Kanntu að meta það sem heilagt er?
1 Þú myndir örugglega svara játandi ef þú værir spurður hvort þú kynnir að meta það sem heilagt er. Hvaða heilagar ráðstafanir hefur Guð gert?
2 Okkur þykir sérstaklega vænt um sambandið við föðurinn á himnum sem fullvissar okkur um að ‚hann nálgist okkur ef við nálægjum okkur honum.‘ (Jak. 4:8) Án lausnarfórnar Jesú Krists gæti enginn maður hlotið eilíft líf. (Jóh. 3:16) Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa dýrmætu gjöf að við þökkum Guði daglega í bæn.
3 Innblásið orð Guðs, heilög Biblía, og jarðneskt skipulag hans er okkur einnig kært. Við sýnum að við kunnum að meta þessar ráðstafanir Jehóva þegar við lifum eftir meginreglum Biblíunnar, styrkjum bönd bróðurkærleikans, lútum guðræðislegri reglu í einu og öllu og vinnum með þeim sem fara með forystuna. — 1. Pét. 1:22.
4 Við fáum gnægð andlegrar fæðu frá hinum trúa og hyggna þjóni og landsmótið í sumar, „Gerendur orðsins,“ verður engin undantekning. Þar fáum við mikilvæga fræðslu og getum notið ánægjulegs félagsskapar sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þessa heilögu ráðstöfun?
5 Vanræktu ekki hús Jehóva: Nehemía áminnti þá sem unnu hörðum höndum við endurreisn múra Jerúsalem um að ‚vanrækja ekki hús Guðs síns.‘ (Nehem. 10:39, NW) „Hús“ Jehóva er tilbeiðslufyrirkomulag hans og landsmótið er hluti þessa fyrirkomulags. Til að vanrækja það ekki verðum við að sækja mótið og fylgjast vel með dagskránni. Þannig sýnum við Jehóva að við metum ráðstafanir hans mikils. (Hebr. 10:24, 25) Hvaða áætlanir ættum við að gera núna til að sýna að við kunnum að meta þennan heilaga viðburð?
6 Vertu viðstaddur alla þrjá dagana: Gerðu ráðstafanir til að vera viðstaddur mótið alla þrjá dagana, mæta snemma hvern dag og vera þar uns lokabænin er flutt á sunnudeginum. Ef þú gerir það verður það þér til blessunar. Það er ekki alltaf auðvelt að sækja mót. Þú getur þurft að standa fastur fyrir til að fá frí úr vinnunni og þarft kannski að ferðast um langan veg á mótsstað. En láttu slíkt ekki hindra þig í að koma.
7 Gott dæmi til eftirbreytni: Hópur bræðra í stríðshrjáðu Afríkuríki var á leið á umdæmismót í fyrra er þeir rákust á hóp hermanna. „Hverjir eruð þið og hvert eruð þið að fara?“ spurðu hermennirnir. „Við erum vottar Jehóva og erum á leið á umdæmismótið,“ svöruðu þeir. Þá sagði einn hermannanna: „Þið vottar Jehóva hræðist ekkert. Farið bara og umdæmismótið verður haldið vandræðalaust. En þið getið búist við að rekast á marga hermenn. Gangið alltaf á miðjum veginum. Ef þið sjáið hóp fólks safnast saman skuluð þið samt halda áfram að ganga á miðjum veginum!“ Það gerðu þeir og komust óhultir á mótsstaðinn. Þeim var umbunað fyrir að kunna að meta það sem heilagt er.
8 Við eigum við ýmsar þrautir að glíma eins og bræðurnir í Afríku. En við getum tvímælalaust líkt eftir trú þeirra og verið staðráðin í að vera alla mótsdagskrána. Þurfirðu að hagræða málum þínum skaltu leita leiðsagnar Jehóva í þeirri vissu að hann blessi viðleitni þína til að sækja allt mótið.
9 Uppskerðu blessun: Við sækjumst eftir orði Guðs vegna þess að við vitum að við döfnum af því til hjálpræðis. (1. Pét. 2:2) Með því að sækja landsmótið og hlýða á dagskrána byggjum við upp sterkari trú á Biblíuna og getum betur staðist árásir Satans. Þá sýnum við Jehóva og öllum öðrum fram á að við kunnum að meta það sem heilagt er og „erum ekki undanskotsmenn . . . heldur menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ — Hebr. 10:39, Biblían 1912; 12:16; Orðskv. 27:11.
10 Við getum hlakkað til þess að Jehóva Guð opni flóðgáttir himins og úthelli yfir okkur ríkulegri andlegri blessun. (Mal. 3:10) Ásettu þér að sækja landsmótið „Gerendur orðsins“ og vera viðstaddur frá dagskrárbyrjun á föstudeginum allt til lokabænarinnar á sunnudeginum. Þú sérð ekki eftir því!