Sýnum persónulegan áhuga með því að undirbúa okkur
1 Góður undirbúningur fyrir boðunarstarfið getur auðveldað okkur að sýna öðrum persónulegan áhuga. Hvernig þá? Þegar við erum vel undirbúin erum við ekki eins upptekin af því sem við ætlum að segja og getum því frekar beint athyglinni að húsráðandanum. Auk þess getur það dregið úr óöryggi og hjálpað okkur að tala frá hjartanu. En hvernig getum við undirbúið áhrifaríka kynningu?
2 Notaðu kynningarorð sem henta: Veldu eina tillögu úr Ríkisþjónustu okkar í janúar 2006 sem hentar í þínu byggðarlagi og hugleiddu hvernig þú gætir notað hana með eigin orðum. Lagaðu kynninguna að starfssvæðinu. Ef líkur eru á að þú hittir fólk sem tilheyrir ákveðinni trú eða þjóðerni skaltu velta fyrir þér hvernig þú gætir höfðað til þeirra. Með því að sníða kynningarorðin að þörfum hvers og eins sýnir þú þeim einlægan áhuga. — 1. Kor. 9:22.
3 Betrumbættu kynninguna eftir að þú byrjar að nota hana. Þar sem upphafsorðin eru sérstaklega mikilvæg skaltu taka eftir því hvernig fólk bregst við þeim. Vekur umræðuefnið áhuga þeirra? Sýnir fólk einhver viðbrögð við spurningunum sem þú spyrð? Ef svo er ekki gerðu þá þær breytingar sem þarf til að kynningin skili árangri.
4 Minnishjálp: Mörgum finnst erfitt að muna kynningarorðin þegar þeir standa við hurðina. Kannast þú við þetta vandamál? Hefurðu prófað að æfa þig upphátt og fara með kynninguna fyrir einhvern annan? Það getur hjálpað þér að hafa umræðuefnið skýrt í huga og setja það fram á einfaldan og rökréttan hátt. Það getur líka búið þig undir að bregðast við mismunandi viðbrögðum fólks.
5 Annað sem getur hjálpað þér að muna kynninguna er að skrifa niður stuttan útdrátt á lítinn miða og renna augunum yfir hann rétt áður en þú kemur að dyrunum. Sumum hefur fundist þetta hjálpa sér að vera afslappaðri og betur í stakk búnir til að ræða við fólk. Það er augljóst að góður undirbúningur getur hjálpað okkur að sýna fólki persónulegan áhuga og um leið koma fagnaðarerindinu enn betur til skila.