Snyrtilegur og smekklegur klæðnaður sýnir Guði virðingu
1. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir næstkomandi landsmót?
1 Bráðum fáum við að vera þess heiðurs aðnjótandi að vera gestir Jehóva á landsmótinu „Gefið Guði dýrðina“. Við erum svo sannarlega þakklát Jehóva fyrir að bjóða okkur til þessarar andlegu veislu. Við getum sýnt virðingu okkar og þakklæti fyrir þessa andlegu veislu með klæðaburði okkar og snyrtingu. — Sálm. 116:12, 17.
2. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að vera hrein og snyrtileg?
2 Hrein og snyrtileg: Útlit okkar ætti að endurspegla staðla Guðs því að Guð er hreinn og skipulagður. (1. Kor. 14:33; 2. Kor. 7:1) Við ættum sjálf að vera hrein og snyrtileg, og sömuleiðis hár okkar og neglur. Ósnyrtilegur eða hirðuleysislegur klæðnaður er algengur nú á dögum. En þótt kvikmyndastjörnur eða íþróttahetjur séu ósnyrtilegar og hirðuleysislegar til fara er engin ástæða fyrir kristinn mann að vera eins. Ef við eltum nýjustu tísku gæti fólk átt erfitt með að greina á milli þeirra sem þjóna hinum sanna Guði og hinna sem þjóna honum ekki. — Mal. 3:18.
3. Hvernig getum við gengið úr skugga um að útlit okkar sé í samræmi við leiðbeiningarnar í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10?
3 Klæðnaður sem sæmir kristnum boðberum: Þegar Páll postuli skrifaði kristna umsjónarmanninum Tímóteusi, hvatti hann til ‚að konur skrýddu sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, . . . með góðum verkum, eins og sæmir konum, er Guð vilja dýrka.‘ (1. Tím. 2:9, 10) Við þurfum að hugleiða vandlega hvernig við klæðum okkur til að ganga úr skugga um að við séum vel klædd og til sóma í klæðaburði. Klæðnaður okkar ætti að vera snyrtilegur, hreinn og siðsamlegur — ekki smekklaus og ögrandi. — 1. Pét. 3:3.
4, 5. Hvaða viðvaranir ættu kristnir menn og kristnar konur að taka til sín?
4 Páll varaði okkur líka við því að fara út í öfgar með „fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum.“ (1. Tím. 2:9) Það er viturlegt af kristinni konu að nota farða, skartgripi og annars konar skraut í hófi. — Orðskv. 11:2.
5 Páll beindi ráðum sínum til kristinna kvenna en meginreglan á líka við kristna karlmenn. Bræður ættu að forðast tísku sem endurspeglar hugarfar heimsins. (1. Jóh. 2:16) Til dæmis er pokalegur og alltof stór klæðnaður vinsæll í mörgum löndum, en þess konar tíska er ekki viðeigandi fyrir boðbera Guðs.
6. Af hverju ættum við að vera til fyrirmyndar í klæðaburði okkar og snyrtingu þegar við ferðumst til og frá mótsstaðnum, á mótinu og eftir mótið dag hvern?
6 Afþreying eftir mótsdagskrána: Meirihluti bræðra og systra sýna frábært fordæmi með klæðaburði sínum og snyrtingu þegar þau eru á mótinu. Hins vegar hefur frést að sumir slaki á í þessum málum þegar þeir ferðast til og frá mótsstaðnum eða þegar þeir gera sér eitthvað til afþreyingar eftir dagskrána. Klæðnaður okkar og snyrting — hvort sem það er á meðan á dagskránni stendur eða á einhverjum öðrum tíma — hefur áhrif á það hvernig aðrir líta á fólk Guðs. Þar sem við erum með barmmerki mótsins ættum við alltaf að klæðast á þann hátt sem sæmir kristnum boðberum. Það fær oft aðra til að hrósa okkur og skapar tækifæri til að bera vitni. — 1. Kor. 10:31-33.
7. Hvaða áhrif getur smekklegur klæðaburður okkar og snyrting haft á aðra?
7 Smekklegur klæðaburður og snyrting göfgar þann boðskap sem við boðum og það skipulag sem við erum fulltrúar fyrir alveg eins og vingjarnlegt bros bætir útlitið. Eftir að hafa fylgst með okkur á landsmótinu „Gefið Guði dýrðina,“ gæti suma langað til að spyrjast fyrir um af hverju við erum öðruvísi og segja kannski seinna: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt [og séð], að Guð sé með yður.“ (Sak. 8:23) Sýnum því öll Jehóva djúpa virðingu með klæðaburði okkar og snyrtingu.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Verum virðuleg í útliti
▪ Þegar við erum á ferðalagi.
▪ Á mótinu.
▪ Þegar við gerum okkur eitthvað til afþreyingar.