Varðturninn og Vaknið! — sannleiksrit á réttum tíma
„Þú hefur frelsað mig, ó Jehóva, Guð sannleikans.“ — SÁLMUR 31:5, NW.
1, 2. (a) Hvað fannst systur um eitthvað sem hún las í Varðturninum? (b) Hvaða spurninga er spurt um blöðin okkar?
„ÞAKKA ykkur innilega,“ skrifaði kristin systir, „fyrir hinar dásamlegu upplýsingar í grein Varðturnsins ‚Þú getur hlotið hughreystingu á neyðartímum.‘a Svo margt af því sem þið nefnduð kemur nákvæmlega heim og saman við þær tilfinningar sem ég hef þurft að takast á við; það var eins og þessi grein væri skrifuð beint til mín. Ég var með tárin í augunum þegar ég las hana fyrst. Það er svo dásamlegt að gera sér grein fyrir að einhver annar skuli vita hvernig mér líður! Ég er mjög þakklát fyrir að vera ein af vottum Jehóva. Hvar annars staðar getum við fundið fyrirheit um eilíft líf í paradís í náinni framtíð og græðandi smyrsli handa sálum okkar núna? Þakka ykkur fyrir. Milljónfaldar þakkir.“
2 Hefur þér einhvern tíma liðið þannig? Hefur þér einhvern tíma fundist eitthvað í Varðturninum eða förunaut þess, Vaknið!, vera skrifað sérstaklega fyrir þig? Hvað er það við blöðin okkar sem hrífur hjörtu manna? Hvernig getum við hjálpað öðrum að njóta góðs af bjargandi boðskap þeirra? — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
Tímarit sem eru málsvarar sannleikans
3. Hvaða góðar ástæður eru fyrir því að Varðturninn og Vaknið! hafa haft áhrif á líf margra lesenda sinna?
3 Jehóva er „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Orð hans, Biblían, er bók sannleikans. (Jóhannes 17:17) Hjartahreint fólk bregst jákvætt við sannleikanum. (Samanber Jóhannes 4:23, 24.) Ein ástæða þess að Varðturninn og Vaknið! hafa snortið hjörtu milljóna lesenda sinna er sú að þau eru tímarit ráðvendni og sannleika. Það var meira að segja vegna hollustu við sannleika Biblíunnar sem Varðturninn hóf göngu sína.
4, 5. (a) Hvaða aðstæður leiddu til þess að C. T. Russell hóf útgáfu Varðturnsins? (b) Hvernig notar hinn „trúi og hyggni þjónn“ tímaritið Varðturninn?
4 Árið 1876 hóf Charles T. Russell samstarf við Nelson H. Barbour í Rochester í New York. Russell lagði fram fé til að hleypa nýju lífi í útgáfu trúartímarits Barbours sem hét Herald of the Morning. Barbour var aðalritstjóri þess og Russell aðstoðarritstjóri. En um einu og hálfu ári síðar, í ágúst 1878, skrifaði Barbour grein í Herald þar sem hann afneitaði endurlausnargildi dauða Krists. Russell, sem var nærri 30 árum yngri en Barbour, brást við því með grein í næsta tölublaði þar sem hann varði lausnargjaldið og kallaði það „eina þýðingarmestu kenningu orðs Guðs.“ (Matteus 20:28) Eftir endurteknar tilraunir til að rökræða við Barbour út frá Ritningunni ákvað Russell loks að slíta öll tengsl við Herald. Frá og með júní 1879 birtist nafn Russells sem aðstoðarritstjóra ekki lengur í blaðinu. Mánuði síðar tók Russell, sem var þá 27 ára, að gefa úr Varðturn Síonar og boðbera nærveru Krists (nú þekkt sem Varðturninn kunngerir ríki Jehóva) sem frá upphafi hélt á lofti sannindum Ritningarinnar svo sem lausnargjaldinu.
5 Síðastliðin 114 ár hefur Varðturninn, líkt og fær lögmaður, getið sér orð sem verjandi sannleika og kenninga Biblíunnar. Um leið hefur blaðið áunnið sér traust milljóna þakklátra lesenda. Það styður lausnargjaldið enn af krafti. (Sjá til dæmis tölublaðið frá 1. mars 1991.) Og blaðið heldur áfram að vera aðalverkfæri ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ og stjórnandi ráðs hans til að kunngera stofnsett ríki Jehóva og útbýta andlegri fæðu „á réttum tíma.“ — Matteus 24:14, 45.
6, 7. Hvert var yfirlýst markmið Gullaldarinnar og hvað sýnir að hugsandi fólk brást jákvætt við boðskap blaðsins?
6 Hvað um tímaritið Vaknið!? Allt frá því að það hóf göngu sína hefur það líka verið málsvari sannleikans. Þetta tímarit, sem hét upphaflega Gullöldin, var ætlað til dreifingar meðal almennings. Fyrsta tölublaðið, sem var dagsett þann 1. október 1919, sagði um markmiðið með útgáfu þess: „Markmið þess er að útskýra raunverulega þýðingu hinna miklu atburða samtíðarinnar í ljósi visku Guðs, og sanna fyrir hugsandi mönnum með óhrekjandi og sannfærandi rökum að nú standi fyrir dyrum tími meiri blessunar handa mannkyninu.“ Hugsandi fólk brást jákvætt við boðskap Gullaldarinnar. Í mörg ár var upplag þess blaðs jafnvel stærra en upplag Varðturnsins.b
7 En Varðturninn og Vaknið! höfða ekki til fólks aðeins af því að þau birta kenningaleg sannindi og útskýra spádómlega þýðingu heimsástandsins. Einkum á síðastliðnum einum eða tveim áratugum hafa blöðin okkar hrifið hjörtu fólks af annarri ástæðu einnig.
Tímabærar greinar sem hafa áhrif á líf fólks
8. Hvernig aðlagaði Júdas bréf sitt aðstæðum og hvaða spillandi áhrifum innan safnaðarins hvatti hann lesendur sína til að sporna gegn?
8 Um 30 árum eftir dauða og upprisu Jesú Krists stóð lærisveinninn Júdas frammi fyrir áskorun. Siðlausir, holdlegir menn höfðu læðst inn á meðal kristinna manna. Júdas hafði ætlað sér að skrifa kristnum meðbræðrum sínum um kenningalegt atriði — sameiginlegt hjálpræði smurðra kristinna manna. Þess í stað sá hann, undir handleiðslu heilags anda, að það væri nauðsynlegt að hvetja lesendur sína til að sporna gegn spillandi áhrifum innan safnaðarins. (Júdasarbréfið 3, 4, 19-23) Júdas aðlagaði sig aðstæðum og kom með tímabær ráð sem fullnægðu þörfum kristinna bræðra hans.
9. Hvað er fólgið í því að birta tímabærar greinar í blöðunum okkar?
9 Á sama hátt er það áskorun og ábyrgð að semja tímabærar greinar fyrir tímaritin okkar. Tímarnir breytast og mennirnir með — þarfir þeirra og áhugamál eru ekki þau sömu og fyrir jafnvel einum eða tveim áratugum. Farandhirðir sagði nýverið: „Þegar ég varð vottur á sjötta áratugnum numum við Biblíuna með fólki fyrst og fremst út frá kenningalegum sjónarhóli. Við kenndum þeim sannleikann um þrenninguna, helvíti, sálina og svo framvegis. En núna virðast vera svo mörg vandamál og erfiðleikar í lífi fólks að við þurfum að kenna því hvernig það eigi að lifa.“ Hvers vegna er það svo?
10. Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að það skuli hafa verið stöðug afturför í mannlegum málefnum síðan 1914?
10 Biblían spáði um ‚síðustu daga‘: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Þess vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að það skuli hafa verið stöðug afturför í mannlegum málefnum síðan endalokatíminn hófst árið 1914. Satan, sem hefur skemmri tíma til umráða en nokkru sinni fyrr, lætur reiði sína bitna á mannlegu samfélagi af enn meiri hörku en áður. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Af því leiðir að siðferði og fjölskyldugildi eru afar ólík því sem þau voru fyrir aðeins 30 eða 40 árum. Fólk er almennt ekki eins trúhneigt og það var fyrir nokkrum áratugum. Glæpir eru svo útbreiddir að fólk er farið að gera varúðarráðstafanir sem voru óþekktar fyrir aðeins 20 eða 30 árum. — Matteus 24:12.
11. (a) Hvers konar mál eru fólki ofarlega í huga og hvernig hefur hinn trúi og hyggni þjónn brugðist við þörfum manna? (b) Nefndu dæmi um grein í Varðturninum eða Vaknið! sem hefur haft áhrif á líf þitt.
11 Það er því engin furða að tilfinninga- og þjóðfélagsmál og fjölskyldan séu fólki ofarlega í huga. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur hugrakkur brugðist við því með því að birta tímabærar greinar í Varðturninum og Vaknið! sem hafa tekið á raunverulegum þörfum fólks og hafa sannarlega haft áhrif á líf þess. Lítum á nokkur dæmi.
12. (a) Hvers vegna voru greinarnar um einstæða foreldra samdar fyrir Varðturninn árið 1980? (b) Hvernig lét ein systir í ljós þakklæti sitt fyrir greinarnar um einstæða foreldra?
12 Fjölskyldumál. Þegar skýrslur alls staðar að úr heiminum sýndu að einstæðum foreldrum fór ört fjölgandi voru samdar tímamótagreinar um stefið „Einstæðir foreldrar — hvernig geta þeir tekist á við vandamálin?“ sem birtust í Varðturninum 15. september 1980 (1. mars 1982 á íslensku). Greinarnar gegndu tvíþættum tilgangi: (1) að hjálpa einstæðum foreldrum að takast á við þau sérstöku vandamál sem þeir eiga í og (2) að hjálpa öðrum að vera betur með á nótunum þannig að þeir gætu sýnt „samkennd“ og ‚vitjað‘ eða sinnt þörfum einstæðra foreldra og barna þeirra í raun. (1. Pétursbréf 3:8, NW; Jakobsbréfið 1:27) Margir lesendur skrifuðu til að þakka fyrir greinarnar. „Mér vöknaði um augu þegar ég sá forsíðuna,“ skrifaði einstæð móðir, „og þegar ég opnaði blaðið og las greinarnar var hjarta mitt barmafullt af þakklæti til Jehóva fyrir að sjá fyrir svona efni þegar þess var þörf.“
13. Hvaða ítarleg umfjöllun birtist í Vaknið! árið 1981 um þunglyndi og hvað sagði einn lesandi?
13 Tilfinningamál. Þunglyndi hefur oft verið umfjöllunarefni Varðturnsins og Vaknið! síðan á sjöunda áratugnum. (1. Þessaloníkubréf 5:14) En nýtt og jákvætt viðhorf til efnisins kom fram í greinaröðinni, „Þú getur barist gegn þunglyndi!,“ sem kynnt var á forsíðu í Vaknið! 8. september 1981 (á ensku). Þakkarbréfin tóku fljótlega að streyma til Varðturnsfélagsins alls staðar að úr heiminum. „Hvernig get ég tjáð á blaði tilfinningar hjarta míns?“ skrifaði systir. „Ég er 24 ára og síðastliðin tíu ár hef ég gengið gegnum mörg þunglyndistímabil. En núna finnst mér ég nálægari Jehóva og er þakklát fyrir að hann skuli hafa brugðist við þörfum þunglyndra með þessum kærleiksríku greinum, og mig langaði til að segja ykkur það.“
14, 15. (a) Hvernig hefur verið fjallað um kynferðislega misnotkun barna í blöðunum okkar? (b) Hvaða greinar höfðu djúp áhrif á veðreiðaknapa í Ástralíu?
14 Þjóðfélagsmál. Biblían sagði fyrir að á „síðustu dögum“ myndu menn „verða sérgóðir, . . . kærleikslausir, . . . taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þess vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart að börn skuli vera misnotuð kynferðislega í stórum stíl nú á dögum. Þetta mál fékk opinskáa umfjöllun í greininni „Hjálp handa fórnarlömbum sifjaspells“ í Varðturninum (á ensku) 1. október 1983. Átta árum síðar var greinaröðin „Að græða sárin af völdum kynferðislegrar misnotkunar barna“ í Vaknið! (á ensku) 8. október 1991 vandvirknislega samin til að fórnarlömbunum veittist skilningur og von, og til að upplýsa aðra þannig að þeir gætu boðið fram gagnlegan stuðning. Þessi greinaröð kallaði fram mestu viðbrögð lesenda í útgáfusögu tímaritanna okkar. Einn lesandi skrifaði: „Það sem hefur hjálpað mér mest til að ná mér eru hinar hughreystandi umræður og tilvitnanir í Biblíuna í þessum greinum. Sú vitneskja að Jehóva meti mig ekkert minna var stórkostlegur léttir. Sú vitneskja að ég sé ekki ein var mér jafnmikil hughreysting.“
15 Veðreiðaknapi í Melbourne í Ástralíu hringdi langlínusímtal til skrifstofu Varðturnsfélagsins í Sydney og lýsti óbeit sinni á heimi kappreiðanna. Hann sagðist vera nýbúinn að lesa greinina í Vaknið! þann 8. mars um „Nauðgun — martröð kvenna“ og trúði varla að það gæti verið til svona verðmætt tímarit. Hann spurði spurninga í um hálfa klukkustund og var himinlifandi yfir svörunum sem hann fékk.
16. Hvernig getur þú sýnt þakklæti fyrir blöðin okkar?
16 Hvað um þig? Hefur einhver sérstök grein í Varðturninum eða Vaknið! haft áhrif á líf þitt? Ef svo er finnur þú vafalaust til djúprar þakkarkenndar fyrir tímaritin okkar. Hvernig getur þú látið þetta þakklæti í ljós? Vissulega með því að lesa hvert tölublað sjálfur. Þú getur líka tekið þátt í að gefa þessum dýrmætu tímaritum sem mesta útbreiðslu. Hvernig er það hægt?
Komdu þeim á framfæri við aðra!
17. Hvað geta söfnuðir gert til að auka blaðadreifingu?
17 Í fyrsta lagi er nokkuð sem hver söfnuður getur gert. Í október 1952 sagði Informant (nú Ríkisþjónusta okkar): „Áhrifaríkasta leiðin til að dreifa tímaritunum er hús úr húsi og verslun úr verslun. Þess vegna mælir Félagið með að þessar leiðir til að dreifa blöðunum séu fastur þáttur í starfi blaðadagsins.“ Þessi ráð eru enn í fullu gildi. Söfnuðir geta haft reglulegan blaðadag, dag sem er sérstaklega ætlaður til boðunarstarfs með hjálp blaðanna. Hjá flestum söfnuðum eru vissir laugardagar ábyggilega vel til þess fallnir. Já, hver söfnuður ætti að velja sérstaka daga eða kvöld til boðunarstarfs með hjálp blaðanna — hús úr húsi, verslun úr verslun, á götum úti og í blaðaleiðum. Hvað getur þú, boðberi Guðsríkis, gert að auki til að stuðla að aukinni blaðadreifingu?
18, 19. (a) Hvernig getur það að vera blaðasinnaður hjálpað þér að dreifa blöðum? (b) Hvaða kosti hefur stutt og hnitmiðuð kynning þegar blöðin eru boðin? (c) Hvað sýnir gildi þess að koma blöðunum inn á heimili manna?
18 Að vera blaðasinnaður er fyrsta skrefið. Lestu blöðin fyrirfram. Spyrðu þig þegar þú lest hverja grein: ‚Hver skyldi hafa áhuga á þessari grein?‘ Hugleiddu fáein orð sem þú gætir sagt til að örva áhuga á greininni. Hvernig væri, auk þess að styðja hinn fasta blaðadag, að hafa nokkur eintök meðferðis þannig að þú getir notað hvert tækifæri til að koma þeim á framfæri við aðra — þegar þú ferðast eða verslar og þegar þú talar við vinnufélaga, nágranna, skólafélaga eða kennara?
19 Hafðu kynninguna einfalda er önnur tillaga. Þann 1. desember 1956 sagði Varðturninn: „Stutt, hnitmiðuð kynning er best þegar blöðin eru boðin. Markmiðið er að dreifa mörgum eintökum. Þau munu sjálf ‚tala.‘“ Sumum boðberum hefur reynst áhrifaríkt að velja eina hugmynd úr grein, koma henni á framfæri með fáeinum orðum og bjóða blöðin. Þegar blöðin eru komin inn á heimili geta þau „talað“ til annarra auk þess sem þáði þau af þér. Á Írlandi las ung kona, sem var háskólanemi, Varðturninn frá 1. september 1991 sem faðir hennar hafði þegið af votti. Greinarnar um tjáskipti (1. mars 1992 á íslensku) og annað efni vakti áhuga hennar. Jafnskjótt og hún hafði lesið blaðið leitaði hún uppi símanúmer vottanna í símaskrá og hringdi til þeirra. Biblíunám var fljótlega hafið og unga konan var skírð á umdæmismótinu „Kennsla Guðs“ í júlí 1993. Við skulum fyrir alla muni koma blöðunum inn á heimili manna þar sem þau geta „talað“ til fólks! Farandhirðir kom með aðra einfalda uppástungu. „Komdu blöðunum upp úr töskunni þinni!“ Ef það sem þú segir vekur ekki áhuga húsráðanda má vera að aðlaðandi forsíðumynd blaðsins útbreiði það fyrir þig.
20, 21. (a) Hvernig getur þú verið sveigjanlegur þegar þú tekur þátt í blaðastarfi? (b) Hvað gætir þú gert til að dreifa fleiri blöðum í hverjum mánuði?
20 Þriðja uppástungan er að vera sveigjanlegur. (Samanber 1. Korintubréf 9:19-23.) Undirbúðu fáeinar stuttar kynningar. Hafðu eina grein í huga sem mun höfða til karla, aðra sem mun höfða til kvenna. Þegar ungt fólk á í hlut gætir þú kynnt grein í flokknum „Ungt fólk spyr . . . “ Vertu líka sveigjanlegur með það hvenær þú tekur þátt í blaðastarfi. Auk blaðadags gætir þú komist að raun um að kvöldstarf gefi afbragðstækifæri til að bjóða blöðin hús úr húsi.
21 Fjórða tillagan er sú að setja þér persónulegt markmið. Viðaukinn „Blöð sem benda á veginn til lífsins“ í Ríkisþjónustu okkar í mars 1984 sagði: „Boðberar gætu til dæmis sett sér það markmið að dreifa 15 eintökum í mánuði ef kringumstæður þeirra leyfa; brautryðjendur gætu keppt að 130 eintökum. Að sjálfsögðu kann að vera að sumir boðberar geti dreift fleiri eintökum í hverjum mánuði og munu þess vegna setja sér hærra markmið. Á hinn bóginn kann takmark annarra að vera lægra, t.d. vegna heilsuleysis, starfssvæðis þar sem menn eru lítt móttækilegir fyrir sannleikanum, eða annarra góðra ástæðna. Þjónusta þeirra við Jehóva er engu að síður jafnverðmæt. (Matt. 13:23; Lúk. 21:3, 4) Það sem máli skiptir [er] að setja sér persónulegt takmark.“
22. Á hvaða hátt getum við sýnt að við séum Jehóva þakklát fyrir hin tímabæru tímarit sannleikans?
22 Við getum verið innilega þakklát að Jehóva, „Guð sannleikans,“ skuli hafa notað hinn trúa og hyggna þjón og stjórnandi ráð hans til að sjá okkur fyrir þessum tímabæru ritum! (Sálmur 31:5, NW) Svo lengi sem það er vilji Jehóva munu þessi blöð halda áfram að taka á raunverulegum þörfum fólks. Þau munu halda áfram að halda hinum háa siðferðisstaðli Jehóva á lofti. Þau munu ekki hætta að koma réttum kennisetningum á framfæri. Og þau munu halda ótrauð áfram að beina athygli að uppfyllingu spádómanna er auðkenna okkar daga sem þann tíma er ríki Guðs stjórnar og vaxandi fjöldi sannra tilbiðjenda Guðs gerir vilja hans á jörðinni í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. (Matteus 6:10; Opinberunarbókin 11:15) Við eigum ómetanlegan fjársjóð í Varðturninum og Vaknið! Við skulum nota hvert tækifæri til að koma á framfæri við auðmjúka menn þessum mikilvægu tímaritum sem hafa áhrif á líf fólks og berjast fyrir sannindum Guðsríkis.
[Neðanmáls]
a 15. júlí 1992 (á ensku), bls. 19-22.
b Um langt árabil var litið á Varðturninn fyrst og fremst sem blað handa smurðum kristnum mönnum. Frá 1935 var hins vegar lögð aukin áhersla á að hvetja ‚múginn mikla,‘ sem vonast eftir eilífu lífi á jörð, til að útvega sér Varðturninn og lesa hann. (Opinberunarbókin 7:9) Fáeinum árum síðar, árið 1940, var farið að bjóða fólki Varðturninn reglulega á götum úti. Eftir það jókst útbreiðsla blaðsins ört.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað sýnir að Varðturninn og Vaknið! eru tímarit sannleikans?
◻ Hvernig hafa Varðturninn og Vaknið! haft áhrif á líf fólks?
◻ Hvað geta söfnuðir gert til að auka blaðadreifingu?
◻ Hvaða tillögur geta hjálpað þér að dreifa fleiri blöðum?
[Rammi á blaðsíðu 18]
Sumar greinar sem hafa haft áhrif á líf fólks
Gegnum árin hafa margir lesendur skrifað til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir ákveðnar greinar sem hafa birst í Varðturninum og Vaknið! Hér að neðan eru talin upp aðeins fáein af þeim mörgu viðfangsefnum sem hafa haft áhrif á lesendur okkar. Hafa þessar greinar eða aðrar breytt lífi þínu?
Varðturninn
„Þiggðu hjálp Guðs til að yfirstíga leynda ágalla“ (1. september 1985)
„Guðrækni gagnvart öldruðum foreldrum“ (1. október 1987)
„Menntun sem hefur tilgang“ (1. apríl 1993)
Vaknið!
„Þú getur barist gegn þunglyndi!“ (á ensku 8. september 1981)
„Þegar ástvinur deyr . . . “ (á ensku 22. apríl 1985)
„Verndaðu börnin þín!“ (á ensku 8. október 1993)
[Mynd á blaðsíðu 19]
Í Kanada — prédikað hús úr húsi með hjálp blaðanna.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Í Mýanmar — blöðin, sem benda á leiðina til eilífs lífs, boðin.