Hvers vegna höldum við áfram að fara aftur til fólks?
1 Hefur þú nokkurn tíma spurt sjálfan þig þeirrar spurningar, ef til vill þegar þú varst að búa þig undir dagsstund í boðunarstarfinu? Sums staðar þar sem farið er í sífellu yfir starfssvæði okkar má vera að húsráðendur kannist við okkur og vísi okkur strax burt. Það eru ef til vill aðeins fáeinir sem bregðast jákvætt við komu okkar. Samt eru margar veigamiklar ástæður fyrir því að við höldum áfram að fara til fólks.
2 Fyrst og fremst má nefna þá ástæðu að okkur er fyrirskipað að halda áfram að prédika boðskapinn um Guðsríki þangað til endirinn kemur. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Jesaja spámaður velti því fyrir sér hve lengi hann þyrfti að halda áfram prédikunarstarfi sínu. Svarið, sem hann fékk, er skráð í Jesaja 6:11. Það er engum vafa undirorpið að honum var sagt að halda áfram að fara aftur til fólksins með boðskap Guðs. Það sama gildir nú á dögum. Þó að fólkið, sem býr á starfssvæði okkar, vísi okkur frá ætlast Jehóva til að við höldum áfram að heimsækja það. (Esek. 3:10, 11) Þetta er heilög ábyrgð sem okkur hefur verið trúað fyrir. — 1. Kor. 9:17.
3 Við höfum aðra ástæðu fyrir því að halda áfram að fara aftur til fólks og hún er sú að þá gefst okkur tækifæri til að sýna hve djúpt hollusta okkar við Jehóva ristir. (1. Jóh. 5:3) Hvernig getum við líka haldið okkur frá því að reyna í kærleika að vara nágranna okkar við því sem í vændum er, þegar við hugleiðum hvað koma mun yfir mannkynið í náinni framtíð? (2. Tím. 4:2; Jak. 2:8) Ef við sinnum verkefni okkar af trúfesti gefst þeim aftur og aftur tækifæri til að heyra og bregðast við hjálpræðisboðskap Guðs og þeir geta þess vegna ekki sagt að þeir hafi ekki fengið viðvörun. — Esek. 5:13.
4 Við þetta má svo bæta að við vitum aldrei hvenær hugarfarsbreyting á sér stað hjá einhverju af þessu fólki. Hún getur komið til vegna breytinga á persónulegum högum þess, harmleiks í fjölskyldunni eða vegna þess að eitthvert ástand mála í heiminum fær það til að hugsa alvarlega um framtíð sína. Þá getur það líka gerst að eitthvað sem við segjum þegar menn koma til dyra snerti hjá þeim jákvæðan streng. (Préd. 9:11; 1. Kor. 7:31) Fólk flyst líka búferlum. Við kunnum að finna nýja íbúa á starfssvæði okkar sem bregðast vel við fagnaðarerindinu — kannski ungt fólk sem núna heldur sitt eigið heimili og hugsar alvarlega um tilgang sinn í lífinu.
5 Ætlum við að halda áfram að fara aftur til fólks? Já! Ritningin gefur okkur kappnóga ástæðu og hvatningu til að fara aftur og aftur til sama fólksins. Þegar upp er staðið og prédikunarstarfinu lokið mun Jehóva blessa okkur fyrir að hafa haldið áfram að leggja okkur fram í boðunarstarfinu. Hann mun líka blessa þá sem tóku þakklátir á móti fagnaðarerindinu um Guðsríki. — 1. Tím. 4:16.