„Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu“
Minningarhátíðin um dauða Jesú verður haldin 4. apríl
1 Fyrir mörgum árum, þegar Úkraína var undir stjórn kommúnista, fylgdust yfirvöldin grannt með vottunum í þeirri von að komast að því hvar þeir söfnuðust saman. Sérstaklega var fylgst vel með þeim þegar minningarhátíðin um dauða Jesú nálgaðist. Þetta olli alltaf erfiðleikum því að yfirvöldin vissu nokkurn veginn hvenær hátíðin ætti að eiga sér stað. Hvað gátu vottarnir gert? Það hafði flætt inn í kjallarann hjá einni systurinni. Þar sem yfirvöld gátu ekki búist við því að fólk safnaðist saman á slíkum stað smíðuðu vottarnir pall yfir hnédjúpt vatnið. Þótt lágt væri til lofts og þeir hafi þurft að hnipra sig saman á pallinum ónáðaði þá enginn meðan þeir héldu minningarhátíðina glaðir í bragði.
2 Staðfesta úkraínsku trúbræðranna í að hlýða boðinu um að minnast dauða Jesú var einstök sönnun um kærleika þeirra til Guðs. (Lúk. 22:19; 1. Jóh. 5:3) Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum skulum við því láta dæmi sem þessi vera okkur til hvatningar og vera staðráðin í að halda hátíðlega kvöldmáltíð Drottins 4. apríl. Með því sýnum við að okkur er innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem söng: „Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu.“ — Sálm. 31:24.
3 Hjálpum öðrum að efla kærleikann til Guðs: Kærleikur til Guðs fær okkur einnig til að bjóða öðrum að halda minningarhátíðina hátíðlega með okkur. Í viðauka Ríkisþjónustu okkar fyrir febrúar var hvert og eitt okkar hvatt til að gera lista yfir þá sem við ætlum að bjóða á minningarhátíðina. Hefurðu fylgt því eftir og boðið öllum sem eru á listanum? Gefðu þér tíma til að útskýra fyrir þeim hversu mikilvægur þessi viðburður er. Þú gætir hvatt þá til að mæta með því að minna þá vingjarnlega á stund og stað og bjóðast til að ná í þá ef þörf krefur.
4 Á minningarhátíðinni skaltu gera þér sérstaklega far um að heilsa og taka hlýlega á móti þeim sem þáðu boðið. Hvernig getur þú hjálpað þeim að efla kærleikann til Jehóva? Vertu alltaf reiðubúinn til að svara spurningum þeirra. Vertu vakandi fyrir því að bjóða þeim biblíunámskeið ef aðstæður leyfa. Bjóddu þeim á vikulegar safnaðarsamkomur. Öldungar ættu sérstaklega að beina athyglinni að þeim óvirku einstaklingum sem eru viðstaddir. Þeir geta heimsótt þá og hvatt til að tengjast söfnuðinum aftur með hliðsjón af því sem kom fram í ræðunni á minningarhátíðinni. — Rómv. 5:6-8.
5 Dýpkum kærleika okkar til Jehóva: Með því að hugsa um lausnarfórnina getum við dýpkað kærleika okkar til Jehóva og sonar hans. (2. Kor. 5:14, 15) Vottur nokkur sem hefur sótt minningarhátíðina í mörg ár sagði: „Við hlökkum mikið til minningarhátíðarinnar og kunnum betur að meta hana með hverju ári. Ég man eftir að hafa staðið á útfararstofunni fyrir 20 árum og horft á föður minn. Þá varð ég virkilega þakklát fyrir lausnargjaldið. Fram að því hafði það aðeins verið eitthvað sem ég hafði lært um. Ég þekkti alla ritningarstaðina og gat útskýrt þá en það var ekki fyrr en ég fann fyrir hinum kalda veruleika dauðans að hjarta mitt hrópaði af gleði yfir því sem þetta dýrmæta lausnargjald mun koma til leiðar fyrir okkur.“ — Jóh. 5:28, 29.
6 Eftir því sem nær dregur minningarhátíðina skaltu gefa þér góðan tíma til að undirbúa hjartað. (2. Kron. 19:3) Hugleiddu þá ritningarstaði sem á að lesa fyrir hátíðina og er að finna í Rannsökum daglega ritningarnar — 2004 og á dagatalinu. Margir hafa haft ánægju af því í fjölskyldunáminu að fara yfir kaflana 112-16 í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Aðrir rannsaka efnið enn frekar með því að nota önnur hjálpargögn sem hinn trúi og hyggni þjónshópur hefur látið í té. (Matt. 24:45-47) Öll getum við minnst lausnarfórnarinnar í einlægum bænum. (Sálm. 50:14, 23) Vikurnar fyrir og eftir minningarhátíðina skulum við halda stöðugt áfram að íhuga kærleika Jehóva til okkar og leita leiða til að láta í ljós kærleika okkar til hans. — Mark. 12:30; 1. Jóh. 4:10.