SAGA 24
Þeir sviku loforðið
Jehóva sagði við Móse: ‚Komdu upp á fjallið til mín. Ég mun skrifa lögin á steintöflur og láta þig fá þær.‘ Móse fór upp á fjallið og var þar í 40 daga og 40 nætur. Á meðan Móse var á fjallinu skrifaði Jehóva boðorðin tíu á tvær steintöflur og gaf Móse töflurnar.
Þegar Móse hafði verið í burtu í marga daga héldu Ísraelsmennirnir að hann kæmi aldrei til baka. Þeir sögðu við Aron: ‚Við viljum hafa einhvern til að leiða okkur. Gerðu guð handa okkur.‘ Aron sagði: ‚Gefið mér gullið ykkar.‘ Hann bræddi gullið og bjó til styttu af kálfi. Fólkið sagði: ‚Þessi kálfur er Guð okkar sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.‘ Fólkið fór að tilbiðja gullkálfinn og hélt hátíð. Var rangt að gera það? Já, af því að það var búið að lofa að tilbiðja bara Jehóva. En núna var það að svíkja loforðið.
Jehóva sá hvað var að gerast og sagði við Móse: ‚Farðu niður til fólksins. Það er að óhlýðnast mér og tilbiður falsguð.‘ Móse labbaði niður af fjallinu með steintöflurnar tvær.
Þegar Móse nálgaðist tjaldbúðirnar heyrði hann í fólkinu syngja. Síðan sá hann að fólkið var að dansa og tilbiðja kálfinn. Þá varð Móse bálreiður. Hann kastaði steintöflunum í jörðina og þær mölbrotnuðu. Hann eyðilagði styttuna eins og skot. Svo spurði hann Aron: ‚Hvernig fékk fólkið þig til að gera eitthvað svona hræðilega rangt?‘ Aron sagði: ‚Ekki vera reiður. Þú veist hvernig þetta fólk er. Það vildi fá guð svo að ég henti gullinu í eldinn og þessi kálfur varð til!‘ Aron hefði ekki átt að gera þetta. Móse fór aftur upp á fjallið og bað Jehóva um að fyrirgefa fólkinu.
Jehóva fyrirgaf þeim sem vildu hlýða honum. Var ekki mikilvægt fyrir Ísraelsmennina að gera eins og Móse sagði?
„Þegar þú vinnur Guði heit skaltu ekki draga að efna það því að honum líkar ekki við heimskingja. Efndu það sem þú heitir.“ – Prédikarinn 5:4.