Náum við nýju hámarki?
Í ágúst í fyrra náðist nýtt boðberahámark á Íslandi þegar 324 tóku þátt í boðunarstarfinu. Meðaltal boðbera á þjónustuárinu 1997 var 314. Fyrstu sjö mánuði yfirstandandi þjónustuárs hefur meðaltal boðbera hins vegar verið 310, og var hæst í nóvember þegar 314 tóku þátt í starfinu. Það gefur því augaleið að við höfum heldur slakað á klónni það sem af er þjónustuárinu og er það verulegt áhyggjuefni. Skýrslur farandhirðis sýna að töluverður hópur boðbera er orðinn óreglulegur í boðunarstarfinu eða jafnvel óvirkur. Auk þess hafa færri nýir boðberar bæst í hópinn nú en oft áður. Hvernig getum við gert bragarbót á þessu og jafnframt slegið fyrra boðberamet? Með því að allir safnaðarboðberar geri ráðstafanir til að taka þátt í boðunarstarfinu í ágúst og skili tímanlega inn skýrslu um starf sitt. Fyrstu þrír dagar mánaðarins eru almennir frídagar og því kjörnir til starfsins. Hví ekki að nýta okkur það, jafnvel þótt við séum á ferð og flugi? Aðra helgina í ágúst verður svo landsmótið „Lífsvegur Guðs.“ Notum tækifærið og berum óformlega vitni á leið til og frá mótsstaðnum og verum staðráðin í að starfa með söfnuðinum helgina eftir landsmótið. Ef við ásetjum okkur að byrja mánuðinn vel tekst okkur örugglega að vera með í boðunarstarfinu í ágúst. Og með samstilltu átaki sláum við áreiðanlega gamla boðberahámarkið og setjum fleiri ný í kjölfarið. Það yrði Jehóva sannarlega til lofs! — Sálm. 47:2.