Haltu fast við játningu vonar þinnar án þess að hvika
1 Það er fyrst og fremst með Varðturnsnáminu sem andlegri ‚fæðu á réttum tíma‘ er komið til fólks Guðs nú á dögum. (Matt. 24:45) Við höfum tvö meginmarkmið með því að sækja þessa samkomu — að fá andlega uppbyggingu og játa von okkar í heyranda hljóði. — Hebr. 10:23-25.
2 Höfum sjálf gagn af: Giskað er á að í flestum söfnuðum nemi aðeins þriðjungur áheyrendanna efnið fyrirfram. Svipaður fjöldi tekur þátt í að svara. Á sjálfri samkomunni er ekki hægt að innbyrða og melta að fullu hina megnu andlegu fæðu sem borin er fram í Varðturnsnáminu. Þú þarft að taka frá tíma til að nema efnið fyrirfram.
3 Við undirbúning námsins kann það að reynast þér gagnlegt að lesa og hugleiða spurningarnar í rammanum aftarlega í greininni. Þær geta hjálpað þér að beina athyglinni einkum að aðalatriðunum sem um er fjallað í greininni.
4 Hlustaðu vandlega á það sem sagt er meðan á náminu stendur. Taktu eftir upphafsorðum námsstjórans. Þau orð leggja línurnar fyrir námið. Hann kann að bera fram þrjár eða fjórar spurningar sem verður svarað, eða rifja upp nokkur meginatriði frá náminu vikuna á undan ef námið núna er framhald á efninu sem þá var. Ef um er að ræða einhverja leiðréttingu eða breytingu á skilningi okkar á spádómi í Biblíunni eða biblíulegri frumreglu mun hann vekja athygli okkar á því. Athugasemdir stjórnandans verða að sjálfsögðu að vera stuttar af því að náminu er meðal annars ætlað að gefa söfnuðinum tækifæri til að tjá trú sína. Hlustaðu vandlega á athugasemdir annarra varðandi það sem þeir hafa lært. Það getur styrkt trú þína.
5 Játaðu von þína: Gefur þú að staðaldri athugasemdir meðan á náminu stendur? Helst ættu þær að vera stuttar og hnitmiðaðar. (Samanber Lúkas 21:1-4.) Allir kunna að meta einfalda athugasemd frá hjartanu. Yfirleitt ætti fyrsta svarið við spurningu að vera stutt og beint. Það gefur öðrum færi á að benda á ritningarstað eða vekja athygli á einstöku atriði í tölugreininni. Þegar þannig er farið að geta margir játað von sína svo aðrir heyri. Athugasemdir ættu alltaf að vera jákvæðar og uppbyggjandi.
6 Ef þú ert nýbyrjaður að sækja námið eða ef þú ert feiminn við að svara vilt þú ef til vill biðja stjórnandann um aðstoð. Biddu hann um að gá að uppréttri hendi þinni þegar komið er að ákveðinni tölugrein. Þú getur kannski boðist til að lesa tilvísaðan ritningarstað og sagt stuttlega hvernig hann tengist efninu. Þú gætir skrifað fáeinar athugasemdir á spássíuna til að hjálpa þér að muna eftir því sem þú ætlar að segja þegar þú gefur athugasemd. Ef þú ert barn eða unglingur eru athugasemdir frá þér vel þegnar og metnar. — Matt. 21:16.
7 Það er bráðnauðsynlegt að við látum trú okkar í ljós með orðum og Varðturnsnámið gefur gott tækifæri til þess. Ef þú ert hikandi við að gefa athugasemdir skaltu gera það sem þú getur til að sigrast á því vandamáli og knýja sjálfan þig til að gefa að minnsta kosti eitt svar. Þú hefur þá lagt eitthvað af mörkum til samkomunnar og þér mun líða betur vegna þess. Væri þess vegna ekki ráð að einsetja sér að gefa í það minnsta eina athugasemd strax í næsta Varðturnsnámi? — Orðskv. 15:23.