Trúarbrögð og stjórnmál — varanlegt bandalag?
VLADIMIR I Rússakeisari ákvað einn góðan veðurdag að heiðnir þegnar hans skyldu snúast til „kristni.“ Hann hafði sjálfur snúist árið 987 eftir að hafa kvænst prinsessu sem var grísk-orþódox trúar, og nú ákvað hann að þegnar hans skyldu skírast fjöldaskírn — við sverðsoddinn ef þörf krafði. Hægt og hægt hlaut rússneska kirkjan sjálfstæði gagnvart „móður“ sinni, grísku kirkjunni, og varð meira að segja að lokum ein af stjornardeildum ríkisins. Og þótt núverandi valdhafar Sovétríkjanna afneiti opinberlega tilvist Guðs er enn óörugg samvinna með kirkju og ríki í Sovétríkjunum.
Mörgum öldum síðar tókst Hinriki VIII Englandskonungi einnig að koma á nánu bandalagi kirkju og ríkis, þótt með ólíkum hætti væri. Árið 1532 var honum órótt í skapi sökum þess að eiginkona hans, Katarína frá Aragóníu, hafði ekki fætt honum son sem ríkiserfingja. Til að leysa þetta vandamál gekk Hinrik með leynd að eiga ástkonu sína, Önnu Boleyn. Það var gert með þegjandi samþykki erkibiskupsins af Kantaraborg sem lýsti fyrra hjónaband Hinriks ógilt. Árið 1534 lýsti þessi saurlífismaður og harðstjóri sig höfuð ensku kirkjunnar, og enn þann dag í dag ber þjóðhöfðingi England þann titil. Ákvarðanir kirkjuþinga eru háðar samþykki þingsins, og biskupar, sem tilheyra lávarðadeild þingsins, taka þátt í að stjórna Bretlandi. Kirkja og ríki hafa því verið í hjonabandi á Englandi í meira en 450 ár.
„Hjúskapur“ ríkis og kirkju síðar á tímum
Árið 1936 var gerð bylting á Spáni gegn repúblikanastjórninni. Borgarastríð braust út og Franco hershöfðingi komst til valda. Vinstrimönnum til hrellingar veitti Franco klerkastéttinni talsverð völd í skiptum fyrir ómældan stuðning kirkjunnar.
Árið 1983 kom Heimskirkjuráðið saman í Vancouver í Kanada. Aðalritari þess, Philip Potter, sagði þinggestum að „halda áfram þátttöku í stjórnmálum.“ Fjárstuðningur Heimskirkuráðsins við herská, pólitísk samtök í fjölmörgum löndum hefur verið mörgum kirkjuræknum manni mikið áhyggjuefni.
Engum blöðum er því um það að fletta að trúarbrögðin blanda sér mjög í stjórnmál. Sú spurning hlýtur þó að brenna á vörum manna hvort þau ættu að gera það. Er það til góðs eða ills? Hafa afskipti trúarbragðanna af stjórnmálum eflt siðareglur stjórnmálanna, eða hafa stjórnmálin spillt trúarbrögðunum? Og hvað um framtíðina? Munu trúarbrögð og stjórnmál halda áfram ‚ástarævintýri‘ sínu eða munu þau missa trúna hvort á annað og árekstur verða?