Hópstarf er ánægjulegt
1 Þegar Jesús sendi 70 lærisveina til að prédika lét hann þá fara tvo og tvo saman, sagði þeim hvað þeir ættu að segja og útskýrði fyrir þeim hvaða svæði þeir ættu að fara yfir. Þetta veitti þeim gleði. (Lúk. 10:1-17) Hópstarf er líka hvetjandi fyrir fólk Guðs núna og hjálpar því að skipuleggja sig og undirbúa fyrir boðunarstarfið.
2 Öldungarnir fara með forystuna: Öldungar gegna lykilhlutverki í því að hjálpa öllum að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu. Starfshirðirinn fer með forystuna og skipuleggur samkomur fyrir boðunarstarfið á virkum dögum. Bóknámsumsjónarmennirnir sjá um að skipuleggja starf hvers bóknámshóps fyrir sig, sérstaklega um helgar. Þegar allur söfnuðurinn kemur saman fyrir boðunarstarfið, til dæmis eftir Varðturnsnámið, skal hver bóknámsumsjónarmaður sjá um hópinn sinn.
3 ,Sómasamlega og með reglu‘: Sá sem sér um samansöfnun ætti að sjá til þess að hún hefjist stundvíslega og sé ekki lengri en 10 til 15 mínútur. Best væri að hann skipulegði hverjir starfi saman í hóp og úthlutaði þeim svæði (nema bóknámsumsjónarmaðurinn sjái um það eins og áður er nefnt) áður en hann lýkur samansöfnuninni með bæn. Þá þurfa boðberarnir síður að safnast saman þegar þeir eru komnir á svæðið en það gæti dregið úr virðingu annarra fyrir starfi okkar. Það er líka í samræmi við ráðleggingar Páls: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Kor. 14:40) Allir sem sækja samansafnanir ættu að leggja sitt af mörkum til að þær gangi vel með því að mæta tímanlega, vera samvinnuþýðir við þann sem sér um samansöfnunina og fara fljótlega á starfssvæðið eftir að henni lýkur.
4 Sameinuð í einingu: Hópstarf veitir okkur mjög gott tækifæri til að kynnast öðrum í söfnuðinum. Þótt ekkert mæli á móti því að ákveða fyrir fram að starfa með einhverjum getur líka verið gott fyrir okkur að mæta í samansöfnun án þess að vera búin að skipuleggja samstarf. Þá verðum við kannski beðin um að starfa með einhverjum sem við þekkjum ekki vel og þannig getum við kynnst fleirum og ‚látið verða rúmgott í hjarta okkar‘. — 2. Kor. 6:11-13.
5 Hópstarf er hvetjandi og það sameinar okkur sem „samverkamenn sannleikans“. (3. Jóh. 8) Tökum því ríkulega þátt í því.