Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 7.98 bls. 3-6
  • Brautryðjandastarfið — er það fyrir þig?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Brautryðjandastarfið — er það fyrir þig?
  • Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Svipað efni
  • Blessun brautryðjandastarfsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Getur þú gert meira til að heiðra Jehóva?
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
  • Við styrkjum sambandið við Guð með því að vera brautryðjendur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • „Þú yrðir ábyggilega góður brautryðjandi“
    Ríkisþjónusta okkar – 2010
Ríkisþjónusta okkar – 1998
km 7.98 bls. 3-6

Brautryðjandastarfið — er það fyrir þig?

1 „Ég get ekki hugsað mér að gera nokkuð annað. Ég get að minnsta kosti ekki ímyndað mér að nokkuð annað veiti jafnmikla gleði.“ Hver sagði þetta? Einn af hundruðum þúsunda votta Jehóva sem hafa gert þjónustuna í fullu starfi að gleðilegu ævistarfi. Hefur þú íhugað í bænarhug hvort brautryðjandastarfið sé fyrir þig? Við höfum vígt Jehóva líf okkar skilyrðislaust og ættum vissulega að íhuga hvort við getum átt meiri þátt í að útbreiða fagnaðarerindið um Guðsríki. Með það í huga skaltu íhuga nokkrar spurningar sem margir spyrja um brautryðjandastarfið.

SPURNING 1: „Sumir segja að brautryðjandastarfið sé ekki fyrir alla. Hvernig veit ég hvort það sé fyrir mig?“

2 Svarið ræðst af aðstæðum þínum og biblíulegum skyldum. Heilsa og núverandi aðstæður margra leyfa þeim ekki að verja 90 tímum á mánuði til boðunarstarfsins. Tökum sem dæmi hinar mörgu trúföstu systur sem eru kristnar eiginkonur og mæður. Þær taka þátt í boðunarstarfinu eins oft og þær geta að því marki sem aðstæður þeirra leyfa. Þegar tækifæri gefst gerast þær aðstoðarbrautryðjendur í mánuð eða meira ár hvert og uppskera þá gleði sem fylgir því að auka boðunarstarf sitt. (Gal. 6:9) Enda þótt aðstæður þeirra leyfi þeim ekki að þjóna núna sem reglulegir brautryðjendur, efla þær brautryðjandaandann og eru söfnuðinum blessun sem kostgæfnir boðberar fagnaðarerindisins.

3 Á hinn bóginn hafa margir, sem hafa tiltölulega fáar skyldur, skapað sér svigrúm til brautryðjandastarfs með því að hafa rétta forgangsröð. Hvað um þig? Ertu unglingur og búinn að ljúka veraldlegu skólanámi? Ertu gift kona og getur maðurinn þinn séð sómasamlega fyrir fjölskyldunni? Ertu giftur með uppkomin börn? Ertu komin á eftirlaun? Að gerast brautryðjandi eða ekki er ákvörðun sem sérhver verður að taka sjálfur. Spurningin er: Getur þú skapað þér svigrúm til brautryðjandastarfs?

4 Satan notar heimskerfi sitt til að glepja okkur og kaffæra í eigingjörnu líferni. Ef við erum ákveðin í að vera ekki hluti af heiminum hjálpar Jehóva okkur að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir og seilast eftir og þiggja með þökkum öll þjónustusérréttindi sem okkur standa til boða. Ef þú getur hagrætt aðstæðum þínum til að þjóna sem brautryðjandi, hvers vegna ekki að gera það?

SPURNING 2: „Hvernig get ég verið viss um að ég geti séð fyrir mér í þjónustunni í fullu starfi?“

5 Víða um lönd þarf að vinna lengri vinnudag en áður til að afla þess sem menn telja lífsnauðsynjar. Engu að síður hafa margir verið brautryðjendur í áratugi og Jehóva heldur áfram að sjá fyrir þeim. Trú og fórnfýsi er nauðsynleg til að verða farsæll brautryðjandi. (Matt. 17:20) Við höfum loforðið í Sálmi 34:11 að ‚þeir er leiti Jehóva fari einskis góðs á mis.‘ Sá sem sækir um brautryðjandastarf ætti að gera það með fullri vissu um að Jehóva haldi sér uppi. Það er einmitt það sem hann gerir fyrir trúfasta brautryðjendur hvarvetna! (Sálm. 37:25) En í samræmi við meginreglurnar í 2. Þessaloníkubréfi 3:8, 10 og 1. Tímóteusarbréfi 5:8 ætlast brautryðjendur ekki til þess að aðrir styðji sig fjárhagslega.

6 Sérhver sem veltir því fyrir sér að gerast brautryðjandi ætti að gera það sem Jesús sagði: ‚Setjast fyrst við og reikna kostnaðinn.‘ (Lúk. 14:28) Það er heilbrigð skynsemi. Talaðu við þá sem hafa verið farsælir brautryðjendur í mörg ár. Spyrðu hvernig Jehóva hafi séð fyrir þeim. Farandhirðirinn er reyndur brautryðjandi og meira en fús að leiðbeina þér hvernig hægt er að vera farsæll brautryðjandi.

7 Maður finnur aldrei fyrir sannleiksgildi loforðs Jesú í Matteusi 6:33 fyrr en maður leggur sig í hendur Jehóva. Trúföst brautryðjandasystir sagði: „Þegar við stöllurnar komum á nýtt svæði sem brautryðjendur áttum við aðeins dálítið grænmeti og smá smjörlíki og vorum peningalausar. Við borðuðum það allt um kvöldið og sögðum: ‚Nú eigum við ekkert fyrir morgundaginn.‘ Við ræddum málið við Jehóva í bæn og fórum að sofa. Snemma næsta morgun kom vottur í heimsókn, kynnti sig og sagði: ‚Ég hef beðið Jehóva um að senda okkur brautryðjendur. Nú get ég verið með ykkur næstum allan daginn en þar sem ég bý upp í sveit þarf ég að borða hádegismat með ykkur. Þess vegna kom ég með þennan mat fyrir okkur allar.‘ Þetta var heilmikið af nautakjöti og grænmeti.“ Það er engin furða að Jesús skuli hafa fullvissað okkur um að við gætum hætt ‚að vera áhyggjufull um líf okkar‘! Síðan bætti hann við: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ — Matt. 6:25, 27.

8 Heimurinn í kringum okkur sýnir æ meiri efnishyggju. Það er þrýst sífellt fastar á okkur að fylgja honum. En ef við kunnum auðmjúklega að meta þjónustuna í fullu starfi gerum við okkur ánægð með að hafa minna úr að spila. (1. Tím. 6:8) Brautryðjendur, sem halda lífi sínu einföldu og skipulögðu, hafa meiri tíma fyrir starfið og öðlast meiri gleði og andlegan styrk af því að kenna öðrum sannleikann. Enda þótt þeir séu ekki að reyna að lifa meinlætalífi, hefur skynsamleg meðferð peninga gert þeim fært að njóta blessunar brautryðjandastarfsins.

9 Ef þú finnur greinilega að við lifum á hinum síðustu dögum og að tími þessa vonda heims er að renna út knýr það þig til að færa þær fórnir sem þarf til að prédika fagnaðarerindið við hvert tækifæri. Með því að skoða aðstæður þínar frá nýjum sjónarhóli og leggja málið í hendur Jehóva kemstu kannski að raun um að þú getur þjónað honum í fullu starfi. Jafnvel þótt þú verðir að fórna vissum efnislegum löngunum til að vera brautryðjandi muntu njóta ríkulegrar blessunar Jehóva. — Sálm. 145:16

SPURNING 3: „Af hverju ætti ég, sem er unglingur, að líta á brautryðjandastarfið sem hugsanlegt ævistarf?“

10 Á síðustu árum skólagöngunnar er eðlilegt að þú hugsir um framtíðina. Þú þráir örugga og hamingjuríka framtíð. Námsráðgjafar gætu hvatt þig til að leggja út í margra ára háskólanám til að fá vellaunað starf. Vel þjálfuð kristin samviska þín segir þér að þú eigir að undirbúa þig fyrir að þjóna Jehóva eins og þú getur best. (Préd. 12:1) Þú gætir einnig hugsað þér að giftast seinna meir og eignast börn. Hvað ættirðu að gera?

11 Þær ákvarðanir, sem þú tekur á þessum tíma ævinnar, geta mótað alla framtíð þína. Ef þú ert þegar vígður, skírður vottur Jehóva hefurðu gefið sjálfan þig heilshugar að þjónustu hans. (Hebr. 10:7) Reyndu að gerast aðstoðarbrautryðjandi í einn mánuð eða fleiri við fyrsta tækifæri. Þá færðu að smakka þá gleði og ábyrgð sem fylgir reglulegu brautryðjandastarfi og framtíðaráform þín munu vafalaust skýrast. Í stað þess að fylla tómarúmið, sem myndast eftir að þú hættir í skóla, með fullri veraldlegri vinnu, hvers vegna ekki að hefja reglulegt brautryðjandastarf? Sumir sem biðu með að gerast brautryðjendur þar til síðar sáu eftir að hafa ekki byrjað fyrr.

12 Sem ungur maður eða kona skaltu nota tækifærið til að vera einhleypur og njóta þeirrar blessunar sem fylgir því í fullu prédikunarstarfi. Ef þig skyldi langa til að giftast einhvern tíma síðar er ekki hægt að leggja betri grunn að hjónabandi en að þjóna fyrst sem reglulegur brautryðjandi. Er þú styrkist andlega og þroskast gætir þú og maki þinn kosið að gera brautryðjandastarfið að ævistarfi ykkar. Sum hjón, sem hafa verið brautryðjendur saman, hafa tekið að sér farandhirðisstarf eða trúboðsstarf. Það er ekki til ánægjulegri lífsstefna!

13 Án tillits til hve lengi þú heldur áfram í brautryðjandastarfinu hefurðu fullkomnað menntun þína og fengið ómetanlega þjálfun sem ekkert annað starf á jörðinni býður upp á. Brautryðjandastarfið kennir aga, persónulega skipulagningu, samskipti við fólk, traust á Jehóva og þroskar þolinmæði og góðvild — eiginleika sem búa þig undir að taka á þig meiri ábyrgð.

14 Lífið hefur aldrei verið óöruggara fyrir mannkynið. Fátt er varanlegt nema það sem Jehóva hefur lofað. Þú átt framtíðina fyrir þér og nú er besti tíminn til að hugleiða alvarlega hvernig þú viljir nota líf þitt á komandi árum. Veltu vel fyrir þér sérréttindum brautryðjandastarfsins. Þú sérð aldrei eftir því að hafa gert brautryðjandastarfið að ævistarfi.

SPURNING 4: „Er það ekki stöðugt kapphlaup að ná tímanum? Hvað ef ég lendi í tímaþröng?“

15 Þegar þú fyllir út umsóknina um reglulegt brautryðjandastarf þarft þú að svara þessari spurningu: „Hefur þú hagað einkamálum þínum þannig að þú getir reiknað með að geta starfað 1000 klukkustundir á ári eins og krafist er?“ Til að ná því þarftu að starfa að meðaltali um þrjá tíma á dag. Það krefst vitanlega góðrar stundaskrár og sjálfsaga. Flestir brautryðjendur gera sér raunhæfa og nothæfa áætlun innan nokkurra mánaða.

16 En Prédikarinn 9:11 segir með sanni: ‚Tími og tilviljun mætir okkur öllum.‘ Alvarleg veikindi eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður geta valdið því að brautryðjandi verði á eftir tímaáætluninni. Ef erfiðleikarnir standa ekki lengi yfir og stutt er liðið á þjónustuárið, nægir kannski að auka hraðann svolítið til að vinna upp tímann. En hvað ef alvarlegt vandamál skýtur upp kollinum þegar aðeins nokkrir mánuðir eru eftir af þjónustuárinu og brautryðjandinn getur ekki unnið tímann upp?

17 Ef þú ert veikur í fáeina mánuði eða ef einhverjar aðrar ástæður, sem þú hefur ekki stjórn á, verða þess valdandi að þú getur ekki náð tímanum, geturðu útskýrt vandamálið fyrir einhverjum í starfsnefndinni. Ef þessum öldungum finnst ráðlegt að leyfa þér að halda áfram í brautryðjandastarfinu án þess að reyna að vinna upp tapaðan tíma er það þeirra að ákveða. Ritarinn merkir þá á boðberakortið að þú þurfir ekki að vinna upp tapaðan tíma. Þetta er ekki fjarvistarleyfi heldur sérstök tillitsemi vegna aðstæðna. — Sjá grein 18 í viðauka Ríkisþjónustu okkar í ágúst 1986 á ensku.

18 Reyndir brautryðjendur safna sér tímaforða snemma á þjónustuárinu. Brautryðjandastarfið gengur fyrir, þannig að stundum þurfa þeir að nota minni tíma en áður til að sinna lítilvægari hugðarefnum. Ef brautryðjandi verður á eftir áætlun vegna lélegrar stundaskrár eða skorts á sjálfsaga í að fylgja henni, ætti honum að finnast það vera ábyrgð sín að vinna tímann upp og ekki vænta sérstakrar tillitsemi.

19 Það kemur fyrir að óhjákvæmilegar breytingar verða á aðstæðum brautryðjanda. Hann uppgötvar kannski að hann geti ekki náð tímanum um langt skeið vegna langvinnra veikinda eða aukinnar fjölskylduábyrgðar og svo framvegis. Í slíku tilfelli væri viturlegast að snúa aftur í boðberafylkinguna og taka þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu hvenær sem hægt er. Það er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að vera á brautryðjandaskrá ef aðstæður leyfa ekki lengur að tímatakmarkið náist.

20 Við vonum að sú ráðstöfun að tekið sé sérstakt tillit til þeirra sem hæfir eru hvetji fleiri til að gerast brautryðjendur án þess að hafa óþarfar áhyggjur. Það ætti einnig að hvetja þá sem eru þegar boðberar í fullu starfi að halda því áfram. Við viljum að brautryðjendum gangi vel í starfi sínu.

SPURNING 5: „Ég vil áorka einhverju og gera það með gleði. Mun brautryðjandastarfið gera mig ánægðan?“

21 Sönn hamingja er að mestu leyti háð því að við eigum náið einkasamband við Jehóva og þeirri sannfæringu að við þjónum honum trúfastlega. Jesús þoldi að vera negldur á kvalastaur „vegna gleði þeirrar, er beið hans.“ (Hebr. 12:2) Það veitti honum hamingju að gera vilja Guðs. (Sálm. 40:9) Í þessu heimskerfi getum við öðlast sanna hamingju ef flestar athafnir lífs okkar tengjast tilbeiðslunni á Jehóva. Andlegar athafnir gefa okkur tilgang í lífinu af því að innst inni vitum við að við erum að gera það sem er rétt. Hamingja hlýst af því að gefa og við vitum ekki um betri leið til að gefa af okkur en að kenna öðrum hvernig hægt er að öðlast eilíft líf í nýjum heimi Guðs. — Post. 20:35.

22 Brautryðjandinn, sem í var vitnað í fyrstu greininni, útskýrði það þannig: „Er hægt að hugsa sér meiri gleði en þá að sjá manneskju, sem maður hefur haft í biblíunámi, verða boðberi Jehóva? Það er hrífandi og trústyrkjandi að sjá hvernig orð Guðs getur hvatt fólk til að breyta lífi sínu svo að það þóknist Jehóva.“ (Sjá Varðturninn 1. desember 1997 bls. 13-18.) Hvað veitir þér hamingju? Ef stöðug og verðug viðleitni er þér meira virði en tímabundin ánægja, sem heimurinn býður upp á, mun brautryðjandastarfið veita þér þá yndislegu tilfinningu að þú hafir áorkað einhverju og það gerir þig sannarlega hamingjusaman.

SPURNING 6: „Er ekki mitt að velja hvort ég gerist brautryðjandi fyrst þess er ekki krafist til að hljóta eilíft líf?“

23 Rétt er það að þú verður að ákveða sjálfur hvort þú gerist brautryðjandi. Jehóva einn getur dæmt persónulegar aðstæður þínar í lífinu. (Rómv. 14:4) Hann væntir þess réttilega að þú þjónir sér af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Mark. 12:30; Gal. 6:4, 5) Hann elskar glaðan gjafara sem þjónar honum glaður en ekki með ólund eða nauðung. (2. Kor. 9:7; Kól. 3:23) Tilefnið til að þjóna í fullu starfi verður að vera það að þú elskir Jehóva og fólkið á svæðinu. (Matt. 9:36-38; Mark. 12:30, 31) Ef þér er þannig innanbrjósts verðskuldar brautryðjandastarfið alvarlega íhugun þína.

24 Við vonum að það sem hér er upp talið hjálpi þér að vega möguleika þína á að gerast brautryðjandi. Getur þú hagrætt aðstæðum þínum til að gerast reglulegur brautryðjandi? Hér að neðan er dagatal sem kallast „Vikuleg brautryðjandastarfsáætlun mín.“ Athugaðu hvort þú getir fyllt út raunhæfa stundaskrá sem gerir þér kleift að starfa að meðaltali 23 tíma í hverri viku. Settu síðan allt trúartraust þitt á Jehóva. Með hans hjálp getur þér tekist þetta! Hann hefur lofað: „Ég . . . úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ — Mal. 3:10.

25 Við spyrjum því: „Brautryðjandastarfið — er það fyrir þig?“ Ef þú getur svarað því játandi skaltu ákveða tíma til að hefja brautryðjandastarf bráðlega og þú mátt treysta að Jehóva blessar þig og veitir þér gleði og lífshamingju!

(Stundaskrá á blaðsíðu 6)

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Vikuleg brautryðjandastarfsáætlun mín

MÁNUDAGUR Morgunn

ÞRIÐJUDAGUR Morgunn

MIÐVIKUDAGUR Morgunn

FIMMTUDAGUR Morgunn

FÖSTUDAGUR Morgunn

LAUGARDAGUR Morgunn

SUNNUDAGUR Morgunn

MÁNUDAGUR Síðdegi

ÞRIÐJUDAGUR Síðdegi

MIÐVIKUDAGUR Síðdegi

FIMMTUDAGUR Síðdegi

FÖSTUDAGUR Síðdegi

LAUGARDAGUR Síðdegi

SUNNUDAGUR Síðdegi

MÁNUDAGUR Kvöld

ÞRIÐJUDAGUR Kvöld

MIÐVIKUDAGUR Kvöld

FIMMTUDAGUR Kvöld

FÖSTUDAGUR Kvöld

LAUGARDAGUR Kvöld

SUNNUDAGUR Kvöld

Notaðu blýant til að skrifa áætlun þína fyrir hvern vikudag.

Gerðu ráð fyrir um það bil 23 starfstímum í hverri viku.

Alls áætlaðir vikulegir tímar ____________________

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila