Vertu trúr Guði „sem sér í leynum“
„[Þu skalt] biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ — Matteus 6:6.
1, 2. Hvernig má lýsa með dæmi að mál, sem talin eru einkamál, geta orðið opinber? (1. Samúelsbók 21:7; 22:9)
FYRIR allnokkrum árum hringdi kona, sem var vottur Jehóva, til bróður síns sem bjó á Long Island í New York. Með því að hann var annarrar trúar sagði hún honum frá fyrirheitum Guðs um að afmá illskuna af jörðinni og endurreisa paradís. Þegar samtalinu lauk og bróðir henni lagði á kom henni mjög á óvart heyra rödd segja: „Biddu aðeins, mig langar til að spyrja þig spurningar.“
2 Þetta var starfsstúlka á símstöðinni. Hún hafði hlustað á samtalið sem símabúnaðurinn bauð upp á í þá daga, enda þótt það væri talið siðferðilega rangt og bryti í bága við stefnu símafélagsins. Konan gladdist yfir því að orð hennar skyldu hafa vakið slíkan áhuga og gerði ráðstafanir til að fylgja honum eftir, en var þó brugðið að hlustað hefði verið á samtalið. Já, stundum sjá og heyra aðrir það sem við höldum fara fram í leynum. — Prédikarinn 10:20.
3. Í hvaða skilningi er líf kristinna manna alltaf til sýnis?
3 Þetta ætti ekki að valda sannkristnum mönnum neinum umtalsverðum vanda, því að þeir kappkosta að vera trúir Guði öllum stundum. Páll postuli sagði: ‚Vér erum eins og á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.‘ (1. Korintubréf 4:9) Hann var að vísa til þess sem tíðkaðist á skylmingaleikvöngum þeirra tíma. Fyrir lokabardagann voru Rómverjar vanir að sýna nakta þá sem áttu eftir að berjast og sennilega deyja. Kristnir menn nú á tímum eru líka til sýnis frammi fyrir ættingjum, vinnufélögum, nágrönnum og skólafélögum sem ekki eru í trúnni. Þeir sem á horfa geta myndað sér jákvæða eða neikvæða skoðun á kristninni eftir því sem þeir sjá til okkar. — 1. Pétursbréf 2:12.
4. Hvaða áhrif gæti sú vitneskja haft á einstakling að aðrir fylgjast með honum?
4 Þegar við vitum að aðrir fylgjast með okkur er líklegt að við leggjum okkur vel fram, höfum sömu löngun og Páll: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir last.“ (2. Korintubréf 6:3) Sú vitneskja okkar að aðrir fylgjast með getur styrkt ásetning okkar að gera það sem er rétt. En hvað ef fastheldni okkar við kristnar meginreglur er prófuð þegar aðrir sjá ekki til?
Hann horfir á meira en útlitið
5. Hvaða andstæður birtust í lífi leiðtoga Gyðinganna?
5 Margir trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld voru ein manngerð út á við en önnur hið innra. Jesús aðvaraði í fjallræðunni: „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis.“ (Matteus 6:1, 2) Trúarleiðtogarnir voru eins og bikarar sem voru hreinir að utan en ‚að innan fullir yfirgangs og óhófs,‘ líkir „hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.“ — Matteus 23:25-28; samanber Sálm 26:4.
6. Hvað getur Jehóva séð hjá okkur?
6 Þessi orð ættu að hjálpa okkur að skilja að Jehóva hefur áhuga á meiru en því sem aðrir menn kunna að sjá. Jesús ráðlagði: „Nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ (Matteus 6:6) Já, Guð getur heyrt bænir okkar sem við biðjum þegar við erum einangraðir frá öðrum mönnum. Ekkert fer fram hjá Guði. Hann getur séð mann myndast í móðurkviði, lesið erfðamynstur hans sem síðar mun móta persónu og einkenni einstaklingsins. (Sálmur 139:15, 16; 1. Mósebók 25:23) Hann getur jafnvel lesið hinar huldu tilhneigingar hjartna okkar. (1. Sámúelsbók 16:7; 1. Konungabók 8:39; Jeremía 17:10; Postulasagan 1:24) Íhugaðu hvaða áhrif þessar staðreyndir ættu að hafa á okkur.
7. Hvar gæti kristinn maður þurft að bæta sig?
7 Til að verða sannkristnir menn urðum við að yfirstíga alvarlega ágalla og syndir eins og frumkristnir menn gerðu. (1. Korintubréf 6:9-11; Postulasagan 26:20; 1. Pétursbréf 4:1-4) En hvað um ágalla sem aðrir menn vita ekki af? Þessir ágallar skipta ekki minna máli þótt þeir séu ekki almennt þekktir. Það kemur fram í orðum Davíðs: „Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.“ (Sálmur 101:5) Jafnvel þótt rógburður færi fram í leynum, aðeins að einum áheyrandi, var hann rangur. Davíð vildi því ekki breiða yfir þessa ‚leyndu‘ synd.
8. Hvernig vitum við að huldar syndir fara ekki fram hjá Jehóva?
8 Syndarinn ætti ekki heldur að blekkja sjálfan sig með því að halda að Guð, „sem sér í leynum,“ taki ekki eftir. Guð hefur sýnt að hann hafi áhuga á trúfesti manna jafnvel þótt verk þeirra séu ekki á annarra vitorði. Lítum á Akan sem dæmi. Ísraelsmenn áttu að eyða Jeríkó og íbúum hennar, hinum óguðlegu Kanverjum. Aðeins silfur, gull og eir voru undanþegin og skyldu fara í fjárhirslu helgidóms Guðs. (Jósúa 6:17-19) Akan lét hins vegar undan freistingu og tók verðmæta flík, og dálítið af silfri og gulli. Hann faldi það undir tjaldi sínu og hugsaði kannski með sér að enginn myndi vita af því. En blekkti hann þann „sem sér í leynum“? Nei. Guð sá til þess að synd Akans yrði afhjúpuð opinberlega og hann og fjölskylda hans guldu fyrir með lífi sínu. — Jósúa 7:1, 16-26.
9. Hvað verðum við að gera til að öðlast og viðhalda hylli Guðs?
9 Elíhú mælti þessi viturlegu orð um Jehóva: „Því að augu Guðs hvíla yfir vegum hvers manns, og hann sér öll spor hans. Ekkert það myrkur er til eða sú niðdimma, að illgjörðarmenn geti falið sig þar.“ (Jobsbók 34:21, 22) Ef við því þráum að ávinna okkur velvild Jehóva Guðs og viðhalda henni verðum við að leitast við að lifa í samræmi við meginreglur hans, bæði þegar við vitum að aðrir sjá til okkar og þegar svo virðist sem enginn sjái til. „Augu Guðs“ hvíla alltaf „yfir vegum hvers manns.“
10. (a) Hvaða gott fordæmi setti Páll um það sem gert er í leynum? (b) Á hvaða sviðum er möguleiki á leyndum ágöllum sem verðskulda athygli okkar?
10 Kristinn maður gæti orðið fyrir prófraun sem trúbræður hans vita ekki af. Svo fór fyrir Páli þegar hann var í fangelsi. Gyðingarnir höfðu sakað hann um að ‚kveikja ófrið‘ og ‚reyna að vanhelga musterið.‘ (Postulasagan 24:1-6) Páll bar vitni um sakleysi sitt fyrir rómverska landstjóranum Felix sem sagnfræðingar segja hafa verið grimman og siðlausan. Felix hélt Páli í fangelsi því að hann ‚gerði sér von um að Páll myndi gefa sér fé.‘ (Postulasagan 24:10-21, 26) Pótt postulinn hafi þekkt boð Biblíunnar um að hvorki gefa né þiggja gjafir til að hafa áhrif á dóm hefði hann getað hugsað með sér að mútur væru hentug leið til að hljóta frelsi. Úr því að hægt væri að leyna aðra mútugjöfinni þyrfti Páll ekki að hafa áhyggjur af því að hneyksla aðra. (2. Mósebók 23:8; Sálmur 15:1, 5; Orðskviðirnir 17:23) En Páll hugsaði ekki þannig. Margir af þjónum Jehóva á okkar tímum hafa staðið frammi fyrir öðrum prófraunum, svo sem varðandi lög Guðs um blóð, sjálfsfróun og misnotkun áfengis. Við skulum íhuga hvernig slíkar prófraunir gætu orðið á vegi þínum eða ástvina þinna.
Hlýðnin prófuð varðandi blóð
11. Hver er grundvöllurinn fyrir afstöðu kristins manns til notkunar blóðs?
11 Lög Guðs um blóð eru vissulega hvorki ný né óljós. Í gegnum okkar sameiginlega forföður Nóa bauð Jehóva öllu mannkyninu: „Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:4) Heilagleiki blóðsins, sem táknaði lífið frá Guði, var undirstrikaður í Móselögunum. Nota mátti blóð á altarinu en að öðrum kosti bar að „hella því á jörðina sem vatni.“ (3. Mósebók 17:11-14; 5. Mósebók 12:23-25) Hélt bannið gegn því að viðhalda lífi með blóði gildi eftir að Móselögin tóku enda? Fullkomlega. Á því sem sumir kynnu að kalla fyrsta kristna kirkjuþingið komust postularnir og öldungarnir (sem mynduðu hið stjórnandi ráð) að þeirri niðurstöðu að kristnir menn yrðu að ‚halda sér frá skurðgoðadýrkun, saurlifnaði, köfnuðu [sem blóðið var enn í] og frá blóði.‘ Misnotkun blóðs var jafnalvarlegt siðferðilegt brot eins og óleyfileg kynmök. — Postulasagan 15:20, 21, 28, 29.
12. Hvaða afstöðu tóku frumkristnir menn gagnvart blóði?
12 Frumkristnir menn hlýddu lögum Guðs um blóð. Þótt sumir hafi í þá daga drukkið blóð skylmingþræla sem „lækningu“ við flogaveiki gerðu sannkristnir menn það ekki. Þeir átu ekki heldur mat sem í var blóð, jafnvel þótt slík neitun hefði í för með sér dauða fyrir þá og börn þeirra. Frá þeim tíma hafa ýmsir guðfræðingar og fleiri viðurkennt að kristnir menn séu undir lögum Guðs sem banna að lífi sé haldið við með því að taka blóð inn í líkamann.
13. (a) Hvers vegna gætir þú einhvern tíma orðið fyrir prófraun í sambandi við blóð? (b) Hvaða höfuðástæðu fyrir því að kristinn maður þiggur ekki blóð ættum við að hafa í huga?
13 Á síðustu tímum hafa blóðgjafir náð vinsældum sem aðferð við lækningar. Kristinn maður getur því staðið frammi fyrir prófraun í því sambandi. Læknar, hjúkrunarfólk og jafnvel ættingjar geta átt til að hvetja hann eindregið til að þiggja blóð. Upplýst fólk veit að sjálfsögðu að alvarleg áhætta er samfara blóðgjöfunum sjálfum. Tímaritið Time (5. nóvember 1984) sagði að „um 100.000 Bandaríkjamenn fengju lifrarbólgu ár hvert af blóðgjöfum,“ aðallega af völdum „dularfullrar veiru sem aðeins verður greind með vissri útilokunaraðferð.“ Time skýrði einnig frá 6500 tilfellum af AIDS sem sum hver eru „tengd blóðgjöfum.“ Í fréttinni sagði: „Nálega helmingur fórnarlambanna hefur látist en endanlegt dánarhlutfall getur verið 90 af hundraði eða hærra.“ Vottar Jehóva byggja afstöðu sína að sjálfsögðu ekki á þeim rökum að blóðgjafir séu slæm læknisaðferð. Jafnvel þótt læknar gætu tryggt að fullkomlega óhætt væri að þiggja blóð býður orð Guðs okkur að ‚halda okkur frá blóði.‘ — Postulasagan 21:25.
14. Hvaða „leyndri“ prófraun í sambandi við blóð gætir þú staðið frammi fyrir?
14 Ímyndaðu þér að þér væri sagt að þú hefðir brýna þörf fyrir blóðgjöf. Myndu ekki lög Guðs um blóð koma upp í huga þér? Og ásetningur þinn að hlýða Guði, hvaða afleiðingar sem það kynni að hafa, myndi líklega styrkjast ef kristnir bræður þínir væru viðstaddir. (Samanber Daníel 3:13-18) En hvað ef læknir eða dómari reyndi í einrúmi að þvinga þig til að þiggja blóð, segði þér jafnvel að þú skyldir láta hann bera ábyrgðina á því frammi fyrir Guði?
15. Hvaða röng sjónarmið hafa sumir læknar og embættismenn varðandi afstöðu okkar til blóðs?
15 Fregnir frá ýmsum löndum gefa til kynna að stundum haldi læknar, yfirmenn sjúkrahúsa og dómarar ranglega að vottar Jehóva séu opinberlega á móti blóðgjöfum en séu annarrar skoðunar innst inni. Í einu tilfelli felldi dómari þann gerræðislega úrskurð að „kjarni málsins hafi ekki verið trúarsannfæring [sjúklingsins] heldur neitun hans að undirrita áður útgefna skriflega heimild um blóðgjöf. Hann var því ekki mótfallinn að þiggja umrædda meðferð en vildi þó ekki fyrirskipa hana.“ En vottar Jehóva eru kunnir fyrir, ekki að neita af veikum mætti að ‚undirrita heimild um blóðgjöf‘ heldur að vera mjög fúsir til að undirrita löggild skjöl um að læknar og sjúkrahús verði ekki látin sæta ábyrgð vegna tjóns sem talið er mega rekja til þess að sjúklingurinn neitar að þiggja blóð.
16. Hverju ættir þú ekki að gleyma ef einhver hvetti þig í einrúmi til að þiggja blóð?
16 Læknar og dómarar geta átt til að reyna að fá þig til að þiggja blóð vegna þess að þeir hafa séð fólk frá öðrum trúfélögum vera mótfallið ákveðinni læknismeðferð en síðan samþykkja hana ,fyrir luktum dyrum.‘ Sumir hafa jafnvel sagst þekkja vott sem hafi fallist á bloðgjöf með leynd. Ef það gerðist kann að hafa át í hlut einhver sem var aðeins kunnugur vottum Jehóva. Vígðir þjónar Guðs vita vel að engin slík málamiðlun fer fram hjá honum. Mundu hvað gerðist þegar Davíð syndgaði í sambandi við Batsebu og Úría. Jehóva sá allt sem gerðist og sendi Natan með þennan boðskap: „Þú [Davíð] hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar.“ Eins og Guð sagði fékk Davíð síðar að finna fyrir hryggilegum afleiðingum sinnar ‚leyndu‘ syndar. — 2. Samúelsbók 11:27-12:12; 16:21.
17. (a) Hvernig gæti það valdið öðrum erfiðleikum ef einhver þægi blóð með leynd? (b) Greinið frá því hvernig systir nokkur var staðföst í deilunni um blóðið og hvernig því máli lyktaði.
17 Kærleikur til kristinna bræðra þinna ætti líka að hjálpa þér að standa gegn þvingunum til að samþykkja í leynum að brjóta lög Guðs um blóð. Hverngi þá? Ef læknir eða dómari reyndi að þvinga þig til að þiggja blóð, jafnvel með leynd, ættir þú að hugsa um þá auknu erfiðleika sem það myndi hafa í för með sér fyrir næsta vott. Gefðu gaum að eftirfarandi atviki:
Systir Rodriguez var í meðferð vegna sýkingar. Þá varð hún mjög veik og læknirinn hennar uppgötvaði innvortis blæðingar og ráðlagði að hún yrði flutt í skyndingu á stórt sjúkrahús. Systir Rodriguez sagði starfsfólki neyðarþjónustudeildarinnar: „Hvað sem fyrir kemur get ég ekki þegið blóðgjöf.“ Hún hélt fast við þessa afstöðu síðar þegar hjúkrunarfólk beitti hana þrýstingi með því að fullyrða að sumir vottar hefðu tekið blóð. Svo dögum skipti hélt þessi systir áfram að missa blóð og þrótt og var að lokum flutt á gjörgæsludeild. Þá kallaði sjúkrahúsið til dómara við hæstarétt ríkisins.
Nokkrum mánuðum síðar flutti þessi sami dómari erindi yfir 150 læknum í fyrirlestrarsal sjúkrahússins um viðfangsefnið: „Hvers líf er það samt sem áður?“ Hann sagðist líka hafa hitt fólk sem í fyrstu neitaði að þiggja blóð en féllst á það þegar dómari var kvaddur til. En hvað um systur Rodriguez? Hann sagðist hafa reynt í einrúmi að telja hana á að láta ‚hann bera ábyrgðina‘ með því að láta gefa henni blóð samkvæmt fyrirskipun dómstóls. Hvað gerði hún? Dómarinn sagði læknunum að með öllu því afli sem frú Rodriguez hafi átt til hafi hún sagt honum að hún ætlaði ekki að þiggja blóð og að hann skyldi láta han í friði og yfirgefa stofuna. Þar af leiðandi sagðist dómarinn engan grundvöll hafa haft til að fyrirskipa blóðgjöf gegn vilja hennar.
18. Hvaða ásetning ættum við að láta skýrt í ljós í sambandi við deiluna um blóð og hvaða afleiðingar mun það líklega hafa?
18 Þetta undirstrikar hversu mikilvægt er að gera það algerlega ljóst að afstöðu okkar til blóðs verður ekki breytt. Postularnir tóku slíka einarðlega afstöðu og lýstu yfir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Það sem kom fyrir systur Rodriguez sýnir einnig hvaða áhrif það hefur á aðra ef vottur lætur undan. Sjúk og veikburða varð hún að þola aukið álag aðeins vegna þess að einhver hafði hugsanlega einhvern tíma áður brotið lög Guðs. Að sjálfsögðu er ekki hægt að leyna ‚dómara alls jarðríkis‘ slíku broti. (1. Mósebók 18:25) Til allrar hamingju var systir Rodriguez jafnákveðin fyrir luktum dyrum eins og hún hafði verið fyrir opnum tjöldum. Og síðar, þá við góða heilsu, greindi hún sama læknahópi frá því að hún væri staðráðin í að vera trúföst Guði.
19. Hvað ættum við alltaf að vera okkur meðvitandi um?
19 Við verðum líka að vera trúföst hvort sem verk okkar eru fyrir opnum tjöldum eða ekki. Jehóva hefur yndi af slíkri trúfesti og mun umbuna hana: hann mun með fullri réttvísi umbuna þeim sem eru trúir kröfum hans fyrir verk þeirra, bæði opinber og þau sem leynt fara. (Sálmur 51:8; Jobsbók 34:24) Í kærleika sínum gefur hann fullkomin heilræði sem hjálpa okkur að sigrast á leyndum ágöllum, sem við kunnum að hafa, eins og við munum athuga í greininni á eftir.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað getur Guð gert sem ætti að hafa áhrif á verk okkar?
◻ Hvaða mikilvæga lexíu ætti reynsla Akans að kenna okkur?
◻ Hvaða tjóni getur það valdið ef kristinn maður brýtur með leynd lög Guðs um blóð?
◻ Hvað ættir þú að einsetja þér í sambandi við skoðun Jehóva á blóði?
[Rammagrein á blaðsíðu 13]
Lög Guðs um blóð enn talin gildi
JOSEPH PRIESTLEY (1733-1804) er kunnastur fyrir það að hafa verið vísindamaðurinn sem uppgötvaði súrefnið, en hann var líka guðfræðingur. Hann skrifaði:
„Bannið gegn neyslu blóðs, gefið Nóa, virðist bindandi fyrir alla afkomendur hans.“ Um þá fullyrðingu að hið kristna bann gegn neyslu blóðs hafi aðeins gilt um tíma sagði Priestley: „Hvergi er minnsta vísbending um að það hafi verið tímabundið og hvergi minnst á hvenær bannið ætti að falla úr gildi. . . . Ef við túlkum þetta bann postulanna í ljósi þeirra siða sem ríktu hjá frumkristnum mönnum, sem varla er hægt að telja að hafi ekki skilið réttilega eðli eða umfang þess, getum við ekki annað en ályktað að því hafi verið ætlað að vera algert og varanlegt.“
Árið 1646 var gefið út ritið A Bloody Tenet Confuted, or, Blood Forbidden. Á bls. 8 var sagt: „Við skulum leggja af þann grimmilega sið að eta líf skepnanna, eins og venja var um allt England, í óvígðum svörtum búðingi [úr blóði], því að við munum þannig sýna okkur vera miskunnsama menn, ekki ómannúðlega; því að við munum ekki reynast óhlýðnast Guði þar sem augljóst boð á í hlut heldur hlýðnast vilja hans, og gera það sem rétt er í augum hans, því að við viljum njóta hylli Guðs, . . . og ekki verða upprættir úr þjóð okkar né hafa ásýnd Guðs stöðuglega gegn okkur vegna illra verka.“
Thomas Bartholin var prófessor í líffærafræði við Kaupmannahafnarháskóla á 17. öld. Í skrifum sínum um ‚misnotkun blóðs‘ sagði hann: ‚Þeir sem nota mannsblóð til innvortis lækninga virðast misnota það og syndga stórlega. Mannætur eru fordæmdar. Hvers vegna höfum við ekki viðbjóð á þeim sem lita kok sitt mannsblóði? Áþekkt er það að fá framandi blóð úr skorinni æð, annaðhvort um munninn eða í æð. Höfundum þessara aðgerða stendur ógn af lögum Guðs sem banna að blóð sé etið.‘
Ritið Revelation Examined with Candour (1745) fjallaði um boð Guðs varðandi blóð. Þar var sagt: „Boð gefið Nóa af Guði sjálfum, endurtekið við Móse og staðfest af postulum Jesú Krists, gefið strax eftir flóðið þegar heimurinn svo að segja byrjaði upp á nýtt og hið eina sem gefið var á þeirri stóru stund; endurtekið af ógnvekjandi alvöru við þá þjóð sem Guð greindi frá mannkyninu í heild til að hún væri honum heilög; endurtekin með óttalegri yfirlýsingu um hefnd Guðs, bæði gegn Gyðingi og útlendingi sem vogaði sér að brjóta það; og staðfest af háalvarlegasta og helgasta kirkjuþingi sem nokkurn tíma hefur verið haldið á jörðinni er starfaði undir beinum áhrifum anda Guðs! Flutt frá þeirri helgu samkomu til ýmissa kirkna grannþjóðanna af ekki smærri sendiboðum en tveim biskupum og tveim postulum . . . mun nokkur maður eftir þetta voga sér að níða þetta boð? Mun nokkur maður með réttu ráði lýsa tilskipun, sem þannig er gefin, þannig endurtekin og þannig staðfest af Guði sjálfum, marklausa og lítilvæga“?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Breytni eins votts getur auðveldað þeim næsta að vera trúfastur Guði.