Það er heiður að fá að boða fagnaðarerindið um ríkið
1 Á hverjum degi njóta milljarðar manna góðs af því sem Jehóva hefur gert í örlæti sínu til að viðhalda lífi þeirra. (Matt. 5:45) Hins vegar hafa mjög fáir þann heiður að sýna skapara sínum þakklæti með því að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. (Matt. 24:14) Hversu mikils metur þú þennan einstaka heiður?
2 Boðun Guðsríkis er Guði til heiðurs og færir fólki, sem er þjakað sökum ólgunnar í heiminum, von og frið. (Hebr. 13:15) Þeir sem taka við boðskapnum fá von um eilíft líf. (Jóh. 17:3) Er einhver veraldlegur starfsframi eða starfsgrein sem hefur slíkan ávinning upp á að bjóða? Páll postuli sýndi að hann kunni að meta þjónustu sína og það birtist í því hvernig hann innti hana af hendi. Hann leit á hana sem fjársjóð. — Post. 20:20, 21, 24; 2. Kor. 4:1, 7.
3 Sýnum þakklæti fyrir þann heiður sem við höfum: Ein leið til að sýna þakklæti fyrir þann heiður að prédika er að huga að því hversu vel við innum þjónustu okkar af hendi. Tökum við frá tíma til að undirbúa kynningu sem snertir hjarta áheyrenda okkar? Getum við tekið framförum í að nota Biblíuna og rökræða við fólk? Förum við vel yfir svæðið sem okkur hefur verið úthlutað? Getum við hafið biblíunámskeið og stýrt því? Líkt og trúfastir kristnir menn, bæði fyrr og nú, sjáum við þetta starf í réttu ljósi þannig að við metum það mikils að mega taka þátt í því. — Matt. 25:14-23.
4 Þegar vandamál ellinnar, slæm heilsa eða aðrar erfiðar aðstæður koma upp er hughreystandi til þess að vita að það sem við leggjum á okkur til að eiga þátt í boðunarstarfinu er mikils metið. Orð Guðs fullvissar okkur um að Jehóva kunni að meta slíka viðleitni í þjónustunni við hann jafnvel þó að það sem við gerum virðist ekki mikið í augum annarra. — Lúk. 21:1-4.
5 Boðun Guðsríkis veitir mikla gleði. Systir, sem er 92 ára, sagði: „Það er mikill heiður að geta horft til baka yfir 80 ára heilshugar þjónustu við Guð og sjá ekki eftir neinu. Ef ég gæti lifað líf mitt upp á nýtt myndi ég lifa því á sama hátt vegna þess að ,miskunn Guðs er mætari en lífið‘.“ (Sálm. 63:4) Við skulum einnig meta mikils þá þjónustu sem Guð hefur fengið okkur — boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki.