Nýtt fyrirkomulag á upprifjun mótanna
Eftir því sem heimur Satans sekkur æ dýpra í illskuna gefur Jehóva okkur þann styrk sem við þurfum til að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. (Tít. 2:12) Árlegu svæðismótin og sérstöku mótsdagarnir eru meðal þess sem Jehóva gefur okkur fyrir milligöngu hins ,trúa og hyggna þjóns‘. (Matt. 24:45) Þessar andlegu samkomur eru einkar styrkjandi.
Á þjónustuárinu 2005 verður nýtt fyrirkomulag á upprifjun þessara móta til að hjálpa okkur að muna eftir kennslunni og fara eftir henni. Á blaðsíðu 5-6 í þessum viðauka eru upprifjunarspurningar fyrir mótin og greinar sem veita okkur innsýn í dagskrána. Söfnuðirnir fara yfir þessar greinar á þjónustusamkomu stuttu fyrir mótin og stuttu eftir mótin. Hvernig fer þetta fram?
Fáeinum vikum áður en söfnuðurinn sækir svæðismótið verður farið yfir greinina „Ný svæðismótsdagskrá“ í tíu mínútna ræðu á þjónustusamkomunni til að vekja eftirvæntingu eftir dagskránni. Ræðumaðurinn vekur einnig athygli á upprifjunarspurningunum og hvetur alla til að skrifa minnispunkta svo að þeir séu búnir undir upprifjunina sem fram fer nokkrum vikum eftir mótið.
Fáeinum vikum eftir mótið verður 15 mínútna upprifjun á fyrri degi mótsins á þjónustusamkomunni. Í vikunni þar á eftir verður dagskrá seinni dagsins rifjuð upp á 15 mínútum. Upprifjunarspurningarnar í þessum viðauka verða notaðar í umræðunum. Í upprifjuninni ætti að beina athyglinni að hagnýtu gildi efnisins. Tilkynnt verður í Ríkisþjónustunni hvenær þessir dagskrárliðir verða.
Sama tilhögun verður í tengslum við sérstaka mótsdaginn fyrir utan að farið verður yfir alla dagskrána á 15 mínútum. Allir ættu að halda þessum viðauka til haga til að hafa sem mest gagn af kennslunni sem Jehóva veitir. — Jes. 48:17, 18.