Árangursrík þjónusta gefur af sér fleiri lærisveina
„Þessar voru gjafir hans: sumir urðu . . . kristniboðar, sumir prestar og kennarar, til að gera fólk Guðs hæft til að vinna í þjónustu hans.“ — Efesusbréfið 4:11, 12, The New English Bible.
1. Hvaða tilfinningar bar Kristur til manna?
KRISTUR JESÚS var enginn einsetumaður. Þjónusta hans snerist að öllu leyti um fólk. Í frásögnum hinna fjögurra guðspjalla er Jesús nær alltaf innan um fólk. Á ferðum sínum sá hann hvernig ástatt var fyrir því og fann til djúprar hluttekningar með því. Ef þú ert kristinn þjónn orðsins, finnur þú þá til hluttekningar með þeim sem þú hittir? — Matteus 9:35, 36.
2. Hvernig líkja vottar Jehóva eftir Jesú?
2 Hin kristna þjónusta nú á dögum verður einnig að snúast um fólk. Vottar Jehóva eru sér þess meðvitandi og eru því sveigjanlegir í þjónustu sinni við Guð. Út um allan heiminn má sjá þá á tali við fólk — á götum úti, í dyragættinni, í iðandi verslunarhverfum, í grennd við biðstöðvar strætisvagna, neðanjarðarlesta og járnbrauta og í iðnaðarskrifstofu- og viðskiptahverfum. Hvar sem fólk er að finna eru vottar Jehóva þjónandi þar sem kristniboðar, boðendur fagnaðarerindisins. Eins og Kristur verður sérhver kristinn vottur Jehóva að vera þjónn fagnaðarerindisins, kristniboði. Þess vegna verður sérhver vottur líka að vera í snertingu við fólk. — 2. Tímóteusarbréf 4:5; Efesusbréfið 4:11, 12.
3. Hver er áhrifaríkasta aðferðin í hinni kristnu þjónustu?
3 Hvernig ætti að vinna þetta kristniboðsstarf á áhrifaríkan hátt? Er það rétta leiðin að nota útvarp og sjónvarp eins og svo mörg trúfélög gera? Nú, þú getur spurt þig að því hvort útvarp eða sjónvarp svari spurningum þínum tafarlaust. Nei, þetta eru í reyndinni ópersónulegir fjölmiðlar. Áhrifaríkasta þjónustan við orðið er enn þann dag í dag sú sem Jesús og lærisveinar hans beittu, að standa auglitis til auglitis við þá sem eru að leita sannleikans. Slíkt krefst hins vegar tíma og erfiðis eins og Páll gaf til kynna með einfaldri samlíkingu: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guðs, sem vöxtinn gefur.“ — 1. Korintubréf 3:5-7.
4. Í hvaða þrjú stig skiptist árangursrík þjónusta?
4 Þessi orð gefur til kynna þrjú stig í hinni kristni þjónustu — að gróðursetja, vökva og hlúa að og uppskera. Fyrsta skrefið er sáning eða gróðursetning, það þegar fagnaðarerindinu um Guðsríki er fyrst komið á framfæri. Síðan kemur aðhlynningin sem felur í sér að vökva þar sem sáð var. Hvernig fer hún fram? Með frekari samræðum til að svara spurningum og vinna bug á efasemdum. Slíkt leiðir oft til reglulegs biblíunáms sem lætur sannindi Biblíunnar festa djúpar rætur í huga og hjarta einstaklingsins, og með blessun Guðs á sér stað vöxtur. Lokaárangurinn er svo enn einn virkur lærisveinn Krists Jesú, enn einn þjónn orðsins. En hvernig getum við öll, sem erum þjónar orðsins, orðið þeirrar hamingju og blessunar aðnjótandi að uppskera nýjan lærisvein?
5. Hvað hjálpar okkur að vera áhrifaríkir þjónar?
5 Eins og sagt var í greininni á undan kenndi Jesús lærisveinum sínum heppilegustu leiðina til að inna þjónustuna af hendi. Og Páll talaði um ‚aðferðir sínar í Kristi Jesú.‘ (1. Korintubréf 4:17, NW) Þeir fjölmörgu söfnuðir, sem hann átti þátt í að stofna í Litlu-Asíu og á Grikklandi, eru ríkulegur vitnisburður um árangurinn af starfi hans. Við höfum þegar rakið sumar af aðferðum hans (og Jesú) en eru fleiri áhrifaríkar aðferðir sem beita má nú á dögum?
Hver er grundvöllurinn? Og boðskapurinn?
6. Hver verður að vera hornsteinn þjónusta okkar?
6 Á hverju verður hinn kristni boðskapur að byggjast? Á visku og heimspeki manna? Bréf Páls til Tímóteusar gefur skýrt svar: „Halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú . . . hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu.“ Ljóst er að Biblían, orð Guðs, verður að vera hornsteinn þjónustu okkar. — 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.
7, 8. Hvernig gáfu Jesús og Páll fordæmi um notkun Ritningarinnar?
7 Í þessu tilliti gaf Kristur Jesú fordæmið — hann vitnaði stöðugt í Ritninguna og Páll postuli fór eins að. Kenndi hann til dæmis gríska heimspeki í Þessaloníku? Nei, heldur segir frásagan: „Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum, lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir [„sannaði með tilvitnunum,“ NW], að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum.“ — Postulasagan 17:1-3.
8 Hver varð árangurinn? „Nokkrir þeirra létu sannfærast.“ Þess vegna verður prédikun okkar að byggjast á orði Guðs eins og var hjá Páli. Þess vegna höfum við ákveðið biblíustef sem tillögu að umræðuefni í þjónustu okkar. Þannig geta sannindi orðs Guðs slegið á jákvæða strengi í brjósti þeirra sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína. — Postulasagan 17:4.
9, 10. (a) Hvert verður að vera stef p+redikunar okkar núna? (b) Nefnið dæmi úr þjónustu Páls.
9 Næsta spurning er hvaða boðskap við ættum að prédika. Nú, hvert var stefið í kennslu Krists? Jesús gerði sér glögga grein fyrir hlutverki sínu því að hann sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ Um síðustu daga okkar núverandi heimskerfis sagði hann: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Lúkas 4:43; Matteus 24:14.
10 Sömu áhersluatriði er að finna í prédikun Páls. Til dæmis talaði hann djarflega við Gyðingana í samkundu einni „og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.“ Í Róm ‚skýrði hann og vitnaði fyrir mönnum um Guðs ríki.‘ Þess vegna verður „Guðs ríki“ að vera kjarninn í okkar kristnu prédikun nú á dögum. — Postulasagan 19:8; 28:23, 31.
Gerir þú árás eða laðar að?
11. Hver eru oft viðbrögð manna þegar vottur stendur frammi fyrir þeim og hvernig getum við unnið gegn þeim viðbrögðum? (Postulasagan 17:17, 18)
11 Á fyrstu öldinni skiptust menn eftir trúarbrögðum, kynþáttum og þjóðernum alveg eins og núna. (Postulasagan 2:7-11) Það hefur í för með sér að flestir hafa sínar fyrirfram ákveðnu hugmyndir um trúarleg atriði. Oft finnst þeim sér ógnað af vottum Jehóva og fara í varnarstöðu þegar þeir hitta þá. Hvernig getum við breytt því? Með því að sýna góðvild, háttvísi og laga okkur að aðstæðum.
12, 13. Hvernig talaði Páll við skurðgoðadýrkendur í Aþenu? Hvernig brugðust þeir við?
12 Við skulum taka eftir hvernig Páll tók á slíkum aðstæðum meðan hann talaði við Aþenumenn sem voru skurðgoðadýrkendur. Fyrst var honum skapraun að því að sjá svona mörg skurðgoð. Þegar hann stóð upp til að tala á Aresarhæð, réðist hann þá strax á skurðgoðadýrkun þeirra? Inngangsorð hans voru þessi: „Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn, því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ‚Ókunnum guði‘. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður. — Postulasagan 17:16-23.
13 Gerði Páll áheyrendur sína fráhverfa með þessum inngangsorðum? Engan veginn. Inngangsorð hans voru háttvís og laus við kreddugirni. Hann fordæmdi þá ekki jafnvel þótt guðsdýrkun þeirra væri gagnslaus frá sjónarhóli Guðs. Hann var þarna til að prédika boðskap Guðsríkis, ekki til að ráðast á þá. Hann gerði sér grein fyrir sterkum trúartilfinningum þeirra og notaði þær sem stökkpall til að hefja umræðu um hinn sanna Guð og fulltrúa hans, hinn upprisna Jesú. Hvaða árangri skilaði þessi háttvísa kynning? Þótt sumir af þeim gerðu gys að sögðu aðrir: „Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.“ Já, honum var boðið að koma í endurheimsókn! — Postulasagan 17:22-32.
14. Hvernig getum við fylgt fordæmi Páls í þjónustu okkar?
14 Hvernig getum við beitt þessari aðferð í þjónustu okkar nú á dögum? Í fyrsta lagi ættum við að vera vakandi fyrir augljósum táknum um trúarskoðanir einstaklingsins — hugsanlega trúarlegum munum sem hann ber á sér eða eru sýnilegir úr dyragættinni eða í anddyrinu á heimili hans. Þannig getum við oft, eins og Páll, gert okkur allgóða hugmynd um trúarviðhorf annarra. Það gefur okkur möguleika á vingjarnlegum inngangsorðum sem vekja áhuga en koma ekki af stað deilum. Munum að við erum að heimsækja fólk fyrst og fremst til að tala um ríki Guðs — ekki til að snúa okkur strax að umræðum um kenningarleg efni. Við viljum vinna fólk, ekki aðeins deilur. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:23-26.
15. Hvaða annan góðan lærdóm má draga af þjónustu Jesú? (Lúkas 10:38-42)
15 Hvað annað getum við lært af fordæmi Krists? Þegar við lesum um þjónustu hans hljótum við að taka eftir sannfæringarkrafti hans en um leið einfaldleika kennslunnar. Hann lét aldrei slá sig út af laginu heldur talaði máli Guðsríkis við alls konar aðstæður, bæði hagstæðar og óhagstæðar. Hann gat prédikað inni á heimili manns eða staðið frammi fyrir mannfjölda og flutt ræðu — án minnisblaða, Biblíu eða hljómflutningstækja! Hann kunni líka að ná sambandi við fólk. Venjulegu almúgafólki fannst það geta nálgast hann. Hann talaði mál þess og ræddi um akra og uppskeru, net og fiskveiðar. Líkingar hans og dæmisögur voru ekkert háfleygar þótt merking þeirra væri djúp. Sýnum við þessa sömu góðu eiginleika í þjónustu okkar? — Matteus 4:18-25; 13:1-33; Lúkas 5:1-3.
Hvernig á að ná til hjartans?
16. Hvers vegna verðum við að vera hæfir kennarar?
16 Venjulega kostar það tíma og ítarlegt nám að sannfærast um boðskap Bíblíunnar um ríki Guðs. Þess vegna gerum við þá ráðstöfun að halda reglulegt heimabiblíunám, án endurgjalds eða skuldbindinga, með hverjum þeim manni sem óskar að kynna sér fyrirheit Guðs fyrir milligöngu Krists. Slíkt nám stendur um töluvert langt tímabil og tekur til margra viðfangsefna og spruninga. Það þýðir að sjálfsögðu að við verðum að vera hæfir kennarar. En hver er í reyndinni kjarninn í því að kenna? — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
17. Nefnið aðferð sem Jesús notaði til að ná til hjartans.
17 Enn á ný leitum við svars hjá Jesú. Hvernig kenndi hann? Gefðu þér smástund til að athuga eftirfarandi ritningargreinar til að vita hvort þú kemur auga á hina einföldu kennsluaðferð Jesú: Lúkas 6:9, 32-34, 39-42. Hver var hún? Hann spurði spurninga sem báru vott um næma dómgreind. Hvers vegna gerði hann það? Til að hjálpa áheyrendum sínum að rökhugsa og skoða sjálfa sig í ljósi kenninga hans. Með spurningum sínum snerti hann nærfærinislega hjörtu þeirra. Þeir urðu að sýna hvort þeir í sannleika vildu verða fylgjendur hans eða hvort tilefni þeirra til að hlusta væri yfirborðslegt. — Matteus 13:10-17; Markús 8:34-38.
18. (a) Hvers vegna nota vottar Jehóva svo oft spurningar í ritum sínum? (b) Hvað ættum við ekki að nota úr hófi þegar við kennum öðrum?
18 Nálega öll hjálpargögn til biblíunáms, sem vottar Jehóva nota í þjónustu sinni, hafa spurningar við hverja tölugrein til skýringar á textanum. Þær eru kennslugagn til að hjálpa þeim sem nema Biblíuna til að tjá sig með eigin orðum. Á því sést hvort þeir skilja efnið eða ekki. En þótt Jesús hafi spurt margra spurninga við mörg tækifæri fór hann aldrei í gátuleik með því að segja fyrsta orðið í svarinu eða fyrsta stafinn í orðinu. Hefur þú stundum staðið þig að því að beita þeirri aðferð? Hvers vegna er ekki gott að nota slíka aðferð að jafnaði? Vegna þess að þekking á Guði og Kristi, sem leiðir til hjálpræðis, ætti að byggjast á rökhugsun og rökhyggju, ekki ágiskunum. — Jóhannes 17:3; 1. Jóhannesarbréf 5:20.
Lærisveinar hvers?
19, 20. Hvaða varnaðarorð eru nauðsynleg hér? Hvers vegna?
19 Fáein varnaðarorð eru nauðsynleg hér. Ef við préðikum og kennum á áhrifaríkan hátt á frjósömu starfssvæði gerum við að lokum fólk að lærisveinum. En hvers lærisveinar er það? Ættum við að hugsa um það sem „okkar sauði“? Ættum við að láta stilla okkur, þjónum orðsins, upp á stall til að láta bera á okkur lof? Taktu eftir hver voru viðbrögð Páls og Barnabasar þegar Lýstrubúar vildu koma fram við þá eins og guði. Þeir hrópuðu til mannfjöldans: „Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs.“ — Postulasagan 14:14, 15.
20 Páll og Barnabas reyndu ekki að draga athyglina að sjálfum sér. Jafnvel þótt Páll hafi ráðlagt kristnum mönnum að feta í sín fótspor, eins og hann líkti eftir Kristi, vildi hann ekki að þeir yrðu hans lærisveinar. Þjónustan, sem við innum af hendi, verður alltaf að veitast til dýrðar Guði, ekki mönnum. — 1. Korintubréf 3:6, 7; 11:1.
21. Hvers vegna verða lærisveinar líka þjónar orðsins?
21 Að því kemur að lærisveinar verða sjálfir þjónar orðsins. Hvers vegna verður það? Nú, hvað gerist þegar við höfum sérstakar gleðifregnir til að segja frá? Getum við þagað yfir þeim? Nei, við brennum í skinninu að geta sagt öðrum þær. Jesús sagði: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns . . . Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ Þannig er það með fagnaðarerindið um ríkið. Lærisveinar, sem eru snortnir í hjarta sér, vilja kenna öðrum og taka þátt í þjónustunni fúslega á reglulegum grundvelli. Vígsla til Guðs og skírn fylgja í kjölfarið. Tilurð nýrra þjóna orðsins er því eins og keðjuverkun, í samræmi við heilræði Páls til Tímóteusar: „Það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.“ — Lúkas 6:45; 2. Tímóteusarbréf 2:2.
22. (a) Hvers vegna hefur Jehóva myndað skipulag kennara og kristniboða? (b) Hvaða starf bíður okkar í framtíðinni?
22 Út um alla jörðina hefur Jehóva Guð núna best þjálfaða skipulag kennara, trúboða og þjóna orðsins sem til er á 20. öldinni. Yfir 2.800.000 þeirra taka þátt í lokavitnisburðinum sem gefa þarf áður en endirinn kemur yfir þetta illa kerfi. En verið er að undirbúa þennan vaxandi fjölda undir enn viðameira verkefni — að fræða þá milljarða sem munu koma fram í upprisunni. Ert þú undir það búinn að taka þátt í slíkum stórkostlegum sérréttindum? Er þjónusta þín arðsöm núna? Megi það vera bæn okkar að ljós okkar skíni til lofs Guði þegar við veitum árangursríka þjónustu við orðið? — Matteus 5:16; Jóhannes 5:28, 29.
Atriði sem þú hefur skoðað
◻ Hver er áhrifaríkasta leiðin til að prédika fagnaðarerindið?
◻ Á hverju verður kennsla okkar að byggjast? Hver er boðskapurinn?
◻ Hvaða eiginleika er þörf til að fá fólk til að hlusta á okkur?
◻ Hvernig náði Jesús til hjartna áheyrenda sinn?
◻ Hvaða varúðar þarf að gæta þegar við kennum öðrum?
[Myndir á blaðsíðu 29]
Vottar Jehóva prédika hvar sem fólk er að finna.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Þegar við berum vitni ættum við að gefa gaum vísbendingum um trúarskoðanir húsráðanda.