Hefur þú reynt að fara í boðunarstarfið á kvöldin?
1 Öll höfum við gleði af því að ná góðum árangri í starfi okkar. Á hinn bóginn getur starf orðið leiðinlegt og ófullnægjandi þegar við sjáum engan jákvæðan árangur af því. Þýðingarmikil vinna veitir mönnum umbun og er þeim til blessunar. (Samanber Orðskviðina 3:10-13.) Við getum beitt þessari frumreglu í prédikunarstarfi okkar. Við vitum af reynslunni að þegar við förum hús úr húsi og náum að ræða við fólk um Biblíuna, snúum við heim andlega endurnærð. Okkur finnst við hafa virkilega komið einhverju í verk.
2 Á sumum svæðum er orðið mjög erfitt að finna fólk heima á vissum tímum dags. Skýrslur herma að á mörgum svæðum sé enginn heima snemma dags á meira en helmingi heimilanna. Margir söfnuðir hafa tekið á þessum vanda með því að skipuleggja boðunarstarf á kvöldin og það hefur reynst vel. Boðberar segjast finna mun fleiri heima þegar þeir banka upp á hjá fólki þegar degi er tekið að halla, og að almennt sé fólk þá afslappaðra og fúsara að hlusta á Guðsríkisboðskapinn. Hefur þú reynt að fara í starfið að kvöldlagi á starfssvæði þínu? — Samanber Markús 1:32-34.
3 Öldungar skipuleggja kvöldstarf: Á sumum svæðum hefur verið vel mætt á samkomur fyrir boðunarstarfið síðla dags eða snemma kvölds. Taka mætti mið af ungum boðberum sem koma heim úr skóla síðdegis og fullorðnu fólki sem er laust úr vinnu á svipuðum tíma. Sumum boðberum, sem geta ekki farið í boðunarstarfið um helgar, reynist kvöldstarf á virkum dögum hagnýt leið til að fara reglulega út í prédikunarstarfið.
4 Það er ýmislegt hægt að gera í boðunarstarfinu á kvöldin. Hægt er að starfa hús úr húsi með blöðin eða nota tilboð mánaðarins. Kvöldin eru góður tími til að heimsækja þá sem voru ekki heima þegar boðberar voru á ferðinni á öðrum tíma dags eða um helgar. Einnig gæti verið fyrir hendi gott götustarfssvæði þar sem hægt væri að hitta fólk sem er á leið heim úr vinnu. Mörgum reynast kvöldin besti tíminn til að fara í endurheimsóknir til þeirra sem sýndu áhuga.
5 Vertu varkár og nærgætinn: Á vissum svæðum getur verið hættulegt að vera á ferli í ljósaskiptunum eða þegar dimmt er orðið. Skynsamlegt væri að vera á ferli tveir eða fleiri saman á velupplýstum götum og heimsækja heimili eða fjölbýlishús einungis þegar einhver trygging er fyrir því að öllu sé óhætt. Þegar þú knýrð dyra skaltu standa þar sem þú sést vel og gera skýra grein fyrir erindinu. Vertu nærgætinn. Verðir þú var við að þú hafir komið á óheppilegum tíma, til dæmis þegar fjölskyldan er að borða, skaltu bjóðast til að koma seinna. Yfirleitt er best að vera aðeins á ferðinni snemma kvölds frekar en að koma seint þegar húsráðendur eru ef til vill um það bil að ganga til náða.
6 Björt sumarkvöld henta vel til kvöldstarfs. Þegar við ‚þjónum Guði dag og nótt‘ mun Jehóva vissulega blessa viðleitni okkar. — Opinb. 7:15.