Spurningakassinn
◼ Hvernig getum við séð til þess að safnaðarsamkomur haldist innan settra tímamarka?
Tíminn flýgur þegar við erum að segja vinum okkar frá einhverju áhugaverðu. Þess vegna getur verið erfitt að halda sig innan settra tímamarka þegar við höfum umsjón með dagskrárlið á samkomum. Hvað getur hjálpað til í þessum efnum?
Byrjaðu á réttum tíma. Þegar allur söfnuðurinn kemur saman getur verið gott að bjóða áheyrendum að fá sér sæti einni eða tveim mínútum áður en samkoman á að hefjast. Þannig er hægt að byrja á réttum tíma og með skipulegum hætti. (Préd. 3:1) Þegar minni hópar safnast saman, eins og á samkomum fyrir boðunarstarfið, ætti ekki að bíða eftir þeim sem hugsanlega koma seint.
Undirbúðu þig vel. Góður undirbúningur er mikilvægur þáttur í því að halda sig innan settra tímamarka. Hafðu markmið verkefnisins skýrt í huga. Komdu auga á aðalatriðin og leggðu sérstaka áherslu á þau. Gættu þess að fara ekki út af sporinu með því að einblína of mikið á smáatriði. Settu efnið fram á einfaldan hátt. Æfðu viðtöl og sýnidæmi fyrir fram ef þau eru hluti af dagskrárliðnum. Taktu einnig tímann að því marki sem hægt er þegar þú æfir þig upphátt.
Skiptu efninu niður. Það getur verið gagnlegt að skipta efninu niður hvort sem þú ert að flytja ræðu eða stýra umræðum við áheyrendur. Ákveddu hversu miklum tíma þú vilt verja í hvern hluta og skrifaðu það á spássíuna á uppkastinu. Fylgstu síðan með tímanum á meðan á flutningnum stendur. Þegar þú stýrir umræðum við áheyrendur skaltu ekki falla í þá gryfju að leyfa svo mörgum að svara í byrjun að þú þurfir að flýta þér að fara yfir veigameiri atriði sem koma fram síðar. Varðturnsnámsstjórinn ætti að sjá til þess að nægur tími sé til að fara yfir upprifjunarspurningarnar í lokin. Hann ætti líka að gæta þess að ganga ekki á þann tíma sem ætlaður er fyrir lokasöng og bæn.
Ljúktu á réttum tíma. Þegar samkoma samanstendur af nokkrum dagskrárliðum, eins og Þjónustusamkoman, ætti hver ræðumaður að vita hvenær verkefni hans á að hefjast og hvenær því á að ljúka. En hvað er hægt að gera ef samkoman er á eftir áætlun? Þeir bræður, sem hafa umsjón með næstu dagskrárliðum, gætu bætt það upp með því að einbeita sér að aðalatriðunum og sleppa sumum smáatriðum. Ef þeir eru færir um það er það merki um góða kennsluhæfileika.
Áheyrendur geta hjálpað bræðrunum, sem hafa umsjón með dagskrárliðum, með því að hafa svör sín stutt og hnitmiðuð. Þannig getum við öll stuðlað að því að samkomurnar „fari sómasamlega fram og með reglu“. — 1. Kor. 14:40.