Byggjum hvert annað upp með því að svara á samkomum
1 Í Hebreabréfinu 10:24 erum við hvött til að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ Það felur í sér að byggja hvert annað upp með innihaldsríkum svörum á safnaðarsamkomum. Af hverju ættum við að svara? Hvernig getum við gert það? Hverjir njóta góðs af því?
2 Hugsaðu um öll skiptin þegar það var þér til góðs að heyra aðra gefa einföld, skýr svör sem juku skilning þinn og styrktu þig andlega. Þú hefur þau sérréttindi að gera hið sama fyrir þá. Þegar þú tekur þátt í samkomum sýnir þú löngun þína til að hvetja viðstadda og ‚veitir þeim hlutdeild í andlegri náðargjöf.‘ — Rómv. 1:11, 12.
3 Hvernig má gefa góð svör: Hafðu svörin ekki löng og fjallaðu ekki um hverja einustu hugsun í greininni. Það tekst sjaldan að koma svarinu skýrt á framfæri með langdregnum athugasemdum og það getur latt aðra til að tjá sig. Fyrsta svarið ætti að vera stutt og hnitmiðað svar við spurningunni neðanmáls. Þeir sem gefa aukasvör geta síðan bent á hagnýta notkun efnisins eða sýnt fram á hvernig ritningarstaðirnir eiga við. Sjá School Guidebook (Handbók Guðveldisskólans), bls. 90-2.
4 Ef tilhugsunin um að svara veldur þér smákvíða skaltu fyrirfram undirbúa stutt svar og biðja stjórnandann um að leyfa þér að svara úr þeirri grein. Eftir að hafa gert þetta í nokkur skipti verður þátttakan auðveldari. Mundu að bæði Móse og Jeremía efuðust um hæfni sína til að tala fyrir almenningi. (2. Mós. 4:10; Jer. 1:6, NW Ref. Bi. neðanm.) En Jehóva hjálpaði þeim að tala fyrir sína hönd og hann mun einnig hjálpa þér.
5 Hverjir njóta góðs af svörum þínum? Þú sjálfur af því að svör þín festa sannleikann í huga þinn og hjarta og auðvelda þér að muna efnið seinna. Aðrir njóta einnig góðs af því að heyra uppbyggjandi svör þín. Það er okkur til hvatningar þegar allir, hvort sem þeir eru reyndir, ungir, feimnir eða nýir, leggja sig fram um að tjá trú sína á safnaðarsamkomum.
6 Við komumst örugglega að raun um að „fagurt er orð í tíma talað“ þegar það er notað til að uppbyggja aðra á safnaðarsamkomum! — Orðskv. 15:23.