Hvernig hefja má biblíunám með því að nota bæklingana
1 Það væri mjög ánægjulegt og umbunarríkt bæði fyrir þig og húsráðandann að hafa biblíunám. Það jafnast ekkert á við þá gleði að deila biblíuþekkingu með öðrum. — Orðskv. 11:25.
2 Tákn síðustu daga: Ef þú notaðir tillöguna í greininni hér að ofan og hófst umræður með smáritinu Mun þessi heimur bjargast? hvernig getur þú þá núna hafið biblíunám í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Flettu upp á blaðsíðu 4 og lestu tölugrein 5. Ræddu spurningar sem þar eru við húsráðandann og reyndu að fá hann til að tjá sig um þær. Spyrðu hann hvers vegna mikilvægt sé að fá svör við þeim. Lestu aftur síðustu spurninguna í greininni og bentu á að henni sé svarað í 3. hluta bæklingsins. Síðan skaltu lesa greinar 1 og 2 og þar næst grein 3 og 4. Hjálpaðu húsráðandanum að sjá að þessi einföldu rök eiga vel við spurninguna um tilvist Guðs. Ef hann virðist hafa tíma og áhuga getur þú haldið áfram samræðunum en vertu þó ekki of lengi í fyrsta sinn.
3 Ef svo virðist sem annar tími væri heppilegri fyrir húsráðandann gætir þú spurt: „Myndir þú vilja vita meira um hvers vegna Guð hefur leyft svona miklar þjáningar á jörðinni?“ Þú getur síðan gert ráðstafanir til að koma aftur til að svara spurningunni.
4 Er friðsæll heimur mögulegur? Ef þú notaðir smáritið Líf í friðsömum nýjum heimi til að kynna bæklinginn „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“, hvernig mætti þá stofna nám í þeim bæklingi?
Eftir að hafa lesið 2. Pétursbréf 3:13 gætir þú dregið saman aðra efnisgreinina á blaðsíðu 3 í smáritinu og síðan sagt:
◼ „Það sem hér er lýst kallar að sjálfsögðu á miklar breytingar. En það er nákvæmlega það sem orð Guðs segir að muni eiga sér stað. Bæklingurinn, sem þú fékkst hjá mér um daginn, ber heitið „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,“ og er það tekið úr Opinberunarbókinni 21:5. Mörgum finnst hins vegar erfitt að trúa fyrirheitum Biblíunnar og jafnvel því að Guð sé til. Hvað finnst þér? [Leyfðu húsráðandanum að svara.] Guð hefur opinberað sig mönnunum á tvo vegu. Um það er rætt í grein 13 í bæklingnum. [Lestu greinina og spyrðu spurningarinnar við hana. Ef aðstæður leyfa skaltu fara eins að með næstu tvær til þrjár greinar.] Mig myndi langa til að fá að líta við hjá þér einu sinni á viku til að hjálpa þér að sjá frá Biblíunni hversu stórkostleg fyrirheit Guðs eru, hvers vegna við getum treyst þeim og hvað við þurfum að gera til að þau rætist á okkur.“
5 Þú gætir líka, eftir að hafa tekið fram „Sjá“-bæklinginn, sýnt húsráðandanum spurningarnar á blaðsíðu 30 og spurt hann hver þeirra veki einna mestan áhuga hans. Síðan mætti fara yfir þann hluta bæklingsins sem svarar spurningunni. Að lokum er gott að spyrja hvort ekki væri í lagi að koma fljótlega aftur til að svara einhverri annarri af þessum spurningum.
6 Enn er til margt hreinhjartað fólk sem elskar réttlætið og leitar lausnar á þeim vandamálum sem mæta því í lífinu. Það er sannarlega umbunarríkt og verðugt viðfangsefni að bjóða þessu fólki aðstoð sína við að skilja og meta fyrirheit Guðs og fyrirætlun með því að hafa með því biblíunám.