Hjálpum öðrum að læra um son Guðs, Jesú Krist
1 Í desembermánuði hugsa flestir sem játa kristna trú meira um Jesú og Biblíuna en á nokkrum öðrum tíma ársins. Margir kalla líka jólin hátíð barnanna. Biblíusögubókin mín er þess vegna heppilegt tilboð í desember. Þar sem þetta er verðmæt bók ættum við að reyna að finna út hvort húsráðandinn hafi einlægan áhuga á að fá slíkt hjálpartæki til trúfræðslu barnanna áður en við bjóðum honum hana. Hvernig getum við gert það?
2 Eftir að hafa heilsað húsráðandanum gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Margir foreldrar láta skólana að mestu leyti um að fræða börnin sín. En ætli það sé nóg? [Gefðu kost á svari.] Biblían leggur áherslu á ábyrgð foreldranna á uppeldi og fræðslu barnanna. Taktu eftir því sem segir hér í Orðskviðunum 22:6. [Lestu.] Það þarf að innræta börnum góðar lífsreglur áður en þau ná skólaaldri. Og hvar er bestu lífsreglurnar að finna? [Gefðu kost á svari.] Í Sálmi 119:9 er mikilvægri spurningu svarað. [Lestu.] Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar fræði börnin sín um orð Guðs.“ Ef húsráðandinn sýnir þessu máli áhuga skaltu taka fram Biblíusögubókina og benda honum á eina eða tvær sögur, svo og inngangsorðin á undan efnisyfirlitinu, til að vekja hjá honum löngun til að nota þessa bók.
3 Ef húsráðandinn sýnir lítinn áhuga getur þú boðið honum nýjustu eintökin af Varðturninum og Vaknið! eða smárit sem þér finnst eiga vel við. Vektu athygli hans á einum eða tveimur sérstökum atriðum í því riti sem þú kynnir. Síðan skaltu bjóðast til að koma aftur á hentugum tíma til að ræða efnið frekar við hann.
4 Ef þér virðist, strax og húsráðandinn kemur til dyra, að ekki eigi vel við að bjóða honum Biblíusögubókina gætir þú reynt að hefja samræður um efni sem tengja má desembertölublaði Varðturnsins.
Eftir að hafa kynnt þig gætir þú sagt:
◼ „Margir furða sig á hvers vegna menn, sem játa kristna trú, skuli drepa og limlesta hver annan eins og við höfum fjölmörg dæmi um allt til þessa dags. Hefur þér dottið í hug einhver skýring á því? [Gefðu kost á svari.] Þessi hegðun er í algerri andstöðu við það sem Jesús sagði að einkenna myndi lærisveina hans. [Lestu Jóhannes 13:35.] Frumkristnir menn voru þekktir fyrir friðsemd og kærleika sín á milli. Hvað varð til að breyta því?“
5 Ef húsráðandinn sýnir lítinn sem engan áhuga gætir þú sagt með fáeinum orðum að heimurinn og höfðingi hans hafi náð að leiða kristna menn af réttri braut, og síðan boðið smáritið Hver er höfðingi heimsins? Ef áhugi er hins vegar fyrir hendi gætir þú haldið samræðunum áfram út frá inngangsgreinunum í desembertölublaði Varðturnsins.
6 Við skulum öll nota hátíðisdaga heimsins í þessum mánuði til að beina athygli manna að sannleikanum um son Guðs, Jesú Krist, til þess að hjálpa öðrum inn á veginn sem liggur til eilífs lífs. — Matt. 7:14.