Sýnum persónulegan áhuga með því að hrósa
1 Einlægt hrós er hressandi, hvetur til athafna og veitir gleði. Margir boðberar hafa fundið fyrir því í starfinu að smá hrósyrði, sem sagt er í einlægni, verður oft til þess að fólk leggur við hlustir. Hvernig getum við hrósað fólki um leið og við boðum því fagnaðarerindið?
2 Verum athugul: Hinn dýrlegi Jesús Kristur tók eftir góðum verkum safnaðanna sjö í Litlu-Asíu. (Opinb. 2:2, 3, 13, 19; 3:8) Á svipaðan hátt verður einlægur áhugi á fólkinu, sem við hittum í starfinu, til þess að við leitum færis á að koma hrósyrðum að. Vel hirtur garður, foreldri sem sýnir börnum sínum væntumþykju eða vingjarnlegt bros og hlýjar móttökur húsráðanda veita til dæmis tilefni til þess. Erum við fljót að taka eftir slíkum tækifærum og nýta okkur þau?
3 Hlustum vel: Fáum þá sem við prédikum fyrir til að tjá sig með því að spyrja viðeigandi spurninga. Virðum þá með því að hlusta með athygli á það sem þeir hafa að segja. (Rómv. 12:10) Líklega heyrir þú eitthvað sem þú getur hrósað þeim fyrir og síðan byggt umræðurnar á þessum sameiginlega grundvelli.
4 Sýnum dómgreind: Hvað eigum við að gera ef húsráðandi segir eitthvað sem er ekki í samræmi við sannleika Biblíunnar? Í stað þess að vera húsráðanda ósammála skulum við virða það sem hann segir og síðan getum við sagt: „Ég heyri að þú hefur hugsað mjög mikið um þetta efni.“ (Kól. 4:6) Jafnvel þótt viðmælandinn sé deilugjarn getum við oft hrósað honum fyrir einlægan áhuga á efninu. Hlýleg framkoma getur mildað þann sem virðist ákveðinn í að vera á móti fagnaðarerindinu. — Orðskv. 25:15.
5 Hrós okkar verður að vera sprottið af einlægni eigi það að hafa áhrif. Með því að tala þannig á uppbyggilegan hátt heiðrum við Jehóva og það gæti einnig orðið til þess að aðrir dregðust að fagnaðarerindinu um Guðsríki.