Hvers vegna að halda skrá yfir staði þar sem enginn var heima?
1 Vottahjón voru í boðunarstarfinu snemma dags. Seinna um daginn fóru þau aftur þangað sem enginn hafði verið heima á því svæði. Maður einn bauð þeim inn og hlustaði vandlega. Hann þáði Lifað að eilífu bókina og spurði hvort vottarnir kæmu aftur. Hann hafði aldrei fyrr talað við votta Jehóva og var með margar spurningar sem hann langaði til að fá svör við. Biblíunám var stofnað. Þessi hjón voru himinlifandi að hitta svo sauðumlíkan mann. Vildir þú að slíkt kæmi fyrir þig? Það er vel mögulegt ef þú heldur góða skrá yfir staði þar sem enginn var heima og lætur ekki dragast að fara þangað aftur.
2 Hvað eftir annað höfum við verið hvött til þess að halda nákvæma skrá yfir þá staði þar sem enginn var heima og fara fljótlega aftur þangað. Eins og frásögnin hér að framan sýnir getur það borið frábæran árangur að fara aftur sama daginn. Þótt við kunnum að vera með allan hugann við það að fara yfir allt svæðið sem okkur hefur verið úthlutað erum við ef til vill ekki eins dugleg að halda skrá yfir hvar enginn var heima. Sumir segja: ‚Við förum yfir svæði okkar aðra eða þriðju hverja viku; það er engin þörf á að halda slíka skrá af því að við komum hvort sem er fljótlega aftur.‘ En það gefur okkur jafnvel enn meiri ástæðu til að halda skrá. Þegar oft er farið yfir svæði gerir það að fara aftur þangað sem enginn var heima okkur kleift að leita rækilegar að hinum verðugu. Hvernig þá?
3 Víða er meira en helmingur íbúanna ekki heima á daginn. Við stækkum því í rauninni það svæði sem tiltækt er þegar við einbeitum okkur meira að þeim stöðum þar sem enginn var heima. Jafnvel þótt sjaldan sé starfað á svæðinu getum við bætt árangur okkar með því að leggja okkur fram við að ná til allra áður en við skrifum hjá okkur að starfað hafi verið yfir svæðið.
4 Yfirleitt er hægt að haga málum þannig að farið sé aftur annan dag þangað sem enginn var heima, helst innan viku. Mörgum finnst betra að fara aftur á öðrum degi og tíma en fyrst var farið. Þú kannt að velja að nota einhverja stund á laugardegi eða sunnudegi til að fara þangað sem enginn var heima í vikunni. Mörgum söfnuðum hefur einnig reynst árangursríkt að fara í slíkar heimsóknir snemma á kvöldin. Meira en helmingur þeirra sem fjarverandi eru á daginn er þá oftast heima.
5 Þú ættir að skrá endurheimsóknir á þín eigin minnisblöð. Ef þú kemst ekki aftur þangað sem enginn var heima ætti skrá þín yfir þá staði, þar sem enginn var heima, að afhendast bróðurnum sem sér um hópinn til að hópurinn, sem næst fer yfir svæðið, geti notað hana.
6 Það getur bæði aukið afköst okkar og gleði að sinna nánar þessum þætti boðunarstarfs okkar. Það getur gefið okkur þá fullnægju sem fylgir því að vita að við séum vandvirk í því að leita uppi og annast sauðumlíka menn. — Esek. 34:11-14.