SAGA 19
Fyrstu þrjár plágurnar
Ísraelsmenn voru þrælar og þurftu að vinna mjög mikið. Jehóva sendi Móse og Aron til faraós með þessi skilaboð: ‚Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti tilbeðið mig í eyðimörkinni.‘ Faraó var stoltur og sagði: ‚Mér er alveg sama hvað Jehóva segir. Ég ætla ekki að leyfa Ísraelsmönnum að fara.‘ Síðan neyddi faraó Ísraelsmennina til að vinna enn þá meira. Jehóva ákvað að láta faraó kenna á því. Veistu hvað hann gerði? Hann sendi tíu plágur yfir Egyptaland. Jehóva sagði við Móse: ‚Faraó hlustar ekki á mig. Í fyrramálið verður hann við ána Níl. Farðu og segðu honum að allt vatnið í Níl verði að blóði vegna þess að hann leyfir fólkinu mínu ekki að fara.‘ Móse hlýddi og fór til faraós. Faraó horfði á Aron slá Níl með stafnum sínum og sá vatnið breytast í blóð. Það kom vond fýla af ánni, fiskarnir dóu og það var ekkert hreint vatn í henni til að drekka. Samt vildi faraó ekki leyfa Ísraelsmönnum að fara.
Viku seinna sendi Jehóva Móse aftur til faraós með þessi skilaboð: ‚Ef þú leyfir fólkinu mínu ekki að fara fyllist Egyptaland af froskum.‘ Aron lyfti stafnum sínum og landið fylltist af froskum. Fólk fann froska í húsunum sínum, í rúmunum sínum og í matarskálunum sínum. Það voru froskar út um allt. Faraó lét Móse biðja Jehóva um að stoppa þessa plágu. Hann lofaði að hann myndi leyfa Ísraelsmönnum að fara. Jehóva stoppaði pláguna og Egyptarnir fóru að safna saman dauðu froskunum í margar hrúgur. Það var ógeðsleg lykt í landinu. En faraó bannaði fólkinu að fara.
Síðan sagði Jehóva við Móse: ‚Aron á að slá stafnum sínum á jörðina og rykið verður að mýflugum.‘ Um leið voru mýflugur út um allt. Meira að segja sumir þjónar faraós sögðu við hann: ‚Guð hefur sent þessa plágu.‘ En faraó leyfði Ísraelsmönnunum samt ekki að fara.
„Ég [sýni] þeim styrk minn og mátt og þeir munu vita að nafn mitt er Jehóva.“ – Jeremía 16:21.