Hvernig notum við nýja bæklinginn Gleðifréttir frá Guði?
Bæklingur saminn til að auðvelda okkur að fara í endurheimsóknir og hefja biblíunámskeið
1. Hvaða bæklingur kom út á umdæmismótinu „Varðveit hjarta þitt“ og hvað auðveldar hann okkur að gera?
1 Það var ánægjulegt að fá nýjan bækling á umdæmismótinu „Varðveit hjarta þitt“ sem auðveldar okkur að fara í endurheimsóknir og hefja biblíunámskeið. Bæklingurinn Gleðifréttir frá Guði kemur í stað Kröfubæklingsins og líkist honum að því leyti að kaflarnir eru stuttir og hnitmiðaðir. Það er því auðvelt að nota bæklinginn til að halda biblíunámskeið í dyragættinni. Í Kröfubæklingnum var rætt um kröfur sem gerðar eru til kristinna manna. Nemendur geta átt erfitt með að skilja þær og taka þær til sín. Í þessum nýja bæklingi eru hins vegar hafðar í brennidepli gleðifréttirnar sem er að finna í Biblíunni. – Post. 15:35.
2. Hvers vegna var bæklingurinn Gleðifréttir frá Guði gefinn út?
2 Af hverju var hann gefinn út? Trúsystkini okkar út um allan heim hafa verið að biðja um eitthvað sem getur á einfaldan hátt laðað fólk að sannleika Biblíunnar og verið stökkpallur að námi í bókinni Hvað kennir Biblían? sem er helsta biblíunámsrit okkar. Að lesa í gegnum heila bók getur vaxið fólki í augum en hins vegar getur fólk verið opnara fyrir því að læra um Biblíuna með hjálp bæklings. Þar að auki er auðveldara að þýða bæklinga yfir á fjölda tungumála.
3. Hvernig er þessi bæklingur frábrugðinn hinum námsritunum okkar?
3 Uppbygging hans: Mörg rita okkar eru skrifuð þannig að fólk geti lesið þau og skilið sannleikann, meira að segja án þess að fá hjálp. Þetta rit er svolítið frábrugðið. Það er samið sem hjálpargagn við biblíunám með leiðbeinanda. Það er þess vegna við hæfi að fara yfir og ræða eina eða tvær efnisgreinar þegar við bjóðum bæklinginn. Efnisgreinarnar eru stuttar svo að það er auðvelt að ræða þær heima hjá fólki í dyragættinni eða á vinnustað þess. Þó að gott sé að byrja á 1. kafla er hægt að byrja námið nánast hvar sem er í bæklingnum.
4. Hvernig getur bæklingurinn hjálpað okkur að kenna beint úr Biblíunni?
4 Í mörgum rita okkar eru spurningar neðst á blaðsíðunni og svörin við þeim er að finna í efnisgreinunum. Öðru máli gegnir þó um þennan bækling, svörin er aðallega að finna í Biblíunni. Flestir vilja læra beint úr Biblíunni frekar en úr öðru riti. Það er ástæðan fyrir því að vitnað er beint í mjög fáa ritningarstaði. Það á að lesa þá úr Biblíunni sjálfri. Þetta hjálpar nemandanum að sjá að það sem hann er að læra kemur frá Guði. – Jes. 54:13.
5. Af hverju þarf leiðbeinandinn að vera vel undirbúinn fyrir hverja kennslustund?
5 Það eru ekki allir ritningarstaðirnir útskýrðir í bæklingnum. Það er vegna þess að hann er skrifaður til að fá nemendur til að spyrja spurninga og til að leiðbeinandinn fái að nota hæfileika sína sem kennari. Það er því mikilvægt að við séum vel undirbúin fyrir hverja námsstund. Athugið: Varist að tala of mikið. Okkur þykir virkilega gaman að útskýra biblíuvers en það virkar oft betur að fá nemandann til að segja okkur hvað hann haldi að ritningarstaðurinn þýði. Með því að nota spurningar getum við hjálpað nemandanum að rökhugsa og komast sjálfur að inntaki ritningarstaðanna. – Post. 17:2.
6. Hvernig getum við notað bæklinginn (a) þegar fólk efast um tilvist Guðs og sannleika Biblíunnar? (b) í starfinu hús úr húsi? (c) til að hefja biblíunám í fyrstu heimsókn? (d) í endurheimsóknum?
6 Eins og önnur námsgögn má bjóða þennan bækling hvenær sem er, sama hvert tilboð mánaðarins er. Margir eiga eftir að hafa ánægju af að nota hann til að hefja biblíunám beint í dyragættinni. Og eins og kom fram á umdæmismótinu getur hann þar að auki reynst vel „til að gera endurheimsóknir virkilega spennandi“. – Sjá rammana á bls. 13-15.
7. Hvernig getum við notað bæklinginn til að halda biblíunámskeið?
7 Hvernig notum við hann sem námsgagn? Við getum hafið samræðurnar með því að lesa eina af feitletruðu spurningunum. Því næst getum við lesið greinina og flett upp skáletruðu ritningarstöðunum. Best er að nota vel valdar spurningar til að hjálpa húsráðandanum að skilja hvað ritningarstaðirnir þýða. Áður en við förum svo í næstu spurningu skulum við spyrja húsráðanda spurningarinnar sem við vorum að ræða til að ganga úr skugga um að hann hafi skilið efnið. Fyrst um sinn gæti verið nóg að taka fyrir eina af feitletruðu spurningunum í hverri heimsókn. Síðar meir gætum við haft umræðurnar lengri og farið yfir heilan kafla.
8. Hvernig ættum við að kynna ritningarstaðina og af hverju?
8 Ritningarstaðir, sem merktir eru „Lestu“, svara feitletruðu spurningunum hvað best. Áður en við lesum ritningarstað ættum við að forðast að segja hluti eins og „Páll postuli skrifaði“ eða „taktu eftir hverju Jeremía spáði fyrir“. Húsráðanda gæti fundist eins og við værum að lesa orð einhverra manna. Betra væri að segja „í orði Guðs segir“ eða „sjáðu hverju spáð var fyrir í Biblíunni“.
9. Ættum við að lesa alla ritningarstaðina?
9 Ættum við að lesa alla ritningarstaðina eða bara þá sem merktir eru „Lestu“? Látum aðstæðurnar ráða. Góð ástæða er fyrir öllum ritningarstöðunum í bæklingnum. Þeir innihalda allir upplýsingar sem gaman væri að ræða um. En ef nemandinn hefur ekki mikinn tíma, áhuga eða lestrarkunnáttu gæti verið best að lesa aðeins ritningarstaði merkta „Lestu“.
10. Hvenær ættum við að skipta yfir í bókina Hvað kennir Biblían?
10 Hvenær væri best að skipta yfir í bókina Hvað kennir Biblían? Eftir að við höfum komið reglulega í nokkur skipti og átt góðar samræður við húsráðanda gætum við annaðhvort skipt yfir í bókina Hvað kennir Biblían? eða haldið áfram umfjöllun okkar í bæklingnum Gleðifréttir frá Guði þangað til við höfum lokið að fara yfir hann. Boðberar verða að nota dómgreind þegar þeir ákveða hvenær best sé að skipta yfir í bókina. Eftir að við skiptum yfir þurfum við þá að byrja á 1. kaflanum? Engar reglur segja til um það. Nemendur okkar eru svo mismunandi. Flestir þeirra hafa þó gagn af því að fara aftur yfir sömu atriðin þar sem kafað er töluvert dýpra í þau í bókinni.
11. Af hverju ættum við að nýta okkur vel þennan nýja bækling?
11 Lítið er um gleðifréttir í heiminum í kringum okkur en við höfum þann heiður að mega segja frá bestu fréttum sem til eru, að Guðsríki er við völd og mun bráðlega leiða okkur inn í nýjan og réttlátan heim. (Matt. 24:14; 2. Pét. 3:13) Við erum viss um að margir sem heyra þessar fréttir munu taka undir þessi innblásnu orð: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: ,Guð þinn er sestur að völdum.‘“ (Jes. 52:7) Nýtum okkur þennan nýja bækling til að flytja gleðifréttirnar öllum þeim sem þyrstir eftir sannleika Biblíunnar.
[Rammi á bls. 13]
Þegar fólk efast um tilvist Guðs og sannleika Biblíunnar:
● Sums staðar finna boðberar fyrir því að orð eins og „Guð“ og „Biblían“ eru samræðutálmar. Þegar við heimsækjum fólk í fyrsta skipti gæti því verið ráðlegt að tala um hluti eins og þörfina á góðri ríkisstjórn, hvar hægt sé að fá góð ráð fyrir fjölskylduna og hvað framtíðin beri í skauti sér. Eftir að hafa átt nokkur samtöl gætum við kynnt bæklinginn Gleðifréttir frá Guði til sögunnar til að sýna hvernig við vitum að Guð sé til og hvers vegna við getum treyst Biblíunni.
[Rammi á bls. 14]
Þegar við göngum í hús:
● „Mig langar til að sýna þér hversu auðvelt það getur verið að finna út hvað Guð hefur í huga með framtíð mannanna. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvort Guð muni binda enda á þjáningar? [Gefðu kost á svari.] Þessi bæklingur hjálpar þér að sjá hvar í Biblíunni þú getur fundið svarið við þessari spurningu. [Afhentu húsráðanda bækling og lestu grein eitt í fyrsta kaflanum og Jeremía 29:11.] Er ekki ljóst samkvæmt þessum orðum að Guð vill að við eigum von um betri framtíð? [Gefðu kost á svari.] Þú mátt eiga þennan bækling ef þú vilt. Í næsta skipti getum við svo rætt um grein tvö og fundið svar Biblíunnar við spurningunni: Hvernig mun Guð frelsa mannkynið undan þjáningum?“ Ef húsráðandi hefur nægan tíma í fyrstu heimsókn gætuð þið lesið og rætt um grein tvö og lesið saman næstu þrjá ritningarstaði. Gerðu svo ráðstafanir til að koma aftur og ræða um næstu spurningu í kafla eitt.
● „Mörgum finnst gott að fara með bænir, sérstaklega þegar þeir eiga við vandamál að etja. Biður þú stundum bæna? [Gefðu kost á svari.] Heldurðu að Guð hlusti á allar bænir eða gæti verið að honum líki ekki við sumar þeirra? [Gefðu kost á svari.] Ég er hér með bækling sem sýnir hvernig við getum fundið svör Biblíunnar við þessum spurningum. [Réttu húsráðanda bæklinginn og ræðið um fyrstu spurningu í tólfta kafla og lesið ritningarstaðinn merktan „Lestu“.] Finnst þér ekki stórkostlegt að Guð langi til að hlusta á okkur? En til að hafa sem mest gagn af bænum þá þurfum við að þekkja hann vel. [Flettu upp á kafla tvö og bentu honum á fyrirsagnirnar.] Ef þú vilt máttu eiga þennan bækling og seinna getum við svo lesið saman svör Biblíunnar við þessum áhugaverðu spurningum.“
● „Ég heimsæki þig í dag vegna þess að margir hafa áhyggjur af því hvert stefnir í heimsmálum. Heldurðu að ástandið eigi einhvern tíma eftir að batna? [Gefðu kost á svari.] Margir eru undrandi þegar þeir sjá að í Biblíunni er að finna gleðifréttir sem geta gefið okkur von. Hér finnurðu nokkrar af þeim spurningum sem svarað er í Biblíunni.“ Réttu húsráðandanum bæklinginn og leyfðu honum að velja spurningu af baksíðunni sem hann hefur mestan áhuga á. Finndu síðan viðeigandi kafla og sýndu hvernig nám fer fram. Gerðu ráðstafanir til að koma aftur og ræða næstu spurningu í þeim kafla.
[Rammi á bls. 15]
Reynið að bjóða biblíunámskeið beint:
● „Ég stoppaði stuttlega við hjá þér til að kynna fyrir þér nýtt námskeið. Í þessum bæklingi er að finna fimmtán kafla þar sem bent er á hvar þú getur fundið svör við stærstu spurningum lífsins í þinni eigin biblíu. [Sýndu húsráðanda kápu bæklingsins.] Hefurðu einhvern tíma reynt að skilja það sem stendur í Biblíunni? [Gefðu kost á svari.] Má ég sýna þér hversu einfalt er að skilja efni bæklingsins? [Skoðið grein þrjú í 3. kafla og lesið Opinberunarbókina 21:4, 5. Skoðið líka næstu grein og lesið ritningarstaði ef tækifæri gefst.] Ef þú vilt þá máttu eiga þennan bækling. Ég mæli með að þú prófir að minnsta kosti eina biblíunámsstund. Ef þér líkar vel geturðu haldið náminu áfram. Í næsta skipti getum við svo farið yfir 1. kaflann. Taktu eftir að hann er aðeins ein blaðsíða á lengd.“
[Rammi á bls. 15]
Sýndu hann í endurheimsókn:
● Þegar þú heimsækir einhvern aftur sem sýndi áhuga gætirðu sagt: „Gaman að sjá þig aftur. Ég kom með þennan bækling handa þér. Í honum er að finna svör Biblíunnar við mörgum áhugaverðum spurningum. [Réttu húsráðanda bækling og biddu hann um að skoða bakhlið hans.] Hvaða spurning vekur mestan áhuga hjá þér? [Gefðu kost á svari og flettu svo upp á þeim kafla sem hann velur.] Má ég sýna þér hvernig við getum fundið svör Biblíunnar með þessum bæklingi?“ Sýndu hvernig námið fer fram með því að ræða um eina eða tvær greinar ásamt ritningarstöðunum merktum „Lestu“. Nú hefur þú hafið biblíunámskeið. Skildu bæklinginn eftir hjá húsráðandanum og gerðu ráðstafanir til að koma aftur. Þegar þú hefur lokið að ræða um efni kaflans geturðu leyft húsráðanda að velja annan kafla eða byrjað bara á kafla eitt.