Áhrifaríkar endurheimsóknir í desember
1 Jesús sagði lærisveinum sínum að kenna fagnaðarerindið. (Matt. 28:19, 20) Til þess að kennslan beri árangur þurfum við að fara fljótt aftur til þeirra sem sýndu áhuga. Lætur þú endurheimsóknir sitja á hakanum? Hvernig getur þú farið sem fyrst aftur til þeirra sem sýndu einhvern áhuga, með það markmið í huga að stofna biblíunám?
2 Þegar þú ferð aftur til þess sem fékk smáritið „Hver er höfðingi heimsins?“ gætir þú sagt:
◼ „Þegar ég var hér fyrir nokkrum dögum ræddum við hvers vegna menn, sem játa kristna trú, koma oft illa fram hver við annan. Mig langar til að nota fáeinar mínútur til að fjalla um nokkuð af því sem fram kemur í smáritinu sem ég skildi eftir hjá þér. Margir halda að Guð eða þá Jesús Kristur séu höfðingjar þessa heims. En taktu eftir því sem segir hér.“ Flettu upp á blaðsíðu 2 í smáritinu og ræddu um fyrstu fimm efnisgreinarnar. Flettu upp ritningarstöðunum ef tíminn leyfir. Leggðu áherslu á að algóður Guð geti ekki staðið að baki eða knúið menn til þessara ódæðisverka. Hver er þá ábyrgur fyrir þeim og hvernig vitum við það? Nefndu að þú munir koma aftur til að fara yfir næstu efnisgreinar smáritsins þar sem þessari spurningu er svarað. Hvettu húsráðandann til að lesa yfir efnið áður en þú kemur aftur.
3 Við þann sem þáði desembertölublað „Varðturnsins“ gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Síðast þegar við töluðum saman skildi ég eftir hjá þér nýjasta tölublað Varðturnsins sem fjallar um kristna menn og heiminn. Við ræddum aðeins um það sem Jesús sagði að myndi einkenna lærisveina hans en það er skráð í Jóhannesi 13:35. [Lestu.] Ekki verður sagt að slíkur kærleikur einkenni kristna heiminn nú á dögum. Hvers vegna skyldi Guð hafa leyft þessa þróun mála?“ Hlustaðu á svar húsráðandans og sýndu honum síðan kafla 11 í Lifað að eilífu bókinni eða 6. hluta í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Leggðu grundvöll að biblíunámi með því að bjóðast til að ræða þetta efni við hann, annaðhvort þá strax eða koma aftur eftir nokkra daga. Í stað þess að nefna einhverja ákveðna tímalengd fyrir næstu umræður ykkar skaltu einfaldlega segja að á aðeins fáeinum mínútum geti húsráðandinn lært töluvert um það hvers vegna Guð hefur leyft illskuna í svo langan tíma. Ef áhugi er fyrir hendi skaltu bjóða bókina eða bæklinginn.
4 Ef húsráðandinn þáði „Biblíusögubókina“ gætir þú sagt:
◼ „Eins og ég nefndi í síðustu heimsókn er mikilvægt að innprenta börnum góðar lífsreglur þegar á ungum aldri og eru þá engar betri en þær sem Biblían inniheldur. Við lásum heilræði til ungs fólks í Sálmi 119:9. [Lestu.] En þetta gildir líka um fullorðna eins og kemur fram í versi 105 og 130 í þessum sama sálmi. [Lestu.] Þess vegna er nauðsynlegt að við tökum okkur tíma til að lesa og nema orð Guðs.“ Ef húsráðandinn fékk með Biblíusögubókinni annan hvorn bæklinganna Nafn Guðs sem vara mun að eilífu eða Ættum við að trúa á þrenninguna? gætir þú bent á efni í þeim til að undirstrika nauðsynina á nákvæmri þekkingu á Guði. Áður en þú lýkur samtalinu skalt þú nefna að þú viljir koma aftur til að halda samræðunum áfram.
5 Með því að vera ávallt jákvæð, undirbúa okkur vel og nota hvert tækifæri munum við geta farið í áhrifaríkar endurheimsóknir í desember og jafnvel stofnað biblíunám.