hér á jörð: „Himnaríki er í nánd,“ og þetta stef var í fullu samræmi við heildarstef Biblíunnar. (Matt. 4:17) Hvernig vann hann úr því? Guðsríki er nefnt rösklega 110 sinnum í guðspjöllunum fjórum. En Jesús lét sér ekki nægja að endurtaka orðið „ríki.“ Með kennslu sinni og kraftaverkum sýndi hann greinilega fram á að hann, sem var þá á staðnum, væri sonur Guðs, Messías, sem Guð ætlaði að gefa ríkið í hendur. Jesú vakti jafnframt athygli á að það væri fyrir milligöngu sína sem aðrir fengju aðild að þessu ríki. Hann benti á hvaða eiginleika menn þyrftu að hafa til að hljóta þessi sérréttindi. Með kennslu sinni og kraftaverkum sýndi hann fram á hvaða þýðingu Guðsríki myndi hafa fyrir fólk, og benti á að fyrst hann gæti rekið út illa anda með anda Guðs væri „Guðs ríki þegar komið yfir“ áheyrendur sína. (Lúk. 11:20) Það var þetta ríki sem Jesús sagði fylgjendum sínum að vitna um. — Matt. 10:7; 24:14.

Viðeigandi stef. Þér er ekki ætlað að vinna úr stefi í sama mæli og gert er í Biblíunni, en það er engu að síður mikilvægt að hafa viðeigandi stef til að vinna úr.

Ef þú átt sjálfur að velja ræðunni stef skaltu byrja á að hugleiða markmið hennar. Síðan gætirðu þess, þegar þú velur aðalatriði ræðunnar, að þau styðji stefið sem þú hefur valið þér.

Sé stefið valið fyrir þig skaltu hugleiða það vel til að átta þig á hvernig þú átt að vinna úr efninu. Þú gætir þurft að leggja svolítið á þig til að glöggva þig á gildi og möguleikum stefsins. Ef þú velur sjálfur efni til að vinna úr úthlutuðu stefi þarftu að velja það þannig að stefið sé þungamiðjan. Og þó að þér sé lagt til efni þarftu eftir sem áður að íhuga hvernig þú átt að nota það í samræmi við stefið. Þú þarft einnig að hugleiða hvers vegna efnið á erindi til áheyrenda og hvaða markmið þú þarft að hafa þegar þú flytur það. Það auðveldar þér að ákveða áhersluatriðin í ræðunni.

Áhersla á stefið. Til að leggja viðeigandi áherslu á stefið þarftu að hafa það í huga þegar þú velur efni í ræðuna og raðar því saman. Ef þú notar aðeins efni sem rennir stoðum undir stefið og semur uppkast í samræmi við góðar vinnureglur kemur áherslan á stefið næstum sjálfkrafa.

Hægt er að draga stefið fram með endurtekningu. Í klassískum tónverkum er ákveðin laglína gjarnan endurtekin svo oft að hún einkennir allt verkið. Laglínan er ekki alltaf endurtekin í sömu mynd. Stundum bregður fyrir aðeins einni eða tveim hendingum og stundum tilbrigði við stefið, en með einum eða öðrum hætti fléttar tónskáldið laglínuna lipurlega inn í verkið uns hún ómar gegnum það allt. Þannig ætti ræðustefið líka að koma fram. Þegar lykilorð úr stefinu eru endurtekin eru þau eins og laglínan í tónverki sem er endurtekin aftur og aftur. Með því að nota samheiti lykilorðanna eða umorða stefið er komið tilbrigði við það. Þegar slíkum aðferðum er beitt verður stefið sú aðalhugmynd sem áheyrendur taka með sér heim.

Þessar aðferðir eiga ekki aðeins við um ræður sem fluttar eru í ríkissalnum heldur líka við umræður í boðunarstarfinu. Fremur stutt samtal verður eftirminnilegra ef stefið sker sig úr. Biblíunemandi man betur það sem honum var kennt ef ákveðnu stefi er haldið á loft. Þú stuðlar að góðri ræðumennsku og kennslu með því að leggja þig fram um að velja viðeigandi stef og vinna vel úr þeim.

AÐALSTEF Í MIKLU RITVERKI

Biblían er gott dæmi um það hvernig nota má stef því að Jehóva Guð fléttaði einu aðalstefi inn í bækurnar 66 sem hann lét mennska ritara sína færa í letur. Stef Biblíunnar er staðfestingin á rétti Jehóva til að ríkja yfir mannkyni og lýsing á því hvernig ríki hans kemur því til leiðar að ásetningur hans verður að veruleika.

Þetta stef kemur strax fram í fyrstu köflum 1. Mósebókar og síðan er unnið nánar úr því í framhaldinu. Nafn Guðs kemur fyrir rúmlega 7000 sinnum í Biblíunni og þannig er vakin athygli á því æ ofan í æ. Af sköpunarsögunni er ljóst að Jehóva er réttmætur stjórnandi. Sagt er frá ögrun við stjórn hans og hrikalegum afleiðingum þess að óhlýðnast honum. Greint er frá samskiptum Jehóva við sköpunarverur sínar og þau vitna um óviðjafnanlegan kærleika hans, visku, réttvísi og alvald. Ótal dæmi eru nefnd um blessunina sem fylgir því að hlýða Guði og bölvunina sem hlýst af því að óhlýðnast honum. Sýnt er fram á hvernig Jehóva ætlar að fjarlægja synd og dauða fyrir atbeina Jesú Krists. Gefnar eru ítarlegar upplýsingar um himneska stjórn sem mun eyða bæði illum andaverum og mönnum sem neita að viðurkenna rétt Jehóva til að stjórna sköpun sinni. Sýnt er fram á að ríki Jehóva mun gera jörðina að paradís og fylla hana af fólki sem elskar og tilbiður hinn eina sanna Guð og elskar hvert annað eins og hann ætlaði sér í upphafi.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Þegar þú undirbýrð ræðuna skaltu velja aðalatriði og stuðningsefni í samræmi við stefið til að geta unnið vel úr því.

  • Hugleiddu hvar og hvernig þú getir lagt áherslu á stefið þegar þú býrð þig undir að flytja ræðuna. Þú gætir jafnvel merkt á uppkastið hvar þú ætlar að gera það.

  • Endurtaktu lykilorð eða aðalhugmyndir úr stefinu af og til í ræðunni.

ÆFING: Veldu stef fyrir boðunarstarfið miðað við ákveðna grein í nýlegu hefti Varðturnsins eða Vaknið! Reyndu að vekja áhuga á því í inngangsorðunum, ræddu um eitt eða tvö atriði í meginmálinu og bentu svo á gildi þess í niðurlagsorðunum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila