Verða alltaf styrjaldir?
FYRSTA orustan um Somme hófst þann 1. júlí árið 1916 í Picardy, fögru landbúnaðarhéraði í Norður-Frakklandi. Eftir gífurlegar stórskotahríðir og loftárásir gerðu hersveitir Breta og Frakka árás sem vonast var til að duga myndi til að brjóta skarð í varnarlínu þýska hersins í skotgröfunum. En það varð engin framrás í gegnum varnir óvinarins. Þess í stað féllu 20.000 breskir hermenn fyrsta daginn. Vikurnar siluðust áfram og bardagarnir héldu áfram án þess að nokkur breyting yrði. Úrhellisrigningar í október breyttu vígvellinum í eðjuflóa. Um miðjan nóvember hafði herjum bandamanna tekist að sækja fram um aðeins 8 kílómetra. Á sama tíma höfðu fallið 450.000 þýskir hermenn, 200.000 franskir og 420.000 breskir. Yfir ein milljón hermanna, flestir ungir, týndu lífi í þessari orustu!
Þetta var aðeins stutt sögubrot úr fyrri heimsstyrjöldinni. Og þótt fyrri heimsstyrjöldin hafi verið sú versta, sem háð hafði verið fram til þessa, var hún aðeins ein af mörgum sem háðar hafa verið í sögu mannkyns. Hvílík glórulaus sóun mannslífa!
Hvers vegna halda menn þrákelknislega áfram að drepa hver annan með þessum hætti? Orsakirnar eru margir, meðal annars eigingirni, metnaðargirni, græðgi og óseðjandi fíkn í vald og virðingu. Þjóðernishyggja hefur einnig átt sinn þátt í að koma af stað og viðhalda styrjöldum. Styrjaldir mannanna endurspegla nákvæmni einnar af athugasemdum Biblíunnar um sögu mannkynsins: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.
Trúarbrögðin hafa einnig oft kynt undir styrjöldum. Krossferðir miðalda voru farnar af trúræknum þjóðum í trúarlegum tilgangi að því er best verður séð: að ná Palestínu undir yfirráð kristna heimsins. Í báðum heimsstyrjöldum þessarar aldar hafa klerkar ólíkra kirkjudeilda reynt að virkja trúartilfinningar hermannanna til að gera þá fúsari til að drepa jafnaldra sína hinum megin víglínunnar. Og sumar af þeim styrjöldum, sem nú eru háðar, eru með mjög sterku, trúarlegu ívafi.
Vonarglæta
Er einhver vonarglæta um að styrjaldir muni leggjast af einn góðan veðurdag? Já. Jesús Kristur er kallaður ‚Friðarhöfðinginn.‘ Þegar hann kom til jarðar lifði hann í samræmi við þetta nafn og kenndi fólki að elska náunga sinn eins og sjálft sig. Hann sagði því jafnvel að elska óvini sína. (Jesaja 9:6; Matteus 5:44; 22:39) Afleiðingin var sú að þeir sem tóku kenningar hans alvarlega á fyrstu öldinni sameinuðust í friðsamt, alþjóðlegt bræðrafélag. Það var óhugsandi fyrir þá að heyja stríð hver við annan. Því miður spilltist síðar hin hreina trú þessara frumkristnu manna. Sá tími kom að kirkjufélög tóku að skipta sér af stjórnmálum og ötuðu hendur sínar blóði í styrjöldum þjóðanna.
Löngu síðar mátti sjá veðrabrigði í Evrópu. Svo var að sjá sem mannkynið væri orðið langþreytt á linnulausum hernaði. Árið 1899 og aftur árið 1907 voru haldnar alþjóðaráðstefnur í Haag í Hollandi. Á ráðstefnunni árið 1899 var gert samkomulag um „friðsamlega lausn alþjóðlegra deilumála.“ Þegar 20. öldin gekk í garð báru því margir þá von í brjósti að heimurinn myndi smám saman vaxa upp úr þeim ávana sínum að heyja styrjaldir. En slíkar vonir urðu að engu þegar byssur fyrri heimsstyrjaldarinnar tóku að gelta. Þýddi það að vonir mannkynsins um frið myndu aldrei ná að rætast?