Það er heiður að mega þjóna Guði
1 Frá upphafi mannkynssögunnar hefur Jehóva gefið þjónum sínum alls konar gjafir. Hann hefur gert það óháð kyni þeirra, aldri eða stöðu í lífinu. (Lúk. 1:41, 42; Post. 7:46; Fil. 1:29) Hvaða gjafir hefur hann gefið okkur nú á dögum?
2 Gjafir frá Guði: Við erum þess heiðurs aðnjótandi að fá kennslu frá Jehóva. (Matt. 13:11, 15) Annað sem við metum líka mikils er að mega lofa Jehóva með því að svara á safnaðarsamkomum. (Sálm. 35:18) Við erum fús til að svara þegar við fáum tækifæri til þess. Og ef okkur finnst öll verkefni innan safnaðarins vera verðmæt þá munum við gera okkar besta þegar við innum þau af hendi. Erum við dugleg að hjálpa til við að halda ríkissalnum hreinum og í góðu ástandi?
3 Enda þótt milljónir manna velti því fyrir sér hvort Guð heyri bænir þeirra njótum við þess heiðurs að vita að mikilvægasta persónan í alheimi heyrir bænir okkar. (Orðskv. 15:29) Jehóva hlustar sjálfur á bænir þjóna sinna. (1. Pét. 3:12) Hann setur engar hömlur á það hve oft við megum nálgast hann í bæn. Við erum afar þakklát fyrir þá dýrmætu gjöf að fá að biðja „á hverri tíð“. — Ef. 6:18.
4 „Samverkamenn Guðs“: Ein besta gjöfin sem okkur hefur verið gefin er sú að mega vera „samverkamenn Guðs“ og boða fagnaðarerindið um ríkið. (1. Kor. 3:9) Þetta verkefni er bæði gefandi og ánægjulegt. (Jóh. 4:34) Jehóva þarf ekki á því að halda að við mennirnir sinnum þessu verki en hann hefur samt fengið okkur það því að hann elskar okkur. (Lúk. 19:39, 40) Jehóva lætur þó ekki hvern sem er annast þetta verkefni. Þeir sem taka þátt í boðunarstarfinu verða að uppfylla vissar kröfur. (Jes. 52:11) Látum við í ljós þakklæti fyrir þessa gjöf með því að fara í boðunarstarfið í hverri viku?
5 Þjónustan við Jehóva auðgar líf okkar. (Orðskv. 10:22) Við skulum aldrei líta á hana sem sjálfsagðan hlut. Við gleðjum föður okkar á himnum með því að sýna að við metum mikils að mega þjóna honum, en frá honum kemur „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“. — Jak. 1:17.