Að prédika í síbreytilegum heimi
1 Hlutirnir geta breyst mjög hratt. Efnahagskreppa, umrót í stjórnmálum, umfjallaður sorgaratburður eða náttúruhamfarir geta á einni nóttu orðið aðalumræðuefni fólks. En á jafnskömmum tíma getur athygli fólks beinst að einhverju öðru. (Post. 17:21; 1. Kor. 7:31, NW) Hvernig getum við vakið athygli fólks á fagnaðarerindinu í þessum síbreytilega heimi?
2 Verum næm fyrir áhyggjum annarra: Ein leið til að ná athygli fólks er að minnast á atburði líðandi stundar. Jesús nefndi einu sinni nýafstaðinn sorgaratburð, sem var hlustendum hans ofarlega í huga, til þess að fá þá til að hugsa alvarlega um stöðu sína frammi fyrir Guði. (Lúk. 13:1-5) Þegar við boðum fólki fagnaðarerindið getur líka verið gott að nefna eitthvað sem er í fréttum eða málefni sem hefur verið til umræðu og vekur áhuga viðmælandans. Þegar við ræðum um slíkt verðum við samt að gæta þess að vera hlutlaus í þjóðfélags- og stjórnmálum. — Jóh. 17:16.
3 Hvernig getum við vitað hvað aðrir eru að hugsa? Það gæti verið einfaldast að spyrja spurningar og hlusta síðan á svarið. (Matt. 12:34) Persónulegur áhugi á öðrum fær okkur til að hlusta vel á skoðanir þeirra og spyrja þá háttvíslega fleiri spurninga. Það sem húsráðandinn segir af hendingu gæti gefið vísbendingar um það sem margir á svæðinu hafa áhyggjur af og þú gætir notað það til að bera vitni.
4 Að undirbúa kynningu: Þegar við undirbúum okkur fyrir boðunarstarfið í þessum síbreytilega heimi getum við nýtt okkur tillögurnar í Biblíusamræðubæklingnum. Undir yfirskriftinni „Atburðir líðandi stundar“ og „Glæpir/öryggi“ á bls. 2 og 4 má finna tillögur að því hvernig við getum notað atburði líðandi stundar í kynningum okkar. Finna má svipaðar tillögur á bls. 4 í Ríkisþjónustu okkar í september 2000. Þegar þú undirbýrð kynninguna skaltu muna eftir því að nota viðeigandi ritningarstað.
5 Við þurfum að taka eftir síbreytilegum áhyggjum fólksins á svæðinu og laga svo kynningu okkar á fagnaðarerindinu að því. Þá tölum við um það sem liggur fólki á hjarta og hjálpum fleirum að kynnast þeim Guði sem breytir hvorki lífsreglum sínum né eiginleikum. — Jak. 1:17.