Notaðu bæklinginn Gleðifréttir frá Guði til að kenna sannleikann
1. Hvernig er bæklingurinn Gleðifréttir frá Guði hugsaður?
1 Eins og fram kom í júlí Ríkisþjónustunni er bæklingurinn Gleðifréttir frá Guði mikilvægt verkfæri í verkfærakistunni okkar. Biblíuvers sem vitnað er í eru ekki skrifuð út, svo húsráðandinn geti notið þess að lesa beint úr Biblíunni. Mörg námsrita okkar eru skrifuð þannig að lesandinn geti kynnt sér efni þeirra sjálfur, en þessi bæklingur er hugsaður þannig að farið sé yfir hann með leiðbeinanda. Þess vegna ættum við að reyna að sýna hvernig biblíunámskeið fer fram þegar við bjóðum bæklinginn, til að húsráðandinn sjái hvað það er spennandi að kynna sér gleðifréttirnar frá Biblíunni. – Matt. 13:44.
2. Hvernig getum við notað bæklinginn Gleðifréttir frá Guði í fyrstu heimsókn?
2 Í fyrstu heimsókn: Þú gætir sagt: „Margir hafa áhyggjur af því hvert heimurinn stefnir. Heldurðu að ástandið eigi einhvern tíma eftir að batna? [Gefðu kost á svari.] Biblían hefur að geyma góðar fréttir sem geta veitt okkur von. Hér eru nokkrar af þeim spurningum sem Biblían svarar.“ Réttu húsráðandanum bæklinginn og bjóddu honum að velja spurningu á baksíðunni. Sýndu honum svo hvernig biblíunámskeið fer fram með því að nota fyrstu greinina í kaflanum sem hann velur. Annar möguleiki er að spyrja húsráðandann spurningar sem vekur áhuga, út frá kafla sem þú velur og sýna síðan hvernig hægt sé að nota bæklinginn til að finna svar Biblíunnar. Ef myndskeið í tengslum við efnið er að finna á jw.org geta boðberar notað það í kynningu sinni.
3. Útskýrðu hvernig biblíunámskeið er haldið með bæklingnum Gleðifréttir frá Guði.
3 Að halda biblíunámskeið: (1) Lestu feitletruðu, númeruðu spurninguna til að hjálpa húsráðandanum að einbeita sér að aðalatriðinu. (2) Lestu síðan efnisgreinina. (3) Lestu skáletruðu biblíuversin og notaðu viðeigandi spurningar til að hjálpa húsráðandanum að sjá hvernig biblíuversin svara spurningunni. (4) Ef spurningin á við fleiri en eina efnisgrein skaltu endurtaka skref 2 og 3. Ef þú hefur ekki þegar spilað myndskeið fyrir húsráðandann sem á við spurninguna skaltu gera það þegar passar. (5) Að lokum skaltu biðja húsráðandann um að svara númeruðu spurningunni til að fullvissa þig um að hann hafi skilið efnið.
4. Hvað auðveldar okkur að nota þetta gagnlega verkfæri af leikni?
4 Kynntu þér vel þetta gagnlega verkfæri. Notaðu það við hvert tækifæri þegar við á. Fyrir hverja námsstund skaltu hafa nemandann í huga þegar þú veltir fyrir þér hvernig best sé að nota biblíuversin í kaflanum til að rökstyðja efnið. (Orðskv. 15:28; Post. 17:2, 3) Þegar þú öðlast meiri reynslu og leikni getur vel verið að þessi bæklingur verði eitt af þínum uppáhalds verkfærum til að kenna fólki sannleikann.