Blessun fylgir því að meta kærleika Jehóva — 1. hluti
1 „Vér elskum, því að [Jehóva] elskaði oss að fyrra bragði,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóh. 4:19) Okkur langar til að láta í ljós innilegt þakklæti þegar við hugleiðum allt það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Jesús gaf okkur gott fordæmi þar sem hann hlýddi Guði og kunngerði nafn hans og ríki. (Jóh. 14:31) Okkur er hollt að íhuga á hvaða vegu við getum sýnt að við metum kærleika Jehóva og þá blessun sem fylgir honum.
2 Förum hús úr húsi: Jesús kenndi lærisveinum sínum hvernig ætti að boða fagnaðarerindið um ríkið. Leiðbeiningar hans benda eindregið til þess að þeir hafi farið hús úr húsi til að breiða út fagnaðarerindið. (Lúk. 9:1-6; 10:1-7) Það útheimtir kærleika til Guðs og náungans að fara áframhaldandi hús úr húsi þrátt fyrir sinnuleysi og andstöðu fólks. Auk þess er það sjálfum okkur til góðs því að það gerir trú okkar sterkari, sannfæringuna öruggari og vonina bjartari.
3 Þetta starf er unnið undir handleiðslu engla og margir þátttakendur í því hafa orðið þeirrar blessunar aðnjótandi að finna fólk sem hungrar og þyrstir eftir sannleikanum. (Opinb. 14:6) Húsráðendur hafa sagt að þeir hafi verið að biðja Guð um hjálp þegar vottarnir komu til þeirra. Tveir vottar fóru ásamt litlum dreng hús úr húsi á eyju í Karíbahafi. Þegar konurnar ákváðu að hætta og fara heim hélt drengurinn áfram og bankaði á næstu dyr. Ung kona kom til dyra. Þegar konurnar sáu það fóru þær þangað og töluðu við hana. Hún bauð þeim inn og sagðist einmitt hafa verið að biðja Guð um að senda votta til að kenna sér sannindi Biblíunnar.
4 Vitnum á götum úti: Sums staðar er mjög erfitt að hitta fólk heima. Þar hefur reynst árangursríkt að vitna fyrir fólki á götum úti. Þar sem við metum kærleika Jehóva notfærum við okkur allar hugsanlegar leiðir til að ná til fólks með ríkisboðskapinn. — Orðskv. 1:20, 21
5 Förum í endurheimsóknir: Við erum að leita að þeim „sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ Þess vegna gerum við okkar besta til að fullnægja slíkri þörf. (Matt. 5:3, NW) Þar af leiðandi verðum við að fara aftur til að vökva þau sannleiksfræ sem við höfum gróðursett. (1. Kor. 3:6-8) Systir í Ástralíu færði konu smárit en konan lét ekki í ljós mikinn áhuga. Samt sem áður var systirin ákveðin í að hitta hana aftur. Þegar hún hitti konuna loksins heima komst hún að því að eftir fyrstu heimsóknina hafði konan keypt sér dýra biblíu. Systirin fór að kenna henni sannindi Biblíunnar.
6 Höldum biblíunámskeið: Þetta getur verið ánægjulegasti og umbunarríkasti þátturinn í þjónustunni. Það er mikil blessun fólgin í því að hjálpa fólki að læra um Jehóva, sjá það gera breytingar á lífi sínu til að þóknast honum og vera síðan vitni að kristinni skírn þess til tákns um að það hafi vígt sig Guði. — 1. Þess. 2:20; 3. Jóh. 4
7 Í næsta tölublaði förum við yfir fleira sem færir okkur blessun ef við metum kærleika Jehóva.