Hvernig getur starfshópurinn verið okkur til góðs?
1. Hvers njótum við núna í starfshópnum okkar sem við nutum áður í bóknámshópnum?
1 Saknarðu bóknámsins? Hóparnir voru fámennir og umhverfið afslappað. Það gerði manni kleift að eignast vini sem styrktu mann í trúnni. (Orðskv. 18:24) Bóknámsumsjónarmaðurinn kynntist aðstæðum okkar vel og gat þannig veitt okkur persónulega hvatningu. (Orðskv. 27:23; 1. Pét. 5:2, 3) Alls þessa getum við nú notið í starfshópnum okkar.
2. Hvernig getum við tekið frumkvæðið í að eignast vini í starfshópnum sem styrkja okkur í trúnni?
2 Taktu frumkvæðið: Starfshóparnir eru álíka stórir og bóknámshóparnir voru. Með því að,berjast saman fyrir trúnni‘ geta náin vináttutengsl myndast. (Fil. 1:27, Biblían 1981) Hvað hefurðu starfað með mörgum úr hópnum þínum? Rúmast kannski fleiri á samstarfslistanum? (2. Kor. 6:13) Auk þess gætum við af og til boðið einhverjum úr hópnum að vera með á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar eða að borða með okkur. Í sumum söfnuðum skiptast starfshóparnir á að bjóða gestkomandi ræðumanni í mat. Þá hittast allir í hópnum til að borða saman og uppörva hver annan, hvort sem ræðumaðurinn getur komið eða ekki.
3. Hvað getum við gert til að fá stuðning og leiðsögn í starfshópnum?
3 Þar sem við komum sjaldnar saman sem söfnuður núna mætti ætla að boðberar fái færri hirðisheimsóknir en áður, en svo ætti ekki að vera. Umsjónarmaður er skipaður í hverjum starfshóp til að hvetja hvern og einn og þjálfa í boðunarstarfinu. Væri ekki ráð að biðja umsjónarmanninn í hópnum þínum um samstarf ef hann hefur ekki enn þá farið með þér í starfið? Auk þess notar starfshirðirinn eina helgi í mánuði til að starfa með mismunandi hópum. Í smærri söfnuðum, þar sem starfshóparnir eru fáir, gæti starfshirðirinn heimsótt hópana tvisvar á ári. Gætirðu tekið frá tíma til að fara í boðunarstarfið þegar hann heimsækir hópinn þinn?
4. (a) Hvernig er samansöfnunum fyrir boðunarstarfið háttað? (b) Hvers vegna ættum við að íhuga hvort við gætum boðið fram heimili okkar fyrir samansafnanir?
4 Það er mikið hagræði að því þegar hver starfshópur hefur sína eigin samansöfnun um helgar. Að hittast á mismunandi stöðum á hér um bil sama tíma getur auðveldað boðberum að komast í samansafnanir og jafnvel út á svæðið. Skemmri tíma tekur að ákveða hverjir starfa saman og boðberar geta farið fyrr út í boðunarstarfið. Það er líka auðveldara fyrir umsjónarmanninn að fylgjast náið með þeim sem eru undir hans umsjá. En stundum gæti verið skynsamlegt að tveir eða fleiri starfshópar sameinist. Ef haldin er sameiginleg samansöfnun fyrir allan söfnuðinn fyrsta laugardag mánaðarins eða eftir Varðturnsnámið væri gott að hver hópur um sig sitji saman. Einnig ættu umsjónarmennirnir að fá nokkrar mínútur til að skipuleggja sinn hóp áður en samansöfnuninni lýkur með bæn. – Sjá rammann „Geturðu boðið fram heimili þitt?“
5. Um hvað getum við verið viss þótt bóknámið sé liðin tíð?
5 Þótt safnaðarbóknámið sé liðin tíð heldur Jehóva áfram að sjá okkur fyrir öllu því sem við þurfum til að gera vilja hans. (Hebr. 13:20, 21) Okkur skortir ekkert þegar Jehóva sér um okkur. (Sálm. 23:1) Starfshópurinn getur á margan hátt verið okkur til góðs. Ef við tökum frumkvæðið og,sáum ríflega‘ munum við „ríflega uppskera“. – 2. Kor. 9:6.
[Rammi á bls. 6]
Geturðu boðið fram heimili þitt?
Í sumum söfnuðum sameinast starfshópar um helgar vegna þess að það er skortur á einkaheimilum þar sem hægt er að hittast. Samansafnanir eru líka samkomur sem haldnar eru á vegum safnaðarins svo að það er ómetanlegt að fá að halda þær heima hjá sér. Gætirðu boðið fram heimili þitt? Ekki láta það hindra þig þótt heimili þitt sé látlaust. Öldungarnir taka ýmislegt með inn í myndina, eins og þeir gerðu þegar þeir ákváðu hvar bóknámið skyldi haldið. Staðsetningin er til dæmis mikilvæg. Ef þú getur boðið fram heimili þitt láttu þá umsjónarmanninn í starfshópunum þínum vita.