Náðu árangri í boðunarstarfinu
1 Himininn sortnar og hrollvekjandi hljóð magnast upp í ærandi gný. Ský leggst yfir landið, einna líkast reyk. Hvað er það? Milljónaher engisprettna kemur til að eyða landið! Þessari sýn er lýst af spámanninum Jóel og á sér uppfyllingu í prédikunarstarfi hinna smurðu þjóna Guðs og félaga þeirra, hins mikla múgs.
2 Varðturninn 1. júní 1998, bls. 21, grein 19 sagði: „Nútímaengisprettuher Guðs hefur borið rækilega vitni í ‚borg‘ kristna heimsins. (Jóel 2:9) . . . Þeir stíga enn yfir allar hindranir og koma inn á milljónir heimila, taka fólk tali á götum úti, tala við það í síma og ná sambandi við það á alls konar vegu þegar þeir flytja boðskap Jehóva.“ Eru það ekki mikil sérréttindi að eiga þátt í þessu starfi sem er frá Guði?
3 Ólíkt bókstaflegum engisprettum, sem hafa það eina markmið að næra sig, bera þjónar Jehóva mikla umhyggju fyrir lífi þeirra sem þeir prédika fyrir. Við viljum hjálpa öðrum að kynnast þeim dýrmætu sannindum, sem er að finna í orði Guðs, svo að þeir finni hjá sér hvöt til að stíga þau skref sem leiða til eilífs hjálpræðis þeirra. (Jóh. 17:3; 1. Tím. 4:16) Þess vegna viljum við ná árangri í boðunarstarfinu. Hvaða starfsaðferð sem við notum þurfum við að hugleiða hvort við beitum henni á þann hátt og á þeim tíma sem ber mestan árangur. Þar sem „mynd þessa heims breytist,“ er gott að brjóta til mergjar aðferðir okkar til að tryggja að við náum eins miklum árangri og hægt er. — 1. Kor. 7:31, NW.
4 Enda þótt við kappkostum að ná sambandi við fólk á ýmsa vegu er starfið hús úr húsi enn undirstaða boðunarstarfsins. Finnst þér að fólk sé sjaldan heima eða sofandi þegar þú kemur? Það er gremjulegt þar sem þú getur ekki sagt því frá fagnaðarerindinu. Hvernig geturðu tekið á þessum vanda?
5 Vertu sveigjanlegur og skynsamur: Í Ísrael á fyrstu öld stunduðu fiskimenn veiðar að nóttu til. Af hverju? Þótt þetta hafi ekki verið þægilegasti tíminn fyrir þá, var þetta besti veiðitíminn. Þetta var árangursríkasti tíminn. Varðturninn í nóvember 1992 sagði: „Við ættum líka að rannsaka svæði okkar með það fyrir augum að róa til fiskjar, ef svo má að orði komast, þegar þorri manna er heima og móttækilegur.“ Í sumum löndum eru samkomur fyrir boðunarstarfið haldnar snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum en hér á landi hefur reynslan sýnt að það er betra að hafa samansafnanir aðeins seinna að degi til svo að fólk sé móttækilegra þegar við komum. Það er góð leið til að ná meiri árangri í boðunarstarfinu og sýna náunga okkar tillitssemi, sem er merki um sannkristinn kærleika. — Matt. 7:12.
6 Í Filippíbréfinu 4:5 minnir Páll postuli okkur á að ‚sanngirni okkar ætti að verða kunnug öllum mönnum.‘ Í samræmi við þessar innblásnu leiðbeiningar viljum við vera sanngjörn og skynsöm þegar við sinnum prédikunarstarfinu með kostgæfni og eldmóði. Við viljum ekki ‚draga neitt undan því að kenna opinberlega og í heimahúsum,‘ en viljum gæta þess að starfa hús úr húsi á þeim tíma þegar það er skynsamlegt og ber árangur. (Post. 20:20) Eins og fiskimennirnir í Ísrael á fyrstu öld er okkur umhugað um að ‚veiða‘ á þeim tíma sem við getum náð mestum árangri en ekki á þeim tíma sem er þægilegastur fyrir sjálfa okkur.
7 Þegar samansafnanir eru snemma að degi hafa öldungaráð skipulagt það svo að hópurinn fari í götustarf, endurheimsóknir eða starfi á viðskiptasvæðum áður en farið er hús úr húsi á íbúðarsvæðum. Á sumum svæðum er besti tíminn til að hittast fyrir boðunarstarfið rétt eftir hádegi frekar en á morgnana. Það hefur einnig reynst mjög góður tími að starfa síðla dags og á kvöldin og hafa sumir söfnuðir skipulagt samansafnanir á þeim tíma með góðum árangri.
8 Sýndu góða dómgreind og vertu háttvís: Þegar við hittum fólk hús úr húsi fáum við alls konar viðbrögð við boðskapnum. Sumir húsráðendur eru móttækilegir, aðrir eru áhugalausir og fáeinir eru jafnvel þrætugjarnir eða ófriðsamir. Varðandi síðarnefnda tilfellið er að finna áminningu á bls. 7 í Reasoning From The Scriptures (Rökræðubókinni) um að við séum ekki að leitast við að „‚sigra í deilum‘ við fólk sem sýnir sannleikanum enga virðingu.“ Sé húsráðandi óvinveittur er best fyrir okkur að hverfa á brott. Við ættum aldrei að egna fólk með því að heimta að það tali við okkur eða fallist á sjónarmið okkar. Við þröngvum boðskapnum ekki upp á fólk. Það væri ekki sanngjarnt og gæti valdið öðrum vottum erfiðleikum og orðið starfinu í heild til trafala.
9 Áður en byrjað er að fara yfir svæði er skynsamlegt að athuga hvort merkt hafi verið við heimilisföng á svæðiskortinu þar sem íbúarnir vilja ekki að við heimsækjum þá. Ef slíkar merkingar eru á kortinu á að segja boðberum, sem starfa í þeirri götu, hvar má ekki knýja dyra. Enginn ætti að ákveða upp á eigin spýtur að banka þar án þess að starfshirðirinn hafi gefið leyfi til þess. — Sjá spurningakassann í Ríkisþjónustu okkar á ensku fyrir júní 1994.
10 Við getum náð betri árangri ef við sýnum góða dómgreind þegar við störfum hús úr húsi. Vertu athugull þegar þú nálgast heimili. Eru öll gluggatjöldin dregin fyrir? Heyrist ekkert hljóð? Þetta getur gefið til kynna að íbúarnir séu sofandi. Það er líklegt að samtal okkar við húsráðanda beri meiri árangur ef við komum aftur seinna. Kannski væri best að fara fram hjá húsinu að sinni og skrifa húsnúmerið niður. Þú gætir litið á húsið áður en þú ferð af svæðinu eða merkt við að þú komir aftur seinna.
11 Auðvitað getur komið fyrir að við vekjum óvart einhvern eða truflum hann á annan hátt. Hann getur jafnvel virst pirraður eða reiður. Hvernig ættum við að bregðast við? Orðskviðirnir 17:27 segja: „Geðrór maður er skynsamur.“ Þótt við biðjumst ekki afsökunar á boðunarstarfinu getum við alveg látið í ljós að okkur þykir leitt að hafa komið á óheppilegum tíma. Við getum hæversklega spurt hvort annar tími henti betur og boðist til að koma aftur. Einlæg umhyggja og mildur raddblær fær slíkan mann oft til að slaka á. (Orðskv. 15:1) Ef húsráðandi segir að hann vinni að staðaldri á næturvakt væri hægt að láta fylgja miða með svæðiskortinu svo að í framtíðinni sé hægt að heimsækja hann á heppilegum tíma.
12 Góð dómgreind er einnig viðeigandi þegar við kappkostum að fara rækilega yfir svæði okkar. Þar sem margir eru ekki heima þegar við bönkum upp á í fyrsta skipti þurfum við að gera fleiri tilraunir til að ná sambandi við þá til að segja þeim frá hjálpræðisboðskapnum. (Rómv. 10:13) Skýrslur gefa til kynna að stundum fari boðberar í sama húsið nokkrum sinnum á dag til að reyna að finna íbúana heima. Nágrannarnir komast ekki hjá því að sjá það. Það gæti komið þeirri neikvæðu hugmynd inn hjá fólki að vottar Jehóva séu ‚alltaf að koma‘ í hverfið þeirra. Hvernig er hægt að forðast þetta?
13 Með því að sýna dómgreind. Þegar farið er aftur þangað sem enginn var heima, eru þá einhver merki þess að einhver sé heima núna? Ef póstur og dreifibréf standa út úr póstkassanum er líklegt að enn sé enginn heima og að heimsóknir í þetta hús á þessum tíma beri engan árangur. Ef ekki næst til húsráðanda eftir nokkrar tilraunir á ólíkum tíma dags eins og á kvöldin er kannski hægt að ná til hans í síma. Annars væri hægt að skilja eftir smárit eða dreifimiða í póstkassanum sérstaklega ef farið er sæmilega oft yfir svæðið. Kannski er hægt að ná í viðkomandi næst þegar starfað er á svæðinu.
14 Forðumst langdregnar umræður í dyragættinni þegar húsráðandi er berskjaldaður fyrir óblíðu veðri. Þegar okkur er boðið inn skulum við gæta þess að óhreinka ekki gólfið. Sýndu góða dómgreind þegar þú þarft að glíma við geltandi hund. Þegar þú starfar í blokk skaltu tala lágt og forðast hávaða sem ónáðar íbúa og auglýsir nærveru þína.
15 Vertu skipulagður og virðulegur: Með góðri skipulagningu má forðast að stórir, áberandi hópar safnist saman á svæðinu. Fólki gæti fundist sér ógnað þegar nokkrir bílar leggja beint fyrir utan húsið þeirra með stóran hóp af boðberum. Við viljum ekki að fólki finnist að við séum að „gera innrás“ á íbúðasvæðið. Það er best að skipuleggja starfið á svæðinu í samansöfnuninni. Litlir boðberahópar, eins og fjölskylda, eru miklu minni ógn í augum húsráðandans og þurfa minni endurskipulagningu þegar starfað er á svæðinu.
16 Til að allt fari vel fram þurfa foreldrar að hafa nákvæmt eftirlit með hegðun barna sinna þegar þau starfa á svæðinu. Börnin eiga að haga sér vel þegar þau fylgja fullorðnum að dyrunum. Það ætti ekki að leyfa þeim að leika sér eða ráfa um og vekja óviðeigandi athygli íbúa eða vegfarenda.
17 Það þarf einnig að gæta hófs varðandi kaffihlé. Ríkisþjónusta okkar fyrir júní 1995 sagði á bls. 7: „Þegar við erum í boðunarstarfinu getum við tapað verðmætum tíma í kaffihléum. Þegar veðrið er slæmt getur hlé kannski hresst okkur og haldið okkur gangandi. Margir kjósa þó heldur að vera uppteknir við að boða fólki fagnaðararerindið og sleppa því að taka sér kaffihlé með bræðrunum á þeim tíma sem tekinn hefur verið frá til boðunarstarfsins.“ Það er auðvitað persónuleg ákvörðun hvort tekið sé hlé til að fá sér hressingu. Stundum hafa stórir hópar bræðra og systra hins vegar hist á kaffihúsi eða veitingastað. Auk þess tíma sem það tekur að fá þjónustu getur nærvera hópsins verið ógnandi fyrir aðra gesti. Háværar samræður um boðunarstarfið geta dregið úr virðuleika þess og spillt fyrir áhrifum þess. Með góðri dómgreind geta boðberar forðast að troðfylla slíka staði og taka að þarflausu tíma frá boðunarstarfinu.
18 Margir hafa með góðum árangri tekið fólk tali hvar sem það er að finna — á götum, bílastæðum og annars staðar. Við viljum einnig gefa góðan vitnisburð á þessum svæðum bæði með því sem við segjum og líka með því að sýna góða dómgreind. Boðberar í öllum söfnuðum ættu að gæta þess að virða svæðismörk þannig að þeir verði ekki einum of mikið á ferðinni á viðskiptasvæðum og við skiptistöðvar strætisvagna eða hjá starfsmönnum fyrirtækja eins og bensínstöðva sem eru opnar allan sólarhringinn. Til að tryggja það að við sinnum starfinu á skipulegan og virðulegan hátt skulum við aðeins starfa innan okkar úthlutaða svæðis nema sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar í samvinnu við starfsnefnd annars safnaðar til að við aðstoðum þann söfnuð. — Samanber 2. Korintubréf 10:13-15.
19 Sumir söfnuðir sjá um mörg svæði þar sem hægt er að bera vitni fyrir fólki á förnum vegi og þeir hafa skipt þeim niður í minni svæði. Svæðiskort er síðan fengið boðbera eða hópi. Það stuðlar að árangursríkari yfirferð en ella og kemur í veg fyrir að of margir boðberar starfi á sama svæðinu á sama tíma í samræmi við meginregluna í 1. Korintubréfi 14:40: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“
20 Við ættum alltaf að vera háttvís í tali eins og sæmir þeim sem bera nafn Jehóva. Hið sama á við um verkfærin sem við notum. Gatslitin taska og biblía, sem er óhrein eða með hundseyru, spillir fyrir boðskapnum um ríkið. Sagt hefur verið að klæðnaður og ytra útlit „sendir öðrum hraðboð um það hver eða hvað þú ert og á hvaða hillu þú ert.“ Því ættum við hvorki að vera subbuleg eða ósnyrtileg í útliti né áberandi eða eins og klippt út úr tískublaði, heldur alltaf ‚samboðin fagnaðarerindinu.‘ — Fil. 1:27; samanber 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
21 Í 1. Korintubréfi 9:26 segir Páll postuli: „Ég [hleyp] ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.“ Í líkingu við Pál erum við staðráðin í að ná árangri í boðunarstarfi okkar. Þegar við tökum kostgæfilega þátt í vitnisburðarstarfinu sem hluti af „engisprettuher“ Jehóva skulum við sýna kristna skynsemi og dómgreind þegar við flytjum öllum á svæði okkar hjálpræðisboðskapinn.