Sækjum fram þótt við séum af moldu!
„Hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — SÁLMUR 103:14.
1. Er Biblían vísindalega nákvæm er hún segir að mennirnir séu af moldu? Gefðu skýringu.
AÐ LÍKAMANUM til erum við mold. „[Jehóva] Guð [myndaði] manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Þessi einfalda lýsing á sköpun mannsins er í samræmi við vísindaleg sannindi. Öll frumefni mannslíkamans er að finna í „leiri jarðar“ eða moldinni. Efnafræðingur fullyrti einu sinni að líkami fullvaxta manns væri 65 af hundraði súrefni, 18 af hundraði kolefni, 10 af hundraði vetni, 3 af hundraði köfnunarefni, 1,5 af hundraði kalsíum og 1 af hundraði fosfór, og það sem á vantaði væri önnur frumefni. Hvort þetta mat er fyllilega nákvæmt skiptir ekki öllu máli. Sú staðreynd stendur að „vér erum mold“!
2. Hvernig bregstu við því að Guð skuli hafa skapað mennina sem raun ber vitni og hvers vegna?
2 Hver annar en Jehóva gat skapað svona flóknar lífverur úr engu öðru en leiri jarðar eða moldinni? Verk Guðs eru fullkomin og gallalaus þannig að það er vissulega engin ástæða til að kvarta undan því að hann skyldi skapa manninn á þennan hátt. Sú staðreynd að hinn mikli skapari skuli hafa getað skapað manninn úr leiri jarðar á svo undursamlegan hátt fyllir okkur óttablandinni lotningu og hjálpar okkur að meta enn betur takmarkalausan mátt hans, færni og visku. — 5. Mósebók 32:4; Sálmur 139:14.
Breyttar aðstæður
3, 4. (a) Hvað ætlaði Guð sér ekki þegar hann skapaði manninn af moldu? (b) Hvers var Davíð að vísa til í Sálmi 103:14 og hvernig hjálpar samhengið okkur að komast að þessari niðurstöðu?
3 Sköpunarverur úr leiri eða mold hafa sín takmörk. Guð ætlaðist hins vegar aldrei til að þau væru íþyngjandi eða settu mönnum óhóflegar skorður. Þau áttu ekki að draga úr þeim kjark eða gera þá óhamingjusama. En eins og samhengi orða Davíðs í Sálmi 103:14 gefur til kynna geta þau takmörk, sem menn eru undirorpnir, dregið úr þeim kjark og gert þá óhamingjusama. Af hverju? Þegar Adam og Eva óhlýðnuðust Guði breyttu þau aðstæðum ófæddra afkomenda sinna. Það að þau voru gerð úr leir eða mold tók þá á sig nýja merkingu.a
4 Davíð var ekki að tala um hin eðlilegu takmörk sem jafnvel fullkomnir menn gerðir úr leir hefðu haft, heldur um mannlega veikleika sem stafa af arfgengum ófullkomleika. Annars hefði hann ekki sagt um Jehóva: „Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, [sem] hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum.“ (Sálmur 103:2-4, 10) Ef Adam og Eva hefðu verið trúföst hefðu þau aldrei gert mistök, syndgað og þarfnast fyrirgefningar þrátt fyrir það að þau voru gerð úr leir og þau hefðu ekki haft nein mein sem þörfnuðust lækningar. Framar öllu öðru hefðu þau aldrei þurft að stíga ofan í gröf dauðans þaðan sem aðeins var hægt að endurheimta þau með upprisu.
5. Af hverju er ekki erfitt fyrir okkur að skilja orð Davíðs?
5 Með því að við erum ófullkomin höfum við öll fundið fyrir því sem Davíð talaði um. Við erum okkur stöðugt meðvitaðir um þau takmörk sem ófullkomleikinn setur okkur. Það hryggir okkur þegar þau virðast stundum spilla sambandi okkur við Jehóva eða kristna bræður okkar. Við hörmum það að ófullkomleiki okkar og álagið frá heimi Satans skuli stundum gera okkur örvilnuð. Þar eð stjórn Satans nálgast endalok sín óðfluga eykur heimur hans stöðugt þrýstinginn á fólk almennt, en þó sér í lagi á kristna menn. — Opinberunarbókin 12:12.
6. Hvers vegna geta sumir kristnir menn verið kjarklitlir og hvernig getur Satan notfært sér þess konar tilfinningu?
6 Finnst þér æ erfiðara að lifa kristilegu lífi? Haft hefur verið eftir sumum kristnum mönnum að því lengur sem þeir séu í sannleikanum, þeim mun ófullkomnari virðist þeir verða. Líklegra er þó að þeim verði einfaldlega ljósara hve ófullkomnir þeir eru og ófærir um að samstilla sig fullkomnum stöðlum Jehóva á þann hátt sem þeir vildu. En í rauninni stafar þetta líklega af því að þeir halda áfram að vaxa í þekkingu á réttlátum kröfum Jehóva og læra að meta þær enn meir. Það er þýðingarmikið að við leyfum vitundinni um það aldrei að draga svo úr okkur kjarkinn að við göngum í gildru Satans. Í aldanna rás hefur hann aftur og aftur reynt að gera sér mat úr kjarkleysi og vanmáttarkennd í þeim tilgangi að koma þjónum Jehóva til að yfirgefa sanna tilbeiðslu. Engu að síður hefur ósvikinn kærleikur til Guðs og ,fullt hatur‘ á djöflinum hindrað flesta þeirra í að gera það. — Sálmur 139:21, 22; Orðskviðirnir 27:11.
7. Að hvaða leyti getur okkur stundum liðið eins og Job?
7 Samt geta þjónar Jehóva fundið til kjarkleysis af og til. Það gæti einnig stafað af óánægju með það sem við höfum áorkað. Líkamskvillar eða þvingað samband við ættingja, vini eða vinnufélaga gæti einnig átt hlut að máli. Hinn trúfasti Job varð svo niðurdreginn að hann sárbændi Guð: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!“ Ef erfiðleikar gátu komið Job, sem var „maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar,“ til að fá kjarkleysisköst, er þá nokkur furða að það skuli geta hent okkur? — Jobsbók 1:8, 13-19; 2:7-9, 11-13; 14:13.
8. Hvers vegna getur kjarkleysi endrum og eins verið góðs viti?
8 Það er mjög svo hughreystandi að vita að Jehóva skuli horfa inn í hjartað og ekki sjást yfir góðan ásetning! Hann hafnar aldrei þeim sem kappkosta í allri einlægni að þóknast honum. Kjarkleysi endrum og eins getur meira að segja verið jákvætt merki og gefið til kynna að við séum ekki kærulaus gagnvart þjónustu okkar við Jehóva. Frá þessum bæjardyrum séð getur verið að sá sem á aldrei við kjarkleysi að glíma sé ekki jafnvakandi andlega fyrir eigin veikleikum og aðrir eru fyrir sínum. Munum: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ — 1. Korintubréf 10:12; 1. Samúelsbók 16:7; 1. Konungabók 8:39; 1. Kroníkubók 28:9.
Þeir voru líka gerðir af moldu
9, 10. (a) Eftir trú hvers ættu kristnir menn að líkja? (b) Hvernig brást Móse við verkefni sínu?
9 Ellefti kafli Hebreabréfsins telur upp marga votta Jehóva fyrir daga kristninnar sem sýndu sterka trú. Kristnir menn á fyrstu öld og nú á tímum hafa gert slíkt hið sama. Sá lærdómur, sem draga má af þeim, er ómetanlegur. (Samanber Hebreabréfið 13:7.) Trú hvers væri til dæmis betri fyrir kristna menn að líkja eftir en trú Móse? Hann var kallaður til að boða dóma yfir voldugasta þjóðhöfðingja sinnar samtíðar, faraó Egyptalands. Núna verða vottar Jehóva að boða svipaðan dómsboðskap yfir falstrúarbrögðum og öðrum stofnunum og samtökum sem standa á móti hinu stofnsetta ríki Krists. — Opinberunarbókin 16:1-15.
10 Það er ekkert auðvelt að gera þessu verkefni skil, eins og Móse sýndi. „Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?“ spurði hann. Við getum skilið að honum hafi fundist hann vanmáttugur til verksins. Hann hafði líka áhyggjur af því hvernig samlandar hans myndu bregðast við: „Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín.“ Jehóva útskýrði þá fyrir honum hvernig hann gæti sannað umboð sitt, en Móse hafði annað vandamál. Hann sagði: „Æ, [Jehóva], aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak.“ — 2. Mósebók 3:11; 4:1, 10.
11. Hvernig gætum við brugðist við guðræðislegum skyldum líkt og Móse, en hverju megum við treysta ef við sýnum trú?
11 Af og til kann okkur að líða eins og Móse. Enda þótt við gerum okkur grein fyrir guðræðislegum skyldum okkar er okkur kannski til efs að við getum nokkurn tíma risið undir þeim. ,Hver er ég að ég skuli taka fólk tali sem er sumt hvert hærra sett í þjóðfélaginu, efnaðra eða menntaðra en ég, og ætla mér þá dul að mennta það um vegi Guðs? Hvernig ætli trúbræður mínir bregðist við þegar ég tjái mig á kristnum samkomum eða flyt ræður á sviðinu í Guðveldisskólanum? Ætli þeir sjái ekki hve mér er áfátt?‘ En munum að Jehóva var með Móse og gerði hann hæfan til verkefnis síns af því að hann sýndi trú. (2. Mósebók 3:12; 4:2-5, 11, 12) Ef við líkjum eftir trú Móse verður Jehóva með okkur og gerir okkur líka fær til verks okkar.
12. Hvernig getur trú Davíðs hvatt okkur þegar við verðum niðurdregin vegna synda eða mistaka?
12 Hver sá sem er vonsvikinn eða niðurdreginn vegna synda eða mistaka getur skilið Davíð er hann sagði: „Ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.“ Davíð sárbændi Jehóva og sagði einnig: „Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.“ En aldrei leyfði hann þó kjarkleysi að ræna sig lönguninni til að þjóna Jehóva. „Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ Davíð var greinilega „mold“ en Jehóva sneri ekki baki við honum því að Davíð sýndi trú á fyrirheit Jehóva um að hann fyrirliti ekki „sundurmarið og sundurkramið hjarta.“ — Sálmur 38:2-10; 51:5, 11, 13, 19.
13, 14. (a) Hvers vegna ættum við ekki að fylgja mönnum? (b) Hvernig má sjá af fordæmi Páls og Péturs að jafnvel þeir voru af moldu?
13 Taktu þó eftir að enda þótt við eigum að líta á ,slíkan fjölda votta‘ sem hvatningu til að ,þreyta þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan,‘ er okkur ekki sagt að gerast fylgjendur þeirra. Okkur er sagt að feta í fótspor „Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar,“ ekki ófullkominna manna — ekki einu sinni hinna trúföstu postula fyrstu aldarinnar. — Hebreabréfið 12:1, 2; 1. Pétursbréf 2:21.
14 Postularnir Páll og Pétur, máttarstólpar í kristna söfnuðinum, hrösuðu stundum. „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég,“ skrifaði Páll. „Ég aumur maður!“ (Rómverjabréfið 7:19, 24) Og einhverju sinni, þegar Pétur var einum of sjálfsöruggur, sagði hann Jesú: „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast.“ Þegar Jesús varaði Pétur við að hann mynd afneita honum þrisvar andmælti Pétur meistara sínum ósvífnislega og sagði digurbarkalega: „Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér.“ En svo fór að hann afneitaði Jesú og þau mistök komu honum til að gráta beisklega. Já, Páll og Pétur voru gerðir af moldu. — Matteus 26:33-35.
15. Hvaða hvatningu höfum við til að sækja fram þótt við séum af moldu?
15 Þrátt fyrir veikleika sína gengu Móse, Davíð, Páll, Pétur og aðrir þeim líkir samt sem áður með sigur af hólmi. Hvers vegna? Vegna þess að þeir höfðu sterka trú á Jehóva, treystu honum skilyrðislaust og héldu sér fast við hann þrátt fyrir afturkippi. Þeir treystu honum til að veita sér „ofurmagn kraftarins.“ Og hann gerði það og lét þá aldrei falla svo að þeir næðu sér ekki. Ef við höldum áfram að sýna trú megum við vera viss um að þegar dómur er felldur í okkar tilviki verði hann í samræmi við orðin í Hebreabréfinu 6:10: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ Hvílík hvatning fyrir okkur til að sækja fram þótt við séum af moldu! — 2. Korintubréf 4:7.
Hvað merkir það fyrir okkur sem einstaklinga að vera af moldu?
16, 17. Hvernig heimfærir Jehóva meginregluna í Galatabréfinu 6:4 þegar hann dæmir?
16 Reynslan hefur sýnt mörgum foreldrum og kennurum viskuna í því að dæma börn eða nemendur eftir hæfni hvers og eins, ekki með því að bera þau saman við systkini eða bekkjarfélaga. Það er í samræmi við eina af meginreglum Biblíunnar sem kristnum mönnum hefur verið sagt að fylgja: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ — Galatabréfið 6:4.
17 Í samræmi við þessa meginreglu dæmir Jehóva okkur sem einstaklinga enda þótt hann skipti við fólk sitt sem skipulagðan hóp. Rómverjabréfið 14:12 segir: „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ Jehóva þekkir mætavel erfðafræðilegt atgervi hvers og eins af þjónum sínum. Hann þekkir líkamsgerð og lunderni þeirra, hæfileika þeirra, sterku og veiku hliðarnar sem þeir hafa tekið í arf, möguleika þeirra og það hvernig þeir notfæra sér þessa möguleika til að bera kristinn ávöxt. Orð Jesú um ekkjuna, sem gaf tvo smápeninga í fjárhirslu musterisins, og líking hans um sæðið, sem sáð var í góða jörð, eru hvetjandi fordæmi fyrir kristna menn sem eru niðurdregnir af því að þeir hafa verið svo óskynsamir að bera sig saman við aðra. — Markús 4:20; 12:42-44.
18. (a) Af hverju ættum við að ganga úr skugga um hvað það þýði fyrir okkur sem einstaklinga að vera af moldu? (b) Hvers vegna ætti heiðarleg sjálfsrannsókn ekki að koma okkur til að örvænta?
18 Það er mikilvægt að við göngum úr skugga um hvað það merki fyrir okkur persónulega að vera mold þannig að við getum þjónað eins vel og okkur er mögulegt. (Orðskviðirnir 10:4; 12:24; 18:9; Rómverjabréfið 12:1) Aðeins með því að gera okkur fullkomlega grein fyrir veikleikum sjálfra okkar getum við verið vakandi fyrir þörfinni á því að bæta okkur og möguleikum okkar til þess. Þegar við gerum sjálfsrannsókn skulum við aldrei gleyma mætti heilags anda til að hjálpa okkur að bæta okkur. Það var fyrir atbeina hans sem alheimurinn var skapaður, Biblían skrifuð og nýtt, friðsamt heimsþjóðfélag hefur orðið til mitt í deyjandi heimi. Heilagur andi Guðs er því vissulega nógu máttugur til að gefa þeim sem biðja um hann þá visku og þann kraft sem þarf til að varðveita ráðvendni. — Míka 3:8; Rómverjabréfið 15:13; Efesusbréfið 3:16.
19. Fyrir hverju er það að við skulum vera af moldu engin afsökun?
19 Sannarlega er það hughreystandi að vita að Jehóva skuli muna að við erum mold! Aldrei ættum við þó að hugsa sem svo að það sé lögmæt afsökun fyrir því að slá slöku við eða jafnvel að gera eitthvað rangt. Alls ekki! Að Jehóva skuli muna að við erum mold er merki um óverðskuldaða góðvild hans. En við viljum ekki vera „óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.“ (Júdasarbréfið 4) Það að vera af moldu er engin afsökun fyrir því að vera óguðlegur. Kristinn maður leggur sig allan fram við að berjast gegn röngun tilhneigingum, leikur líkama sinn hart og gerir hann að þræli sínum þannig að hann ,hryggi ekki Guðs heilaga anda.‘ — Efesusbréfið 4:30; 1. Korintubréf 9:27.
20. (a) Á hvaða tveim sviðum höfum við kappnóg að gera í verki Drottins? (b) Hvers vegna höfum við ástæðu til að vera bjartsýn?
20 Núna, á lokaárum heimkerfis Satans, er ekki rétti tíminn til að hægja ferðina — ekki í sambandi við prédikun Guðsríkis og ekki í sambandi við það að þroska ávöxt anda Guðs betur. Á báðum sviðum er kappnóg að gera. Núna er rétti tíminn til að sækja fram af því að við vitum að ,erfiði okkar er ekki árangurslaust.‘ (1. Korintubréf 15:58) Jehóva heldur okkur uppi því að Davíð sagði um hann: „Hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Hvílík gleði að vita að Jehóva leyfir okkur persónulega að taka þátt í stórkostlegasta verki sem ófullkomnir menn hafa nokkurn tíma fengið að vinna — og það þrátt fyrir að við séum af moldu!
[Neðanmáls]
a Biblíuskýringaritið Herders Bibelkommentar segir í athugasemdum um Sálm 103:14: „Honum er fullkunnugt að hann skapaði mennina úr leiri jarðar og hann þekkir veikleika og hverfulleika lífs þeirra sem liggur þungt á þeim frá upphafssyndinni.“ — Leturbreyting okkar.
Geturðu útskýrt?
◻ Hvaða merkingarmunur er á 1. Mósebók 2:7 og Sálmi 103:14 í sambandi við það að við séum af moldu eða leir?
◻ Hvers vegna er 11. kafli Hebreabréfsins uppörvandi fyrir kristna menn nú á tímum?
◻ Hvers vegna er viturlegt af okkur að fara eftir meginreglunni í Galatabréfinu 6:4?
◻ Hvernig geta Hebreabréfið 6:10 og 1. Korintubréf 15:58 hjálpað okkur að bægja frá okkur kjarkleysi?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Kristnir menn líkja eftir trú annarra tilbiðjenda Guðs, en þeir fylgja fullkomnara trúar sinnar, Jesú.