Notum úrval bæklinga í boðunarstarfinu
1 Áhugamál fólks nú á tímum eru mjög margvísleg. Þegar þú tekur þátt í boðunarstarfinu í júlímánuði gætir þú haft með þér nokkra mismunandi bæklinga og leitast við að nota þá sem höfða helst til þeirra sem búa á starfssvæðinu. Ef til vill myndir þú vilja reyna einhver af eftirfarandi kynningarorðum:
2 Þegar þú býður bæklinginn „Stjórnin sem koma mun á paradís“ gætir þú spurt:
◼ „Hvernig heldur þú að heimurinn væri ef Guð færi einn með stjórnina? [Gefðu kost á svari.] Þegar við förum með Faðirvorið sem Jesús Kristur kenndi okkur erum við einmitt að biðja um að Guð taki í sínar hendur alla stjórn á jörðinni. [Flettu upp á blaðsíðu 3 og lestu fyrstu greinina sem vitnar í Matteus 6:10.] Ef þig langar til að lifa í slíkum heimi ættir þú að lesa þennan bækling.“ Síðan skaltu bjóðast til að skilja hann eftir.
3 Bæklinginn „Þegar ástvinur deyr“ mætti kynna á þennan hátt:
◼ „Heldur þú að sá dagur renni upp að enginn okkar þurfi framar að missa ástvin í dauðann? [Gefðu kost á svari.] Þessi fallega skrifaði bæklingur hefur hughreyst milljónir manna með því örugga fyrirheiti Biblíunnar að slíkur dagur renni upp í náinni framtíð. [Flettu upp á blaðsíðu 5 og lestu fimmtu efnisgreinina ásamt 1. Korintubréfi 15:21, 22. Flettu síðan upp á myndinni á blaðsíðu 30.] Hér hefur listamaðurinn náð fögnuðinum sem sjálfsagt mun fylla okkur þegar við bjóðum látna ástvini okkar velkomna til lífs á ný. En hvar mun þessi upprisa eiga sér stað? Bæklingurinn sýnir þér svör Biblíunnar við þeirri spurningu.“ Ef bæklingurinn er þeginn gætir þú bætt við: „Mig langar til að koma aftur seinna og ræða nánar um þetta efni.“
4 Þú gætir kynnt bæklinginn „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ með því að nota þessa beinu aðferð til að stofna biblíunám:
◼ „Margir hafa spurningar um Biblíuna. Þú hefur kannski velt fyrir þér einhverri slíkri spurningu. [Flettu upp á blaðsíðu 30.] Síðasta spurningin hér vekur áhuga margra: ‚Hvernig getur þú búið þig undir eilíft líf í paradís?‘“ Ef þú ræðir um tölugreinar 57-8 á blaðsíðu 29-30 og lest Opinberunarbókina 21:3, 4 leggurðu þar með grunninn að stofnun biblíunáms. Ljúktu heimsókninni með því að skilja bæklinginn eftir og gera ráðstafanir til að koma aftur til að ræða um einhverjar hinna spurninganna.
5 Þú kannt að vilja reyna þessi einföldu kynningarorð til að bjóða bæklinginn „Nafn Guðs sem vara mun að eilífu“:
◼ „Eitt af því fyrsta sem ég lærði frá Biblíunni var nafn Guðs. Veist þú hvert það er? [Gefðu kost á svari.] Ég skal sýna þér það. Það er hér neðanmáls við 1. Mósebók 2:5. [Lestu.] Önnur mynd nafnsins og mun algengari er „Jehóva.“ Þessi bæklingur sýnir hvernig þetta nafn er á mörgum mismunandi tungumálum. [Sýndu rammann á blaðsíðu 8.] Ef þú vilt fræðast meira um Jehóva og fyrirætlun hans ættir þú að lesa þennan bækling.“ Réttu húsráðandanum bæklinginn.
6 Með slíkt úrval góðra bæklinga erum við vissulega vel útbúin til að „flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap.“ — Jes. 61:1.