Við höfum nýtt hjálpargagn til að hefja biblíunámskeið
1 Kaþólska konan var sanntrúuð og varði kenningar kirkjunnar dyggilega. Hún fór meira að segja í pílagrímsferð frá Bandaríkjunum til Páfagarðs. Þegar vottur Jehóva bankaði upp á hjá henni þáði hún hins vegar boð um heimabiblíunámskeið. Af hverju? Af því að hana langaði til að kynna sér efni Biblíunnar og kirkjan hennar bauð ekki upp á biblíunámskeið. Hvaða lærdóm má draga af því? Þann að við vitum aldrei fyrir fram hver sé líklegur til að þiggja ókeypis biblíunámskeið. — Préd. 11:6.
2 Hefurðu einhvern tíma hikað við að segja fólki að við séum reiðubúin að leiðbeina hverjum þeim sem hefur áhuga á að kynna sér Biblíuna? Vita allir í samfélaginu að við bjóðum upp á þessa þjónustu án endurgjalds? Hvernig getum við tryggt að allir viti það? Með því að notfæra okkur nýtt hjálpargagn sem heitir Langar þig að vita meira um Biblíuna? Lítum á millifyrirsagnirnar í þessu nýja, sex blaðsíðna smáriti og kynnum okkur það vel.
3 „Hvers vegna ættirðu að lesa Biblíuna?“ Í smáritinu eru tilteknar mjög hvetjandi ástæður til þess. Þar segir að Biblían innihaldi „leiðbeiningar frá Guði,“ kenni fólki að biðja til hans um hjálp og bendi á hvernig hægt sé að hljóta eilíft líf að gjöf frá honum. (1. Þess. 2:13) Smáritið nefnir að ‚Biblían upplýsi og fræði.‘ Hún skýrir til dæmis frá því hvað verður um fólk við dauðann og varpar ljósi á það hvers vegna erfiðleikarnir á jörðinni eru svo magnaðir sem raun ber vitni. Smáritið lýsir ‚meginreglum Guðs, sem settar eru fram í Biblíunni,‘ og bendir á að þær stuðli að góðri heilsu, hamingju, von og öðru eftirsóknarverðu. Smáritið bendir á eina ástæðu enn til að lesa í Biblíunni — spádómana um það sem er rétt fram undan. — Opinb. 21:3, 4.
4 „Aðstoð til að skilja Biblíuna“: Í smáritinu segir: „Allir þurfa aðstoð til að skilja Biblíuna.“ Síðan er biblíunámsaðferðinni lýst: „Yfirleitt er best að byrja á undirstöðukenningunum og fara kerfisbundið yfir Biblíuna.“ Bent er á að ‚Biblían sé lögð til grundvallar við fræðsluna‘ en síðan er þess getið að Kröfubæklingurinn geti ‚auðveldað nemandanum að skilja ritningarstaði sem fjalla um alls konar efni.‘ Í næstu millifyrirsögn er varpað fram áleitinni spurningu.
5 „Ertu tilbúinn til að taka þér tíma í hverri viku til að fræðast um Biblíuna?“ Smáritið segir að hægt sé að velja stað og stund fyrir biblíunámið eftir því sem hentar nemandanum best, til dæmis heima hjá honum, og að námið geti jafnvel farið fram símleiðis ef svo ber undir. Hverjir geta tekið þátt í náminu? Smáritið svarar: „Öll fjölskyldan getur tekið þátt í náminu og einnig aðrir ættingjar og vinir ef þú vilt. En þú getur líka verið einn um námið ef þú kýst svo.“ Hve lengi þarf námið að standa? Í smáritinu segir: „Margir taka frá klukkustund í hverri viku til biblíunáms. En vottarnir geta aðstoðað þig, hvort sem þú hefur meiri tíma aflögu í hverri viku eða minni.“ Þetta er aðalatriðið. Við erum reiðubúin að laga okkur að aðstæðum hvers nemanda.
6 „Boð um biblíunám“: Viðtakandi smáritsins getur klippt út og sent inn miða með ósk um að fá Kröfubæklinginn sendan eða fá heimsókn þar sem nánari upplýsingar eru veittar um tilhögun biblíunámskeiðsins. Sýnd er litmynd af forsíðu Kröfubæklingsins. Þetta smárit ætti að hvetja enn fleiri hjartahreina menn til að þiggja aðstoð okkar. En hvernig getum við notað þetta nýja hjálpargagn sem best?
7 Hverjum geturðu boðið smáritið? Hægt er að afhenda fólki smáritið beint eða skilja það eftir ef enginn er heima. Það má dreifa því hús úr húsi, á götum úti og á viðskiptasvæðum. Þú mátt bjóða það fólki hvort sem það þiggur rit eða ekki. Stingdu því inn í blöðin og önnur rit sem þú dreifir. Láttu það fylgja bréfum sem þú skrifar. Bjóðstu til að senda það þeim sem þú hringir til. Hafðu alltaf nokkur eintök á þér til að dreifa þegar þú ferð út að versla, ferðast með almenningsfarartækjum og vitnar óformlega fyrir fólki. Stingdu því að öllum sem banka upp á hjá þér. Bjóddu það ættingjum, nágrönnum, vinnufélögum, skólafélögum og öðrum kunningjum. Reyndu að koma því í hendur allra sem þú hittir! Hvað svo?
8 Ef viðbrögð eru strax jákvæð: Sumir þiggja biblíunámskeið þegar í stað. Þess vegna ættirðu alltaf að hafa tvö eintök af Kröfubæklingnum meðferðis í boðunarstarfinu, annað handa nemandanum og hitt handa sjálfum þér. Ef viðmælandinn er fús til skaltu hefja biblíunámskeiðið strax. Opnaðu bæklinginn og lestu „Hvernig nota skal þennan bækling“ á annarri kápusíðu. Snúðu þér síðan að 1. kafla og sýndu námsaðferðina. Það getur ekki auðveldara verið.
9 Ef viðmælandinn þarf að hugsa sig um: Reyndu að hafa samband við hann áður en langt um líður. Gættu þess að vera með Kröfubækling meðferðis. Sýndu honum efnisyfirlitið á annarri kápusíðu. Leyfðu honum að velja það málefni sem helst vekur áhuga hans. Flettu upp á kaflanum og byrjaðu að fjalla um efnið sem hann valdi.
10 Farðu aftur til þeirra sem þiggja blöð: Ef þú lést smáritið fylgja blöðum, sem þú skildir eftir, gætirðu reynt þessa aðferð: „Síðast þegar ég kom við hjá þér fékkstu hjá mér eintak af Varðturninum. Þú tókst kannski eftir því að titill blaðsins er Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Mig langar til að benda þér á hvaða ríki þetta er og hvaða þýðingu það hefur fyrir þig og fjölskyldu þína.“ Opnaðu síðan Kröfubæklinginn á 6. kafla. Byrjaðu á fyrstu greininni og lestu síðan og farðu yfir eins mikið og tími húsráðandans leyfir. Mæltu þér síðan mót við hann síðar til að ljúka við að fara yfir efnið.
11 Vertu ekki uppiskroppa með smárit: Starfshirðirinn og bræðurnir, sem sjá um bókabirgðir safnaðarins, ættu að gæta þess að eiga alltaf til nóg af smáritinu Langar þig að vita meira um Biblíuna? Eigðu nokkur eintök í vasanum eða töskunni, í bílnum, á vinnustað, í skólanum, nálægt útidyrunum heima — alls staðar þar sem það getur komið að notum. Og vertu alltaf með einhverjar birgðir í starfstöskunni til að stinga að þeim sem þú getur rætt við um Biblíuna.
12 Megi Jehóva blessa viðleitni okkar: Það er verðugt markmið fyrir alla kristna menn að kenna einhverjum öðrum sannleikann. (Matt. 28:19, 20) Heldurðu biblíunámskeið þessa stundina? Ef svo er, geturðu þá skapað þér svigrúm fyrir annað? Ef þú ert ekki með biblíunámskeið í gangi um þessar mundir langar þig áreiðanlega til þess. Biddu Jehóva að blessa viðleitni þína til að finna einhvern sem þú getur kennt. Og leggðu þig síðan fram í samræmi við bænir þínar. — 1. Jóh. 5:14, 15.
13 Við höfum fengið nýtt hjálpargagn til að hefja biblíunámskeið. Kynntu þér það vel. Dreifðu því sem víðast. Leggðu þig allan fram um að ‚gera gott, vera ríkur af góðum verkum, örlátur, fús að miðla öðrum‘ það sem þú hefur lært í orði Guðs. — 1. Tím. 6:18.
[Rammi á blaðsíðu 4]
LEIÐIR TIL AÐ DREIFA SMÁRITINU
◼ Í daglegum samtölum.
◼ Þegar viðmælandinn þiggur rit.
◼ Þegar enginn er heima.
◼ Í endurheimsóknum.
◼ Í götustarfi.
◼ Þegar starfað er á viðskiptasvæðum.
◼ Við óformlegan vitnisburð.
◼ Með bréfum.
◼ Í almenningsfarartækjum.
◼ Þegar einhver bankar upp á hjá þér.
◼ Í samtölum við ættingja, nágranna, vinnufélaga, skólafélaga og aðra kunningja.