Námskeiðum komið af stað með Kröfubæklingnum
1 Skýrslur alls staðar úr heiminum sýna að bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? er öflugt verkfæri til að kenna fólki sannleikann. Í hverri viku er þúsundum biblíunámskeiða komið af stað með hjálp þessa bæklings. Hefur þú náð góðum árangri í að hefja og stjórna biblíunámskeiðum með Kröfubæklingnum?
2 Enda þótt flestum finnist auðvelt að dreifa bæklingnum finnst sumum erfitt að vita hvað skuli segja til að hefja námskeið. Hvaða aðferðir hafa reynst öðrum vel til að hefja biblíunámskeið með Kröfubæklingnum? Eftirfarandi tillögur ættu að koma að gagni.
3 Bjóðstu til að sýna hvernig námskeiðið fer fram: Þegar við förum í fyrstu heimsókn eða endurheimsókn getum við sýnt hvernig biblíunámskeið fer fram í stað þess að bjóða húsráðanda beinlínis námskeið. Það eyðir eflaust leyndardómnum sem margir húsráðendur setja í samband við orðið „námskeið“ og óttanum sem af því leiðir. Þegar við höfum lært þetta komumst við að raun um að með einfaldri kynningu er strax hægt að koma af stað námskeiði.
4 Undirbúningur er lykillinn: Eldmóður okkar fyrir því að hefja biblíunámskeið er bein afleiðing af undirbúningi okkar. Góður undirbúningur hjálpar okkur að taka hiklaust þátt í biblíunámskeiðastarfinu. Með því að æfa kynningarorðin nokkrum sinnum verðum við ræðnari en ella og getum tjáð okkur eðlilega með eigin orðum. Það hjálpar okkur að slaka á og róar húsráðanda.
5 Þegar þú æfir þig er gott að taka tímann á kynningarorðunum svo að þú getir sagt húsráðanda hve langan tíma það tekur að sýna hvernig námskeið fer fram. Bróðir nokkur segir eftir að hafa kynnt sig: „Ég leit við til að sýna þér biblíunámsaðferð okkar. Það tekur um fimm mínútur. Áttu fimm mínútur aflögu?“ Hægt er að kynna 1. kafla Kröfubæklingsins á um fimm mínútum. Auðvitað er aðeins hægt að lesa valda ritningarstaði innan þessara tímamarka en með því að ljúka fyrsta kaflanum á fimm mínútum hefur húsráðandi prófað fyrstu námsstundina. Láttu hann síðan vita að þegar þú kemur aftur til að fara yfir 2. kafla taki það aðeins 15 mínútur.
6 Eftirfarandi kynningarorð hafa reynst árangursrík:
◼ „Mig langar til að sýna þér hvernig mjög einfalt en hraðvirkt biblíunámskeið fer fram með þessum bæklingi, Hvers krefst Guð af okkur? Á aðeins 15 mínútum á viku í 16 vikur er hægt að fá svör Biblíunnar við þessum mikilvægu spurningum.“ Sýndu stuttlega efnisyfirlitið. Snúðu þér að 1. kafla og segðu: „Ef þú getur séð af fimm mínútum langar okkur til að sýna þér hvernig þetta fer fram. Fyrsti kaflinn heitir ‚Hvernig er hægt að þekkja kröfur Guðs?‘“ Lestu síðan spurningarnar þrjár og útskýrðu tölurnar í svigunum. Lestu grein eitt og sýndu húsráðanda hvernig eigi að finna svarið. Þú getur beðið húsráðanda um að lesa grein tvö. Segðu síðan: „Hvernig myndir þú svara spurningunni út frá þessum upplýsingum? [Lestu spurninguna aftur og leyfðu húsráðanda að svara.] Þú tekur eftir að í hverri grein er vísað til ritningarstaða. Þeir beina athygli okkar að svari Biblíunnar við þessum spurningum. Við skulum til dæmis lesa 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17 og sjá hvort það styðji svarið sem þú gafst um höfund Biblíunnar.“ Eftir að hafa lesið grein 3, fjallað um spurninguna og lesið Jóhannes 17:3 skaltu benda húsráðanda á hvaða þekkingu hann hafi aflað sér með því að fara yfir 1. kafla. Síðan skaltu fletta upp á kafla tvö og lesa síðustu spurninguna „Á hvaða tvennan hátt getum við lært um Guð?“ Spyrðu síðan: „Hvenær gætirðu séð af 15 mínútum svo að við getum farið yfir kafla tvö og fundið svörin?“
7 Það er mikilvægt að halda umræðunni á einföldum nótum og hrósa húsráðanda hvenær sem það er hægt. Þegar þú ráðgerir að koma aftur skaltu hvetja hann til að fylgja sömu aðferð í næsta skipti í stað þess að spyrja hvort hann vilji halda náminu áfram. Láttu hann vita að þú hlakkir til að koma aftur. Sumir boðberar hafa boðist til að fara yfir námsefnið í síma ef það reynist erfitt að finna hentugan tíma til að hittast. Þú getur einnig hvatt nemandann til að setja bæklinginn á öruggan og þægilegan stað svo að hann sé innan handar þegar þú kemur aftur.
8 Vertu ákveðinn: Lykillinn að góðum árangri er undirbúningur en við verðum líka að vera ákveðin og þrautseig. Það getur verið erfitt að fara yfir efnið á fáeinum mínútum og því skaltu vera ákveðinn í að æfa kynninguna eins oft og nauðsynlegt er til að geta farið snurðulaust yfir kaflann. Reyndu að sýna öllum sem þú talar við hús úr húsi, óformlega og í síma hvernig námskeið fer fram. Misstu ekki kjarkinn þótt þú eigir erfitt með að hefja biblíunámskeið. Góður árangur í að hefja biblíunámskeið krefst ákveðni og einlægrar löngunar til að miðla öðrum sannleikanum. — Gal. 6:9.
9 Með því að fylgja þessum leiðbeiningum getur þú einnig haft þau sérréttindi að hjálpa einhverjum inn á veginn til eilífs lífs, með því að hefja og halda áfram biblíunámskeiði með Kröfubæklingnum. — Matt. 7:14.