Hrós er hressandi
1 „Er ég ekki búin að vera góð í dag?“ spurði litla stúlkan kjökrandi þegar hún var að fara að sofa. Spurningin kom móðurinni í opna skjöldu. Þótt hún hefði tekið eftir hversu mikið dóttirin hafði lagt á sig þennan dag til að reyna að vera góð gleymdi hún að hrósa henni fyrir það. Þetta minnir okkur á að við þurfum öll að fá hrós, hvort sem við erum ung eða aldin. Hressum við aðra í kringum okkur með því að hrósa þeim fyrir það góða sem þeir gera? — Orðskv. 25:11.
2 Við höfum margar góðar ástæður til að hrósa trúsystkinum okkar. Öldungar, safnaðarþjónar og brautryðjendur vinna hörðum höndum að því að rækja skyldur sínar. (1. Tím. 4:10; 5:17) Guðhræddir foreldrar gera sitt besta til að ala börnin upp í sannleikanum. (Ef. 6:4) Kristin ungmenni berjast harðri baráttu gegn „anda heimsins“. (1. Kor. 2:12; Ef. 2:1-3) Og aðrir þjóna Jehóva trúfastlega þrátt fyrir heilsubrest, háan aldur eða aðrar prófraunir. (2. Kor. 12:7) Öll eiga þau hrós skilið. En munum við eftir því að hrósa þeim?
3 Hrósum þeim persónulega: Við kunnum öll vel að meta það þegar ræðumaður hrósar öllum söfnuðinum. En það er jafnvel enn betra þegar okkur er hrósað persónulega. Páll hrósar til dæmis Föbe, Prisku, Akvílasi, Trýfænu, Trýfósu, Persis og öðrum í 16. kafla Rómverjabréfsins. (Rómv. 16:1-4, 12) Það hlýtur að hafa verið hressandi fyrir þessa trúföstu lærisveina. Hrós sem þessi styrkja sambönd okkar við trúsystkini okkar og fullvissa þau um að við þurfum á þeim að halda. Hefur þú hrósað einhverjum nýlega? — Ef. 4:29.
4 Frá hjartanu: Ef hrós á að vera hressandi þarf það að koma frá hjartanu. Fólk getur venjulega skynjað hvort við erum einlæg eða erum einungis að ‚smjaðra‘ fyrir því. (Orðskv. 28:23) Þegar við leggjum okkur fram um að sjá það góða í fari annarra langar okkur til að hrósa þeim. Við skulum því vera dugleg að hrósa beint frá hjartanu því að „fagurt er orð í tíma talað“. — Orðskv. 15:23.