Spurningakassinn
◼ Ættu boðberar og brautryðjendur að finnast þeir skuldbundnir til að gefa framlag til alþjóðastarfs Félagsins í hvert sinn sem þeir fá rit í ríkissalnum til nota í boðunarstarfinu?
Nei. Í bréfinu til allra safnaða, dagsettu 25. júní 1993, segir: „Þegar boðberi eða áhugasamur einstaklingur óskar eftir að fá blöð eða bækur í ríkissalnum getur hann gert það án þess að þurfa að ‚borga fyrir‘ þau rit sem hann biður um. Félagið mun einfaldlega gefa honum það sem hann óskar eftir. Við bóka- og blaðaborðið verður ekki beðið um greiðslu, þess ekki vænst að menn leggi fram frjálst framlag og þar verður ekki tekið við peningum. Þeir sem vilja leggja eitthvað af mörkum til starfsemi Guðsríkis, þar með talin prentun og dreifing ritanna, ættu að leggja framlög sín í baukinn sem merktur er ‚Framlög til alþjóðastarfs Félagsins — Matteus 24:14.‘“ Þetta þýðir að boðberarnir munu gefa frjáls framlög til stuðnings alþjóðastarfinu í samræmi við getu sína og löngun, hvenær sem þeir óska þess. — 2. Kor. 8:10-15; 9:6-14.
Sumir boðberar munu hins vegar taka þann kostinn að leggja fram framlög sín á sama tíma og þeir ná sér í rit. Þeir gera það vegna þess að þegar þeir ná sér í rit eru þeir á þægilegan hátt minntir á þau sérréttindi sín og ábyrgð að styðja alþjóðastarfið reglulega. Aðrir leggja inn sitt persónulega framlag um leið og þeir skila inn frjálsu framlögunum sem þeir tóku við úti í boðunarstarfinu frá áhugasömu fólki. Margir hafa ákveðið að leggja fram ákveðna upphæð í hverri viku. Enn aðrir leggja til hliðar einhverja upphæð til alþjóðastarfsins hvern mánuð eins og þeir gera fyrir útgjöld vegna ríkissalarins.
Hvernig sem farið er að verður hver og einn að ákveða hvað hann eða hún geti persónulega gert til að styðja alþjóðastarfið. Slíkar gjafir ætti að bera fram á skipulegan hátt í samræmi við greiðslugetu gefandans. (1. Kor. 16:2) Þegar við gefum slík framlög verðum við að hafa í huga að þau eru ekki lögð fram einungis til að mæta kostnaðinum við framleiðslu ritanna heldur til stuðnings öllum þáttum alþjóðastarfsins.