Eigum gott samstarf við bóknámsstjórann okkar
1 Safnaðarbóknámið gegnir þýðingarmiklu hlutverki í að þroska hæfni okkar sem þjóna fagnaðarerindisins. Hóparnir eru af ásettu ráði hafðir litlir til að stuðla að hlýlegu og heimilislegu andrúmslofti til að nema Biblíuna og eitt af ritum Félagsins. Þessar minni einingar skapa einnig góðar aðstæður til að þjálfa okkur í að vera skilvirkari í boðunarstarfinu á akrinum. Bóknámsfyrirkomulagið gefur einstaklingunum gott færi á að fá persónulega uppörvun og athygli. Hvernig getum við átt sem best samstarf við bóknámsstjórann og haft gagn af þessari ágætu ráðstöfun?
2 Kostgæf þátttaka í boðunarstarfinu: Eitt af mikilvægustu ábyrgðarstörfum bóknámsstjórans er að hjálpa öllum meðlimum hópsins að taka með kostgæfni þátt í boðunarstarfinu. Hvað þessu viðvíkur minnir Þjónustubókin á bls. 44 okkur á að „sú reglufesta, kostgæfni og eldmóður, sem bóknámsstjórinn sýnir í boðunarstarfinu, muni endurspeglast hjá boðberunum.“ Stundum mun bóknámsstjórinn fara út í starfið með sínum eigin fjölskyldumeðlimum en hann mun einnig með ánægju fara með öðrum í hina ýmsu þætti boðunarstarfsins eftir því sem kringumstæður hans leyfa. Getur þú gert þér að venju að styðja samansafnanirnar? Bæði bóknámsstjórinn þinn og aðrir boðberar myndu meta það mjög mikils.
3 Samkomur til boðunarstarfsins, samansafnanir, eru settar upp á hentugum stöðum til þess að allir geti tekið af kostgæfni þátt í prédikunarstarfinu. Hver hópur mun vilja skipuleggja samansafnanir þannig að tíminn nýtist sem best. Sums staðar og á vissum árstímum hefur boðunarstarf fyrir hádegi gefið góða raun svo og einnig snemma á kvöldin.
4 Langar þig til að fá aðstoð við einhvern þátt boðunarstarfsins? Ef til vill getur bóknámsstjórinn þinn komið því í kring að hæfur boðberi í hópnum starfi með þér. Í lok mánaðarins skaltu síðan vera viss um að skila inn starfsskýrslu án tafar. Bæði bóknámsstjórinn og ritarinn munu kunna að meta samvinnu þína á þessu mikilvæga sviði einnig. — Samanber Lúkas 16:10.
5 Þegar starfshirðirinn heimsækir hópinn: Starfshirðirinn heimsækir yfirleitt einn bóknámshóp í hverjum mánuði til að hvetja til aukins og áhrifaríkara starfs úti á akrinum. Gefðu góðan gaum að 15-mínútna ræðunni sem hann flytur í lok bóknámsins því að í henni munu koma fram afmarkaðar leiðbeiningar sem munu hjálpa hópnum að taka framförum í ýmsum þáttum prédikunarstarfsins. Starfshirðirinn er einnig óðfús að starfa með mismunandi meðlimum bóknámshópsins um helgina. Láttu ekki undir höfuð leggjast að notfæra þér þessa sérstöku ráðstöfun til þess að þú getir haft gagn af reynslu hans og hæfni úti á akrinum.
6 Fordæmi okkar í því að eiga gott samstarf við bóknámshópinn og vera fús til að aðstoða þá reynsluminni mun hjálpa til að skapa hlýlegt og vingjarnlegt andrúmsloft í safnaðarbóknáminu er við vinnum að því að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ — Gal. 6:10.