Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 7.93 bls. 3-5
  • Einfölduð tilhögun við dreifingu ritanna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Einfölduð tilhögun við dreifingu ritanna
  • Ríkisþjónusta okkar – 1993
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Það sem framlögin fara í
  • Brautryðjendurnir
  • Áskriftir
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
  • Sáðu ríflega en með hyggindum
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
  • Hvernig er starfsemi Guðsríkis fjármögnuð?
    Ríki Guðs stjórnar
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1993
km 7.93 bls. 3-5

Einfölduð tilhögun við dreifingu ritanna

1 Biblíurnar, bækurnar og blöðin, sem framleidd hafa verið og dreift undir stjórn hins trúa og hyggna þjóns, hafa komið að miklum notum við að inna af hendi hið umfangsmikla verkefni að prédika og kenna fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. Núna eru liðin rúm þrjú ár síðan svokölluð einfölduð tilhögun við dreifingu ritanna var tekin upp í Bandaríkjunum og síðan þá hefur hvert landið á fætur öðru tekið upp þessa tilhögun. Í upphafi þessa árs var hún innleidd í Danmörku, Noregi, á Englandi og í fleiri löndum. Hefur þessi tilhögun reynst vel? Já, skýrslur frá starfinu sýna að ritum okkar, jafnt blöðum, bæklingum og bókum, hefur verið dreift í meiri mæli en áður. En árangurinn má fyrst og fremst meta út frá fjölda nýrra lærisveina. Þessari tilhögun hefur fylgt aukin áhersla á að vekja upp hjá fólki áhuga á voninni sem Guðsríki veitir og fylgja þeim áhuga eftir og glæða hann. Yfir 600.000 hafa látið skírast síðastliðin tvö þjónustuár. Bókstaflega milljónir manna hafa fengið tækifæri til að ‚koma og fá ókeypis lífsins vatn.‘ — Opinberunarbókin 22:17.

2 Frá og með 1. júlí 1993 er þessi tilhögun við dreifingu ritanna okkar tekin upp á Íslandi. Ástæða þess að taka hana upp núna er meðal annars sú breyting á lögum um virðisaukaskatt á rit á íslensku sem tekur gildi á sama tíma, svo og að prentunin á öllum íslensku ritunum hefur verið færð til Þýskalands og lög þar í landi kalla á þessa breytingu. Okkur er þessi tilhögun þó ekki að öllu leyti ókunnug þar sem þessi háttur hefur verið hafður á varðandi dreifingu rita á öðrum málum en íslensku til boðberanna síðan í september 1990. Það sem er einkum nýtt fyrir okkur er hvernig við förum að við dreifingu ritanna úti í boðunarstarfinu. Núna er því tækifæri til að fara nánar út í þá hlið málsins og draga lærdóm af þeirri reynslu sem safnast hefur upp í löndum sem þegar hafa notað þetta einfaldaða fyrirkomulag um nokkurt skeið.

3 Það virðist vera mikilvægt að undirstrika að okkur er hvorki skylt né ljúft að afhenda hverjum sem er lestrarefni aðeins ef hann vill taka á móti því. Fólk, sem sýnir einlægan áhuga á boðskapnum um Guðsríki og langar í raun til að lesa ritin okkar, getur fengið þau endurgjaldslaust. Til að þessi einfaldaða tilhögun við dreifingu ritanna haldi áfram að vera árangursrík verðum við hins vegar að vera vakandi fyrir því hvort ósvikinn áhugi sé fyrir hendi hjá þeim sem við prédikum fyrir. Á sama hátt og við nýtum eigin fjármuni og efnislegar eigur af skynsemi ber sérhver boðberi ábyrgð á því að nota skynsamlega þau rit sem hann fær frá Félaginu fyrir milligöngu safnaðar síns án þess að vera rukkaður sérstaklega fyrir þau. Þó að Félagið afhendi boðberunum ritin til ráðstöfunar án sérstaks endurgjalds er að sjálfsögðu ekki þar með sagt að það kosti ekkert að framleiða og dreifa bókum og blöðum. Allir ættu að gera sér að fullu ljóst hversu mikla þýðingu ritin okkar hafa sem hjálpargögn við að aðstoða hreinhjartað fólk sem leitar nákvæmrar þekkingar á Jehóva Guði og syni hans, Jesú Kristi. — Jóh. 17:3.

4 Hvernig er það gerlegt fyrir Félagið að bjóða öllu áhugasömu fólki ritin, sem það gefur út, án þess að taka greiðslu fyrir? Það er hægt vegna þess að frjáls framlög til Félagsins standa undir þeim óhjákvæmilega kostnaði sem útgáfustarfinu fylgir. Vígðir þjónar Jehóva leggja sjálfir fram langstærstan hluta þessara fjármuna. Vottar Jehóva hafa ekki leitað eftir fjárstuðningi opinberra aðila til að geta sinnt hinu geysimikilvæga starfi að boða fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum. Við höfum aldrei nokkrun tíma stofnað til samskota og það gerum við ekki heldur núna. Við þiggjum hins vegar frjáls framlög frá fólki sem við hittum í boðunarstarfinu og óskar þess af einlægni að leggja eitthvað af mörkum til starfs okkar af því að það metur þetta mikilvæga starf að verðleikum.

Það sem framlögin fara í

5 Það er því ljóst að við þurfum að vera reiðubúin til að útskýra stuttlega en hnitmiðað að biblíufræðslustarf okkar er um heim allan kostað með frjálsum framlögum. Allir þeir fjármunir, sem inn koma, eru notaðir til að standa undir þeim mikla kostnaði sem óhjákvæmilega fylgir því að kunngera boðskapinn um Guðsríki á okkar dögum. Auk þess að framleiða lestrarefni á fjölda tungumála til nota um víða veröld styður Félagið fjárhagslega sérbrautryðjendur, trúboða og farandumsjónarmenn. Það rekur deildarskrifstofur, Betelheimili, trúboðsheimili, skóla fyrir trúboða og útnefnda þjóna, fræðslumiðstöðvar, dreifimiðstöðvar rita og fjölmarga aðra þjónustustarfsemi sem nauðsynleg er til að fullna í heild það verkefni sem Jesús fól lærisveinum sínum. — Matt. 24:14; 28:19, 20.

6 Geysilegur vöxtur hefur átt sér stað meðal fólks Jehóva á undanförnum árum og það hefur fengið marga til að velta fyrir sér hvernig þeir geti hjálpað. Flestir hafa ekki tök á að vera persónulega með í því að byggja nýjar deildarskrifstofur og ríkissali eða ferðast til annarra svæða eða fjarlægra landa til að kunngera fagnaðarerindið þar sem þörfin er meiri en á heimaslóðum þeirra. En margir boðberar og fjölskyldur þeirra eru fúsir til að eiga annars konar hlutdeild í þessari spennandi framvindu í þeim mæli sem þeir hafa getu til, og hafa gert sér það að reglu að leggja fé til hliðar til að gefa sem frjálst framlag til alþjóðastarfsins. (Samanber 1. Korintubréf 16:1, 2.) Á þennan hátt veita þeir allri starfsemi og framkvæmdum Félagsins lið, þar með talinni útgáfu og dreifingu ritanna. Enginn ætti að líta svo á að þessi frjálsu framlög séu aðeins greiðsla til að mæta kostnaði við útgáfu ritanna.

7 Þegar við förum til fólks til að vitna fyrir því ættum við að vera undir það búin að ræða biblíulegt efni við það. Í bókinni Rökrætt út af Ritningunni finnum við margar tillögur um inngangsorð sem reynslan hefur sýnt að ná oft athygli manna og vekja áhuga þeirra. Þar er einnig að finna mörg biblíuleg viðfangsefni sem hentugt er að taka til umfjöllunar. Við getum líka notfært okkur tillögur varðandi inngangs- og kynningarorð sem birtast og hafa birst í Ríkisþjónustu okkar. Það hefur auk þess reynst vel að nota smáritin til að koma af stað samræðum. Við verðum síðan að meta viðbrögð húsráðandans við boðskapnum um Guðsríki og út frá því ákveða hvort og hvernig við bjóðum honum rit.

8 Ef okkur tekst, jafnvel með fáeinum orðum, að vekja athygli á upplýsingum í einhverju af ritum okkar sem fjallar meira um það efni, kann áhugasamur einstaklingur að láta í ljós einlæga löngun til að lesa það. Við getum þá boðið honum ritið vegna þess að hann sýnir greinilegan áhuga. Ef áhugi virðist á hinn bóginn ekki vera fyrir hendi í þeim mæli að það þjóni nokkrum tilgangi að bjóða bók eða annað lesefni má ljúka samtalinu á nærgætinn hátt og snúa sér að næstu heimsókn. Það mætti einnig skilja eftir smárit ef viðmælandi okkar lofar að lesa það.

9 Stundum gefst ekki tækifæri til að fara út í samræður við húsráðandann vegna þess að hann er upptekinn eða tíminn er á einhvern hátt óheppilegur fyrir hann. Þá getum við sagt stuttlega hvers vegna við komum og boðið smárit eða gamalt blað og lofað að koma aftur þegar betur stendur á. Ef húsráðandinn tekur vel í það verðum við að gæta þess að skrifa heimsóknina hjá okkur svo að við getum staðið við það loforð að koma aftur.

10 Þegar við látum áhugasaman einstakling fá rit getum við, ef vel stendur á eða hann spyr beint hvað þau kosta, einfaldlega og stuttlega útskýrt fyrir honum að ritin okkar séu ókeypis en við munum fúslega þiggja smávegis framlag til starfsins ef hann langar til að leggja það fram. Ef ráðstafanir eru gerðar til að koma í endurheimsókn getur þú hins vegar ákveðið að geyma slíkar athugasemdir til þeirrar heimsóknar. Gæta skal þess að gefa ekki í skyn að menn verði að láta eitthvað af hendi rakna til þess að fá ritin. Þeir sem hafa áhuga á að lesa þau geta fengið þau ókeypis. Ef menn vilja vita hvernig starf okkar er fjármagnað mætti nefna að meira en fjórar milljónir manna taki þátt í þessu starfi um heim allan í 229 löndum og frjáls framlög, að mestu leyti þeirra sjálfra, standi undir útgjöldum sem þessu mikla starfi fylgir.

11 Með þessari einfölduðu tilhögun við dreifingu ritanna verður hverjum og einum ljóst að biblíufræðslustarf okkar er á engan hátt sölustarf eða unnið í ágóðaskyni. Þar að auki hjálpar það okkur sjálfum að hafa alltaf fyrir augum það markmið okkar að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum. Vottar Jehóva eru ekki eins og þau mörgu samtök sem ‚safna fé til líknarmála‘ til hagsbóta fyrir afmarkaða hópa, heldur vinna þeir með ánægju að því að allir geti fengið rit sem veita lífsnauðsynlega fræðslu um boðskap Biblíunnar án þess að menn þurfi fyrst að greiða fyrir þau. Við óskum þess ekki að fólk, sem ekki hefur einlægan áhuga á starfi Guðsríkis, leggi fram fjármuni til starfs okkar. (Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 1. desember 1990, blaðsíðu 22-25.) Öll framlög ganga óskipt til stuðnings þessu biblíufræðslustarfi sem nær um alla jörðina, þar eð allir sem að því starfa eru sjálfboðaliðar og engum innan skipulagsins eru greidd laun.

Brautryðjendurnir

12 Þessi nýja tilhögun hefur í för með sér að brautryðjendur eru í sömu stöðu og aðrir boðberar hvað ritin varðar. Þar sem ritin eru ekki lengur seld er heldur ekki lengur um neinn brautryðjandaafslátt að ræða. Flestir brautryðjendur komast af með hlutastarf og hafa á ýmsan hátt sýnt að þá langi til að leggja eitthvað af mörkum til starfs Guðsríkis. Þeir geta, eins og boðberarnir, fengið án greiðslu þau rit sem þeir ætla að nota. Félagið lætur okkur fá ritin til ráðstöfunar til að hjálpa okkur í boðunarstarfinu. Þau framlög, sem brautryðjendurnir vilja sjálfir leggja fram til starfsins, svo og þau frjálsu framlög sem þeir fá úti í boðunarstarfinu á akrinum, skulu send til Félagsins eða lögð í framlagabaukinn sem merktur er „Framlög til alþjóðastarfs Félagsins — Matteus 24:14“ og er að finna í hverjum ríkissal.

Áskriftir

13 Allir áskrifendur munu fá þau blöð sem þeir hafa greitt fyrir. En þegar komið er að endurnýjun áskriftarinnar mun eftirfarandi fyrirkomulag ríkja: (1) Allir áskrifendur að íslensku blöðunum, sem sækja samkomurnar, eru hvattir til að endurnýja ekki áskrift sína. Þeir ættu öllu heldur að taka persónuleg eintök sín/fjölskyldunnar úr blaðapöntun sinni og þá stækka pöntun sína ef þörf gerist. (2) Þegar áskrift rennur út hjá öllum öðrum áskrifendum, hvort sem þeir eru áskrifendur að íslensku og/eða erlendu blöðunum, ætti viðkomandi boðberi að reyna að komast að raun um hvort áskrifandinn hafi í raun áhuga á blöðunum og lesi þau. Ef svo er ætti að bjóða honum að endurnýja áskriftina en taka fram að eftirleiðis þurfi hann ekki að greiða fyrir hana þar sem blöðin eru ekki lengur seld. Þó er að sjálfsögðu nauðsynlegt að útfylla áskriftarmiða eins og áður. Ef áskrifandinn lætur í ljós ósk um að leggja eitthvað fram til starfsins getur hann gert það og boðberinn mun þá leggja peningana í viðeigandi bauk í ríkissalnum.

14 Jehóva mun áfram sjá um að þjónum hans fari enn fjölgandi er við leitumst af kostgæfni við að auka þjónustu okkar og nota á sem bestan hátt hin verðmætu rit sem Félagið gefur út og leggur í hendur okkar. Við vitum að „máttur og megin er í hendi“ Jehóva og við treystum því að hann muni halda áfram að gera þjóna sína ‚færa um að gefa svo mikið sjálfviljuglega‘ sem þörf er á. (1. Kron. 29:10-14) Hin einfaldaða tilhögun við dreifingu ritanna og hugulsamar útskýringar okkar á eðli starfs okkar mun verka aðlaðandi á hreinhjartaða menn — fá suma til að styðja starfið fúslega með frjálsum framlögum og, það sem þýðingarmeira er, gera okkur enn betur kleift að sinna til fulls því mikilvæga hlutverki okkar að kunngera fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum. — Matt. 24:14; 28:19, 20.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila