Getur þú gert meira til að heiðra Jehóva?
1 Þetta er mikilvæg spurning sem við ættum öll að íhuga. Sem trúfastir eftirbreytendur meistara okkar, Jesú Krists, heiðrum við Jehóva nú á tímum með því að kunngera nafn hans opinberlega. Þetta er sú ábyrgð sem við verðum að takast á herðar ef við eigum að öðlast velþóknun Guðs. (Mark. 13:10; Lúk. 4:18; Post. 4:20; Hebr. 13:15) Hversu ólýsanleg sérréttindi — já heiður — það er að færa þessi fagnaðartíðindi þeim sem eru eftir af hinum tvístruðu „sauðum“ og enn þá gætu orðið hluti af alheimssauðahjörð Jehóva. — Jóh. 10:16.
2 Getur þú og börn þín gert meira til að heiðra Jehóva með því að verða enn virkari í þjónustunni? Í síauknum mæli um heim allan taka bræður þínir og systur upp brautryðjandastarfið. Í aprílmánuði 1992 starfaði 51 á Íslandi sem sér-, reglulegur eða aðstoðarbrautryðjandi. Hefur þú sjálfur hugsað alvarlega um það að gerast brautryðjandi? Hvetur þú börnin þín til að keppa að því að gera þjónustuna við Guðsríki að aðalframtíðarstarfi sínu?
3 Væri ekki ráð að kryfja til mergjar persónulegar tilfinningar sínar gagnvart brautryðjandastarfinu? Ert þú fljótur til, í hvert sinn sem minnst er á þetta málefni, að afgreiða málið með því að kringumstæður þínar einfaldlega leyfi þér ekki að þjóna sem brautryðjandi? Það er að vísu rétt að brautryðjandastarfið er ekki gerlegt fyrir alla. Biblíuleg ábyrgð og aðrar takmarkanir hindra marga í því að þjóna í fullu starfi. (1. Tím. 5:8) En hefur þú hugleitt þetta mál nýlega og rætt um það við Jehóva í bæn? Hefur þú rætt málið við fjölskylduna til að finna út hvort að minnsta kosti einn af fjölskyldumeðlimunum gæti verið brautryðjandi? Varðturninn frá 15. nóvember 1982 kom með þessa athugasemd á blaðsíðu 23 sem ýtir við hugsun okkar: „Í rauninni ætti sérhver kristinn þjónn orðsins að íhuga vandlega hvort hann geti verið brautryðjandi eða ekki og ræða það mál við Guð í bæn. Suður-afrísk hjón, sem höfðu verið brautryðjendur í fimmtán ár, sögðu: ‚Hvers vegna erum við brautryðjendur? Gætum við nokkru sinni réttlætt það fyrir Jehóva ef við værum það ekki?‘ Margir sem eru ekki brautryðjendur gætu gjarnan spurt samsvarandi spurningar: ‚Get ég í raun og veru réttlætt fyrir Jehóva þá staðreynd að ég er ekki brautryðjandi?‘“
4 Önnur grein í Varðturninum um sama efni kom með þessa hnitmiðuðu athugasemd: „Sérhver okkar ætti að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér. Segir þú: ‚Andinn er fús en holdið er veikt‘? En er andinn í raun og veru fús? Við skulum forðast að nota veikleika holdsins sem afsökun fyrir ófýsi andans.“ — wE78 15.8. bls. 23.
5 Foreldrar sem vilja að börnum þeirra vegni vel: Orðskviðirnir 15:20 fullvissa okkur: „Vitur sonur gleður föður sinn.“ Guðhræddir foreldrar gleðjast tvímælalaust þegar synir þeirra og dætur leggja sig eftir því að lifa lífi sem er helgað þjónustunni við Jehóva. Börn þín munu hins vegar ekki sjálfkrafa velja hina viturlegu lífsstefnu. Heimurinn togar í þau af miklu afli. Foreldrar, það eru ykkar eigin lífsgildi sem að stórum hluta móta lífsgildi barna ykkar. Ef þið talið alltaf jákvætt um kosti þess að vera í þjónustunni í fullu starfi, ef þið hvetjið ungmennin í fjölskyldunni til að leita félagsskapar ósvikinna brautryðjenda sem helga sig starfi sínu, ef þið eruð í sannleika sannfærð um að þjónusta í fullu starfi sé heiðvirðasta lífsstarfið sem börnin ykkar gætu nokkru sinni snúið sér að, þá mun þetta jákvæða viðhorf vafalaust hafa mikil áhrif á börnin ykkar. Hjálpið þeim að gera sér ljóst gildi þess að ávinna sér gott nafn hjá Jehóva frekar en hjá mönnum.
6 Þið ungmenni, Orðskviðirnir 22:1 draga skýrt fram þá kosti sem þið þurfið að velja um: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.“ Hvers konar mannorðs munt þú afla þér? Hugsaðu um þá karla og konur sem við lesum um í Biblíunni og áunnu sér gott mannorð hjá Guði vegna þess að þau gáfu sig óskipt að þjónustunni við hann. Í þeim hópi eru hinn elskaði læknir Lúkas og Enok sem gekk með hinum sanna Guði. Samúel fékk bestu menntun sem möguleg er þegar hann hóf þjónustu sína í tjaldbúð Jehóva mjög ungur að árum. Heldur þú að þessir trúföstu þjónar hafi nokkru sinni séð eftir að hafa valið þennan kost? Hvers vegna hefðu þeir átt að gera það? Þeir voru allir hamingjusamir, afkastamiklir og lifðu áhugaverðu og spennandi lífi. — Sálm. 110:3; 148:12, 13; Orðskv. 20:29a; 1. Tím. 4:8b.
7 Þegar börnunum verður mikið úr lífi sínu vekur það stolt hjá foreldrunum. Það sem þeir hafa lagt fram til uppeldis, ögunar og menntunar þessarar ‚gjafar frá Jehóva‘ er endurgoldið margfalt. (Sálm. 127:3) Hvað getur gert nokkra foreldra stoltari en sonur eða dóttir sem gerir allt sem hann eða hún getur til að heiðra Jehóva? Mörg ungmenni nú á tímum feta í fótspor Lúkasar, Enoks og Samúels eins og sést af bréfi einu: „Ég er 16 ára. Ég byrjaði sem reglulegur brautryðjandi . . . níu mánuðum eftir að ég var skírður og ávallt síðan hef ég fengið mikla blessun frá Jehóva. . . . Brautryðjandastarfið hjálpar manni líka í skólanum. Hér áður stríddu bekkjarfélagar mínir mér fyrir að vera vottur. En núna, þar sem ég verð að sinna einkanámi miklu meira, er ég fær um að ‚svara þeim orði sem smána mig.‘“
8 Menntun til að gera mann færan til þjónustunnar: Þegar hér er komið gætum við litið á spurninguna um veraldlega menntun. Það er mál sem er alveg sérstaklega nauðsynlegt að skoða öfgalaust. Í Varðturninum 1. apríl 1993 (wE92 1.11.) birtist greinin „Menntun sem hefur tilgang.“ Undir millifyrirsögninni „Nægjanleg menntun,“ er þessi athugasemd: „Kristnir menn ættu að geta séð fyrir sér, jafnvel þótt þeir séu þjónar orðsins í fullu starfi. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12) . . . Hve mikla menntun þarf kristið ungmenni að fá til að virða þessar meginreglur Biblíunnar og uppfylla kristnar skyldur sínar? . . . Hvað mætti kalla ‚viðunandi‘ eða nægjanlegt [sem tekjur] . . . handa þeim sem vilja vera boðberar fagnaðarerindisins í fullu starfi? Slíkir einstaklingar þurfa yfirleitt að vinna hluta úr degi til að komast hjá að vera bræðrum sínum eða fjölskyldum ‚til þyngsla.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:9.“
9 Ef sá sem hefur sett sér það markmið að verða brautryðjandi telur viðbótarmenntun nauðsynlega til að hjálpa honum að stunda þjónustu í fullu starfi þá mælir Varðturninn 1. apríl 1993 með eftirfarandi: „Ráðlegt [væri] fyrir ungan vott að búa hjá foreldrum sínum meðan á því stendur, sé þess nokkur kostur, sem gerði honum kleift að viðhalda kristnum námsvenjum, samkomusókn og prédikunarstarfi.“
10 Frá Afríku kemur reynslufrásögn 22 ára ungmennis sem varð að fara í iðnskóla þó að hjarta hans væri í brautryðjandastarfinu. Á meðan hann var í iðnskólanum gerðist hann aðstoðarbrautryðjandi. Skólafélagar hans gerðu grín að honum og sögðu að hann myndi örugglega falla á prófunum. Svarið, sem hann gaf þeim, var alltaf: „Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis.“ Hann beitti sig sjálfsaga og fór mjög snemma á fætur á hverjum morgni og bjó sig undir skólann í tvær klukkustundir og tók síðan þátt í boðunarstarfinu síðdegis þegar skóladeginum var lokið. Allur skólinn varð steinhissa þegar þessi ungi maður varð þriðji efsti á sérstöku prófi til að velja þrjá bestu nemendurna til að hljóta sérstök styrktarverðlaun. Nemandinn, sem varð annar á prófinu, var áhugasamur einstaklingur sem brautryðjandinn okkar nam Biblíuna með í skólanum. Efstur á prófinu var annar kostgæfur ungur vottur í skólanum.
11 Öldungar sinna sínum þætti: Safnaðaröldungar, sem eru hreyknir af því starfi sem brautryðjendurnir vinna, eru þessum kostgæfu þjónum orðsins til mikillar uppörvunar. Öldungunum er það ánægja að veita slíka uppörvun af því að þeir vita að harðduglegir og afkastamiklir brautryðjendur eru hverjum söfnuði til blessunar. Eftir að hafa starfað sem reglulegir brautryðjendur í eitt ár eða þar um bil hafa slíkir boðberar aðgang að viðbótarþjálfun í Þjónustuskóla brautryðjenda. Það námskeið hefur reynst vera ómetanlegt tæki til að gera brautryðjendur áhrifaríkari og skilvirkari. Þó að brautryðjendurnir séu í fylkingarbrjósti í starfinu hafa þeir einnig þörf á kærleiksríkri uppörvun og öldungarnir ættu að vera vakandi fyrir að mæta þeirri þörf. — 1. Pét. 5:1-3.
12 Hvernig geta öldungarnir hvatt til brautryðjandastarfsins? Góð byrjun væri að leggja af og til mat á það hverjum gæti verið kleift að sækjast eftir þessum sérréttindum. Öldungar gætu komið að máli við einstaklinga sem virðast vera í góðri aðstöðu til að vera brautryðjendur, þar með taldir margir sem eru aðstoðarbrautryðjendur reglulega, fólk á eftirlaunum, húsmæður og nemendur. Þó að enginn skyldi vera látinn fá það á tilfinninguna að honum beri að sækja um brautryðjandastarfið gætu þeir sem hafa löngun til þess en hafa verið hikandi gert sér ljóst, fái þeir lítilsháttar raunhæfa hvatningu, að þetta starf sé þeim innan seilingar.
13 Þegar öldungarnir uppörva þá sem vilja sækja um ættu þeir að hafa hugfast að það er ekki nauðsynlegt að umsækjandinn sé aðstoðarbrautryðjandi í marga mánuði áður en hann getur orðið reglulegur brautryðjandi. (kmE 8.86. viðauki gr. 24-26) Vitaskuld munu öldungarnir vilja vera sæmilega vissir um að hann sé í aðstöðu til að ná tímatakmarkinu.
14 Þegar þjónustunefnd safnaðarins hefur farið yfir umsóknina og ritarinn fullvissað sig um að öllum spurningunum hafi verið svarað skyldi hún send strax til Félagsins.
15 Ritarinn ætti að halda öldungunum upplýstum um sérhver vandamál sem brautryðjendurnir kunna að eiga við að glíma. Þetta er einkum mikilvægt í söfnuðum þar sem eru margir brautryðjendur. Auk þeirrar athugunar á starfsemi brautryðjendanna sem fram fer í lok þjónustuársins, eins og beðið er um á greiningarskýrslu um safnaðarstarfið, (S-10), ætti ritarinn að bjóða starfshirðinum til fundar við sig snemma í marsmánuði til að aðgæta hverjir kunna að vera að dragast aftur úr í því að ná tímatakmarkinu og þarfnast persónulegrar athygli. (Sjá Ríkisþjónustu okkar fyrir febrúar 1993, tilkynningar.) Ef ekki er látið dragast að veita brautryðjandanum aðstoð kann hann að geta lokið þjónustuárinu á farsælan hátt.
16 Stór hluti nýrra brautryðjenda er ungur að árum og tiltölulega nýr í sannleikanum. Fúsleiksandi þeirra er okkur svo sannarlega fagnaðarefni. En þessir nýju þurfa enn á þjálfun að halda til að þroska með sér leikni í starfinu hús úr húsi, til að fara í áhrifaríkar endurheimsóknir og til að kenna í biblíunámum. Ef hinir nýju fá ekki þessa þjálfun getur kjarkur þeirra dvínað eftir um það bil eitt ár og svo farið að þeir hætti brautryðjandastarfinu vegna þess að þeir ná ekki góðum árangri í boðunarstarfinu. Árvökulir öldungar kunna að geta komið auga á minniháttar vandamál eða að brautryðjandinn sé ekki jafnvirkur og fyrr. Sé málinu strax gefinn gaumur og brautryðjandanum hjálpað með það sem amar að, kann hann að geta notið margra ára í frjósamri þjónustu.
17 Getur þú fiskað á fjarlægum miðum? Sumir lærisveina Jesú voru fiskimenn. Stundum, eftir veiðar í heila nótt, voru net þeirra enn þá tóm. (Jóh. 21:3) Í sumum löndum og landsvæðum þar sem ‚mannaveiðar‘ hafa farið fram um áraraðir kunna sumir brautryðjendur að draga þá ályktun að það séu fáir „fiskar“ eftir á „miðum“ þeirra safnaðar. (Matt. 4:19) Vekur það ekki aftur á móti hrifningu okkar þegar við lesum frásagnir frá öðrum löndum þar sem boðberar og brautryðjendur stjórna mörgum biblíunámum? Hún er augljós gleðin sem brautryðjendur og trúboðar í þessum löndum njóta. (wE92 1.9. bls. 20 gr. 15) Duglegir brautryðjendur, sem búa í slíkum löndum eða svæðum og gætu verið í aðstöðu til að flytja til landa þar sem þörfin er mikil, gætu tekið málið upp við deildarskrifstofuna í sínu heimalandi áður en þeir aðhafast nokkuð frekar í málinu.
18 Í upphafi kunna sumir að hafa byrjað í brautryðjandastarfinu af því að þeir vissu að það var rétt að gera það en voru ekki vissir um hvort þeim myndi takast að halda því áfram. Þegar þeir sóttu um bjuggu ef til vill með þeim ýmsar efasemdir. Fyrst í stað kann árangur þeirra úti á akrinum að hafa verið harla lítill. Með tíð og tíma óx þó leikni þeirra og í ljós kom að Jehóva blessaði starf þeirra. Þar af leiðandi jókst bæði gleði þeirra og sjálfstraust. Brautryðjandastarfið hefur jafnvel reynst sumum stökkpallur út í Betelþjónustu, nám í Gíleað og trúboðsstarf, Þjónustuþjálfunarskólann og jafnvel starf sem farandumsjónarmenn.
19 Á Íslandi er þörfin á brautryðjendum mjög mikil. Ekki er því líklegt að íslenskum brautryðjendum verði boðið til Gíleaðskólans, sem býr brautryðjendur undir að starfa á erlendum akri, eða boðið að fara beint til annarra landa þar sem þörfin er meiri. Verkefnin hér eru næg og starf á sumum landsvæðum getur kallað á útsjónarsemi og nýjan lífsstíl en því fylgir líka ríkuleg andleg umbun. — Matt. 6:19-21.
20 Ef kringumstæður þínar leyfa kannt þú að geta aðstoðað annan söfnuð sem þarf meira á kröftum brautryðjanda að halda. Sért þú til þess hæfur mun farandhirðirinn með ánægju ræða málið við þig og koma með tillögur um söfnuð sem gæti nýtt sér vel starfskrafta annars brautryðjanda.
21 Sumir brautryðjendur og boðberar mæta sérstökum þörfum á safnaðarsvæðinu. Víða um heim eru heil hverfi eða byggðir þar sem býr fólk er talar aðra tungu en þá sem almenn er í því landi. Þeir sem kunna þá tungu, eða leggja á sig að læra hana, geta gert mikið gagn meðal slíkra manna. Stundum geta boðberar, sem kunna táknmál, komið að góðum notum. Þó að slíkt geti verið mikil áskorun getur líka fylgt því mikil blessun. — 1. Tím. 2:4; Tít. 2:11.
22 Ef þú gerir allt sem þú getur núna til að heiðra Jehóva skaltu gleðjast yfir núverandi þjónustusérréttindum þínum. Ef þér finnst þú geta gert meira skaltu ræða málið við Jehóva í bæn. Kannaðu á raunhæfan hátt hvaða breytingar aðstæður þínar leyfa þér að gera. Ræddu áætlanir þínar við öldung sem hefur brautryðjandaandann eða við farandhirðinn. Þegar þú hefur eftir bæn til Guðs tekið raunhæfa ákvörðun, fylgdu henni þá eftir án tafar í fullu trausti til fyrirheits Jehóva um að hann heiðri þá sem hann heiðra. — Hebr. 13:5, 6; 1. Sam. 2:30.