Höldum áfram að prédika!
1 Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:4) Þess vegna hefur hann falið okkur það verkefni að prédika fagnaðarerindið. (Matt. 24:14) Ef við skiljum hvers vegna við ættum að halda áfram að prédika missum við ekki kjarkinn og látum ekkert annað glepja okkur.
2 Hvers vegna er þrautseigja mikilvæg? Það er margt í heiminum sem glepur fólk og fær það til að gleyma því sem við segjum því eða láta sér það í léttu rúmi liggja. Við verðum því stöðugt að minna það á hjálpræðisboðskap Guðs. (Matt. 24:38, 39) Aðstæður fólks eru líka alltaf að breytast. Heimsástandið getur jafnvel breyst mikið á einni nóttu. (1. Kor. 7:31, NW) Ef til vill þarf fólk að glíma við ný vandamál og áhyggjur á morgun eða á komandi vikum og mánuðum sem fær það til að hugsa alvarlega um þau fagnaðartíðindi sem við færum því. Ert þú ekki þakklátur fyrir það að votturinn, sem kynnti sannleikann fyrir þér, skuli ekki hafa gefist upp?
3 Að líkja eftir miskunn Guðs: Jehóva er langlyndur og hefur beðið með að fullnægja dómi yfir óguðlegum mönnum. Hann notar okkur til að höfða til hjartahreinna manna og hvetja þá til að snúa sér til hans og bjargast. (2. Pét. 3:9) Við verðum blóðsek ef við kunngerum ekki mönnum kærleiksboðskap Guðs og vörum þá við komandi dómi hans yfir þeim sem láta ekki af vondri breytni sinni. (Esek. 33:1-11) Þótt að boðun okkar sé ekki alltaf vel tekið megum við aldrei slaka á kostgæfni okkar í að leiða einlægu fólki fyrir sjónir hve mikil miskunn Guðs er. — Post. 20:26, 27, Rómv. 12:11.
4 Að sýna kærleika: Jehóva Guð hefur fyrirskipað okkur fyrir milligöngu Jesú Krists að prédika fagnaðarerindið út um alla jörðina. (Matt. 28:19, 20) Og þótt að fólk vilji ekki hlusta gefst okkur samt tækifæri til að sýna kærleika okkar til Guðs og hollustu við hann með því að halda áfram að gera það sem rétt er. — 1. Jóh. 5:3.
5 Verum staðráðin í að halda áfram að prédika. Gerum það með kostgæfni meðan „hjálpræðis dagur“ Jehóva stendur enn. — 2. Kor. 6:2.