Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.2. bls. 29-32
  • Myndir þú bera út hviksögu?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Myndir þú bera út hviksögu?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvernig komast hviksögur af stað?
  • Hvers vegna hviksögur breiðast út
  • Greindu sannleika frá lygi
  • Stöðvaðu hviksögur, talaðu sannleika
  • Hvað get ég gert ef aðrir slúðra um mig?
    Ungt fólk spyr
  • Hvað veistu um votta Jehóva?
    Vaknið! – 2010
  • Vörumst að breiða út ósannindi
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2020
  • Er eitthvað að því að slúðra?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.2. bls. 29-32

Myndir þú bera út hviksögu?

Á MIÐÖLDUM lagðist á ótrúlegur orðrómur meðal svokallaðra kristinna manna í Evrópu. Hvíslað var að ár hvert um páska myrtu Gyðingar kristinn mann og notuðu blóð hans við helgiathafnir sínar. Sagt var að stundum rændu þeir kristnum börnum og pynduðu á hryllilegan hátt áður en þeir dræpu þau og notuðu blóð þeirra. Allt fram á þessa öld, á valdatíma nasista í Þýskalandi, var þessi orðrómur notaður sem afsökun fyrir því að ofsækja Gyðinga.

Nokkrum sinnum var sannleiksgildi sögunnar kannað og hún afsönnuð, en þrátt fyrir það lifði hún í næstum þúsund ár. Hefðir þú tekið þátt í að útbreiða hana ef einhver hefði sagt þér hana? Vonandi hefðum við öll búið yfir nógu heilbrigðri skynsemi eða miskunnsemi til að gera það ekki. Samt sem áður eru hviksögur lífseigar og erfiðar viðureignar. Erfitt er að kveða þær niður þegar þær eru komnar af stað. Enn þann dag í dag gjósa upp fáránlegar hviksögur og breiðast út eins og eldur í sinu.

Til dæmis varð stórt bandarískt fyrirtæki, Procter & Gamble, sem selur búsáhöld, fyrir nokkru fórnarlamb þess orðróms að það beitti sér fyrir satansdýrkun, og að vörumerki þess væri í rauninni djöflatákn. Annar útbreiddur orðrómur var á þá leið að kunn verslanakeðja, sem selur skyndimat, notaði orma í hamborgarana sem hún seldi! Fyrir allmörgum árum gaus upp sá kvittur að einn bresku Bítlanna hefði dáið í bílslysi og að tvífari hans hefði verið fenginn í staðinn. Jafnvel rit Varðturnsfélagsins hafa orðið skotspónn gróusagna — til dæmis að einn af listamönnunum hefði verið að lauma myndum af illum öndum inn í myndefni ritanna, það hefði komist upp um hann og hann hefði verið gerður rækur!

Tókstu þátt í að útbreiða einhverjar slíkar sögur? Ef svo er varst þú — kannski óafvitandi — að útbreiða ósannindi því að þær voru allar ósannar. Vissulega var orðrómurinn um rit Varðturnsfélagsins skaðlegur, auk þess að vera hreinn rógur um þá kostgæfu kristnu menn sem vinna löngum stundum við gerð myndefnis, til að gera tímaritin, bæklingana og bækurnar svona aðlaðandi. Að halda slíku fram er jafnfáránlegt eins og að segja að Guð hefði, þegar hann skapaði himintunglin, af ásettu ráði búið til mynd af ‚karlinum í tunglinu.‘

Endur fyrir löngu sagði Jehóva Guð Ísraelsmönnum: „Þú skalt ekki fara með lygikvittu.“ (2. Mósebók 23:1) Góðar og gildar ástæður lágu að baki þessu boði. Slíkur kvittur eða hviksögur hafa slæm áhrif. Þær gera þann sem ber þær út að lygara, og Jehóva hatar lygara. (Orðskviðirnir 6:16-19) Þær hafa áhrif á mannorð þess sem hviksagan er sögð um. Og þar að auki blekkja þær þá sem hlusta á orðróminn og koma þeim kannski til að breyta óviturlega. (4. Mósebók 13:32-14:4) Það er mjög ókærleiksríkt að blekkja þannig vini sína. Það gengur í berhögg við boð Guðs: „Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.“ — 3. Mósebók 19:11; Orðskviðirnir 14:25.

Ef við segjum öðrum sögu, sem við höfum heyrt, ættum við því að gæta þess vandlega að fara með rétt mál. En hvernig getum við gert það? Eitt af því sem mun hjálpa okkur til þess er að skilja eðli orðróms og hviksagna.

Hvernig komast hviksögur af stað?

Hviksaga er „orðrómur sem hefur ekki við rök að styðjast, slúðursaga, gróusaga.“ Hún getur verið „fullyrðing eða frásögn sem ekki er vitað um heimild fyrir.“ (Orðabók Menningarsjóðs; Webster’s New Collegiate Dictionary) Hviksögur berast stundum mann frá manni, stundum í heldur „virðulegri“ búningi, jafnvel á prenti eða í útvarpi. Þótt eitthvað hafi verið sagt í sjónvarpi eða dagblaði er það engin trygging fyrir að það sé satt.

Hvernig fara hviksögur af stað? Oft er ógerlegt að vita það. Stundum heyrir einn maður annan segja eitthvað, hefur það eftir honum og ýkir. Sú athugsemd að eitthvað kunni að gerast getur auðveldlega breyst í fullyrðingu um að það muni gerast, og síðan getur það breyst í að það hafi gerst. Jafnvel spaug getur orðið kveikjan að hviksögu ef einhver tekur það alvarlega og hefur það eftir.

Hviksögur gjósa gjarnan upp í andrúmslofti ótta. Þegar spámaðurinn Esekíel var að segja fyrir um ástandið í Jerúsalem, þegar endir hennar nálgaðist, sagði hann: „Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá. Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum,“ eða „hver hviksagan á fætur annarri.“ (Esekíel 7:25, 26, Ísl. bi. 1981; The New English Bible) Þegar óttinn gripi borgarbúa yrði Jerúsalem gróðrarstía hviksagna og lausafregna.

Hviksögum er stundum komið af stað af ásettu ráði. Þegar hermennirinir, sem settir höfðu verið til að gæta grafar hins staurfesta Jesú, sögðu frá þeim undraverða atburði að þeir hefðu orðið vitni að upprisu hans, sögðu öldungar Gyðinganna þeim að koma af stað ósönnum orðrómi. Þeir sögðu: „‚Segið þetta: „Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.“ Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sega hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir.‘“ Hermennirnir hlýddu. „Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.“ — Matteus 28:13-15.

Hvers vegna hviksögur breiðast út

Sú spurning er enn athyglisverðari hvers vegna orðrómur og hviksögur eru svona lífseigar eftir þær einu sinni eru komnar af stað. Ástæðan er oft einfaldlega sú að fólk vill trúa þeim. Fréttamenn dagblaða ná sumir langt í að hafa eftir hviksögur um frægt fólk. Þeir yrðu fljótt atvinnulausir ef ekki væri markaður fyrir slíkar sögur. Margir eru eins og Grikkir á dögum Páls, alltaf áfjáðir að heyra „einhver nýmæli.“ — Postulasagan 17:21.

Hviksögur breiðast líka út vegna þess að þær falla inn í útbreiddan misskilning og fordóma. Gróusagan um að Gyðingar dræpu kristna menn féll vafalaust í góðan jarðveg vegna þess að fólk skildi ekki Gyðingana. Menn voru hræddir við þá eða öfundsjúkir út í þá. Hviksögur geta líka endurspeglað útbreiddan óróleika út af einhverju. Kvitturinn um orma í hamborgurunum var lífsegur kannski vegna áhyggna fólks út af aukaefnum og leyndum hráefnum í matvælum. Og orðrómurinn um Procter & Gamble kann að hafa náð fótfestu vegna þess að svo margir hrífast af djöfladýrkun og spíritisma.

Hviksögur blomgast líka þegar ríkisstjórnir eða yfirvöld starfa ekki fyrir opnum tjöldum. Og jafnvel getur óskhyggja magnað upp hviksögur. Um áratúga skeið hafa sögur gengið um að fljúgandi diskar hafi lent hér á jörð með innanborðs góðgjarnar verur frá háþróuðum vísinda- og menningarsamfélögum á öðrum reikistjörnum. Á okkar erfiðu 20. öld getur sumum þótt hughreysting í því að trúa að þessar verur séu til.

Stundum kviknar orðrómur eða virðist staðfestur af þeim orsökum að staðreyndir eru rangtúlkaðar. Á fyrstu öld var sá orðrómur á kreiki að Páll postuli væri að hvetja Gyðinga til fráhvarfs frá Móse. (Postulasagan 21:21, 24) Orðrómurinn var ósannur en hann kann að hafa átt rót sína að rekja til þess að Páll, hlýðinn ákvörðun postulanna og öldunganna í Jerúsalem, kenndi að kristnir menn af þjóðunum þyrftu ekki að koma undir móselögmálið. — Postulasagan 15:5, 28, 29.

Greindu sannleika frá lygi

Er þá allt, sem útbreitt er með orðum munnsins, ósannur orðrómur? Alls ekki. Á dögum Jósúa sagði Rahab í Jeríkó njósnarmönnum Ísraelsmanna: „Því að frétt höfum vér, að [Jehóva] þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér foruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo . . . hinumegin Jórdanar.“ (Jósúa 2:10, 11) Þessar sögur, sem Rahab hafði heyrt, voru sannar.

Eins var það þegar Jesús var að gera tákn út um Ísraelsland. Biblían segir: „Orðstir hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.“ (Matteus 4:23, 24) Fregnirnar um Jesú voru líka sannar.

Hvernig getum við þá gengið úr skugga um hvort saga er sönn eða bara hviksaga? Hér munu nefnd nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar einhver segir þér fréttnæmt sögukorn:

Hver sagði þér söguna? Er hann þess konar maður sem aldrei segir frá nokkru nema hann sé viss um að það sé rétt? Eða er hann alltaf að reyna að hnýsast í annarra manna mál? Er hann að reyna að vera fyrstur til að segja safaríkar sögur? Heimildin fyrir sögunni segir mikið um það hvort hún er trúverðug eða ekki. Og það leiðir okkur að skyldu atriði: Þeir sem gegna trúnaðar- eða ábyrgðarstöðum, svo sem öldungar í söfnuðinum eða þroskaðar kristnar konur, ættu að vera öruggir um að þeir hafi réttar upplýsingar áður en þeir segja einhverjum einhverja sögu, ef þeir þurfa að segja nokkuð frá henni yfirleitt. Fólk mun frekar trúa því sem þeir segja og hafa það eftir. — Postulasagan 20:28; Títusarbréfið 2:3.

Var sá sem sagði þér söguna í aðstöðu til að vita allar staðreyndir? Dæmigerðar hviksögur hefjast oft á þessa leið: „Ég heyrði frá frænda mínum sem þekkir mann sem vinnur hjá . . .“ Gættu þín ef þú heyrir þess konar inngang! Börn fara stundum í leik sem er á þá leið að þau standa í hring og eitt barnið hvíslar stuttri málsgrein að þeim sem næst stendur. Sá hvíslar að þeim næsta sem lætur hana ganga áfram. Þegar málsgrein hefur farið allan hringinn hafa börnin mikið gaman af þeim breytingum sem hún hefur tekið. Mörg okkar hafa leikið þennan leik, en höfum við lært lexíuna sem hann kennir? Þegar sögur ganga frá einum til annars er óhjákvæmilegt að þær breytist og innan skamms eiga þær lítið sameiginlegt með sinni upphaflegu mynd. Ef þú veist ekki með öruggri nákvæmni um heimildirnar fyrir sögunni er að líkindum óhætt að ganga að því gefnu að hún sé brengluð eða jafnvel allsendis ósönn.

Ber sagan keim af rógburði? Ef sagan kastar rýrð á gott mannorð einhvers einstaklings, stéttar, kynþáttar eða samtaka skaltu taka henni með ýtrustu varúð. Einu gildir þótt þér sé ekki sérlega hlýtt til þessa hóps eða einstaklings. Rógur er rógur og lygar lygar hver sem fórnarlambið er. Jesús var skorinorður þegar hann fordæmdi hina skriftlærðu og faríseans, en getur þú ímyndað hann útbreiða róg og hviksögur um þá? — 1. Pétursbréf 2:21, 22.

Er sagan trúleg? Er það í raun og veru líklegt að geimskip frá öðrum hnöttum komi til jarðarinnar? Er trúlegt að stórfyrirtæki geri sáttmála við djöfulinn? Er sennilegt að listamenn, helgaðir starfi sínu, feli andlitsmyndir í myndefni tímarita? Ekki ætti að trúa svona ólíklegum sögum eins og nýju neti.

Stöðvaðu hviksögur, talaðu sannleika

Ekki er þar með sagt að ótrúlegir hlutir gerist aldrei. Stundum gerast þeir. En þegar við heyrum af þeim ættum við að hegða okkur viturlega og ekki trúa í einfeldni hverri einustu sögu sem okkur berst til eyrna. Þegar þær sögur bárust út um Palestínu að smiður frá Nasaret væri að gera kraftaverk voru sögurnar reyndar sannar. (Matteus 4:24) En þegar Jóhannes skírari heyrði þær sendi hann samt sem áður lærisveina sína til að ganga nákvæmlega úr skugga um hvað væri á seyði. (Matteus 11:2, 3) Það voru öfgalaus viðbrögð.

Þegar Tómas postuli heyrði um upprisu Jesú var hann efagjarn. (Jóhannes 20:24, 25) En í þessu tilviki hefði hann átt að gera sér ljóst að hér var ekki um að ræða staðlaust fleipur. Hann vissi að Jesús hafði sjálfur reist fólk upp frá dauðum, og hann hafði heyrt Jesú tala um hinn komandi dauða sjálfs sín og upprisu. (Matteus 16:21; Jóhannes 11:43, 44) Þeir sem skýrðu honum frá þessu voru auk þess menn sem hann vissi að hann gat treyst. Og þeir voru ekki að segja sögur sem þeir höfðu heyrt frá þriðja aðila. Þeir voru sjónarvottar og hann gat spurt þá spjörunum úr til að ganga úr skugga um hvort þeim gæti hugsanlega skjátlast.

Já, sumar sögur sem við heyrum kunna að vera sannar, en heilbrigð skynsemi segir okkur að innan sérhverrar þjóðar, þorps eða jafnvel samtaka komist á kreik hviksögur, einkum hviksögur sem endurspegla almennar langanir eða ótta samfélagsins. Og alltaf eru umtalsverðar líkur á því að hviksaga sé í besta falli rangfærsla á sannleikanum. Ef þú því heyrir sögu og getur ekki gengið nákvæmlega úr skugga um heimildirnar fyrir henni skalt þú hugsa skynsamlega og fullvissa þig um að þú farir með rétt mál áður en þú segir öðrum frá. Mundu að „málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.“ (Orðskviðirnir 10:19) Vertu ekki farvegur fyrir hviksögur og flugufregnir; vertu heldur „blindgata.“ Þannig getur þú farið eftir orðum Pál postula: „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.“ — Efesusbréfið 4:25.

[Rammi á blaðsíðu 29]

Hviksögur eru lifseigar. Erfitt er að kveða þær niður þegar þær eru komnar af stað.

[Rammi á blaðsíðu 30]

Ef þú útbreiðir hviksögu ert þú kannski að útbreiða lygi.

[Rammi á blaðsíðu 31]

Ekki þarf allt sem útbreitt er með orðum munnsins að vera ósanuur orðrómur.

[Rammi á blaðsíðu 32]

Hafði sá sem sagði þér söguna aðstöðu til að vita allar staðreyndir?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila