Spurningakassinn
◼ Hvernig getum við látið svör okkar og athugasemdir á samkomum koma að sem bestu gagni?
Við hlökkum til að safnast saman á vikulegum safnaðarsamkomum. Þar gefst okkur tækifæri til að tjá trú okkar og uppörva aðra með athugasemdum okkar. (Orðskv. 20:15; Heb. 10:23, 24) Við ættum að líta á það sem sérréttindi að mega koma með svör og athugasemdir og leitast við að taka reglulega þátt í dagskrárliðum sem bjóða upp á það. Hvernig getum við gert það svo að sem mest gagn sé að?
Undirbúningur er fyrsta skrefið. Mikilvægt er að lesa efnið fyrirfram og vega það og meta. Reyndu að sjá hver sé andinn í því sem verið er að setja fram. Þó að efnið hafi áður komið til umræðu skaltu gá að hvort þú finnir atriði sem farið er nánar út í eða gefið er meira vægi. Hafðu hugfast heildarstef efnisins. Þegar þú undirbýrð athugasemdir út frá riti sem kannar rækilega vissa biblíubók, eins og bókin Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd! gerir, skaltu reyna að koma auga á hvernig einstakt vers tengist nærliggjandi versum. Við nám í Tilbeiðslubókinni er gott að hafa heiti kaflans í huga og upprifjunarspurningarnar í lok hans. Ef þú fylgir þessum tillögum örvast hugsun þín og einbeitni. Það hjálpar þér að undirbúa góð svör og athugasemdir og hafa ríkulega ánægju af þátttöku þinni.
Bestu athugasemdirnar eru gagnorðar, án málalenginga, settar skýrt fram og byggðar á námsritinu. Fyrsta athugasemdin ætti að svara spurningunni beint og láta önnur atriði eiga sig til að koma megi með viðbótarathugasemdir um þau. Forðastu löng svör sem vaða úr einu í annað, taka óhóflegan tíma og hindra aðra í að komast að. Tjáðu þig með eigin orðum frekar en að lesa svarið orðrétt upp úr námsritinu. Í viðbótarathugasemdum mætti segja eitthvað um það sem tilvísaðir ritningarstaðir fjalla um og hvernig það tengist efninu. Hlustaðu vandlega á það sem aðrir segja til þess að þú getir forðast óþarfar endurtekningar.
Gott er að rétta upp höndina allnokkru sinnum en þó ekki við hverja einustu tölugrein. Við bjóðum börnum og unglingum að taka þátt í að svara á samkomum. Ef þú ert hikandi við að láta í þér heyra gætir þú látið stjórnandann vita fyrirfram við hvaða tölugreinar þú myndir vilja gefa athugasemd og líklega gæti hann gefið þér tækifæri til þess.
Við ættum öll að leitast í einlægni við að hafa eitthvað fram að færa á þeim safnaðarsamkomum sem kalla á þátttöku áheyrenda. Mundu að góður árangur slíkra samkomna er að stórum hluta undir því kominn að við séum fús og fljót til að koma með svör og athugasemdir og að þær séu gagnlegar. — Sálm. 26:12.