Leiðbeiningar handa þeim sem eru með verkefni á þjónustusamkomum
Héðan í frá verður orðalagið fyrir dagskrá þjónustusamkomunnar einfaldað. Leiðbeiningarnar hér á eftir koma í stað þeirra sem birtust í greininni „Hvernig ættum við að búa okkur undir þjónustusamkomur?“ í Ríkisþjónustunni í maí 2009.
◼ Ræða: Hér er átt við ræðu án þátttöku áheyrenda byggða á tilgreindu efni. Ræðumaðurinn á að draga fram það sem söfnuðurinn hefur mest gagn af.
◼ Spurningar og svör: Þessi dagskrárliður er með stuttum inngangi og niðurlagi og spurningum við hverja grein líkt og í Varðturnsnáminu. Stjórnandinn ætti ekki að tala mikið sjálfur. Hægt er að lesa lykilritningarstaði eins og tími leyfir. Ekki á að lesa upp greinarnar nema það sé sérstaklega tekið fram.
◼ Ræða með þátttöku áheyrenda: Þetta er ræða en með þátttöku áheyrenda að einhverju marki. Þetta er ekki eingöngu ræða og ekki eingöngu spurningar og svör.
◼ Sýnidæmi og viðtöl: Þegar segir í leiðbeiningum að í dagskrárlið eigi að vera sýnidæmi þýðir það að bróðirinn, sem hefur umsjón með dagskrárliðnum, beri ábyrgð á sýnidæminu en hann þarf ekki sjálfur að taka þátt í því. Þeir sem hann velur til að hafa sýnidæmin ættu að vera hæfir og til fyrirmyndar og hann ætti að fela þeim verkefnið með góðum fyrirvara. Hann ætti ekki að fá nýjum og óreyndum boðberum það hlutverk að sýna söfnuðinum hvernig sinna eigi boðunarstarfinu, til þess eins að þeir fái að fara upp á svið. Sumir þeirra gætu þó leikið húsráðanda. Boðberar, sem sviðsetja kynningu, eiga að gæta þess að snúa að áheyrendum. Þegar viðtal er tekið við boðbera er best að hann komi upp á sviðið en sitji ekki í sætinu. Sýnidæmi og viðtöl ætti að æfa fyrir fram. Ef það lítur út fyrir að dagskrá samkomunnar fari yfir tímann og bróðir þarf að stytta dagskrárlið er gott að halda sýnidæmum og viðtölum en sleppa öðru. Safnaðarþjónar eiga að ræða við umsjónarmann öldungaráðsins eða annan öldung áður en þeir velja þátttakendur.
Ef sérstakar leiðbeiningar fylgja ákveðnum dagskrárlið ætti að fara nákvæmlega eftir þeim. Með því að fylgja leiðbeiningunum að ofan stuðla bræður að því að þjónustusamkomur „fari sómasamlega fram og með reglu“. — 1. Kor. 14:40.